Hoppa yfir valmynd
11. júní 2019 Forsætisráðuneytið

788/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 788/2019 í málum ÚNU 18100004 og 19030013.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. október 2018, kærði A afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins („TR“) á beiðni um aðgang að gögnum.

Forsaga málsins er sú að kærandi óskaði eftir því með erindi, dags. 11. janúar 2018, að allar upplýsingar um son kæranda yrðu gerðar aðgengilegar á svokölluðum „mínum síðum“ kæranda. Þá óskaði kærandi eftir því að fá allan póst er varðaði son hans, svo kærandi yrði upplýstur um öll samskipti varðandi hann. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 756/2018 var lagt fyrir TR að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar, meðal annars þar sem stofnuninni hefði borið að meta hvort kærandi ætti rétt á aðgangi að umbeðnum upplýsingum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Með bréfi, dags. 20. september 2018, tók TR nýja ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda. Þar segir að stofnunin hafi óskað eftir afstöðu barnsmóður kæranda til beiðninnar í samræmi við 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Í svari hennar hafi komið fram að hún samþykkti einungis að veittur yrði aðgangur að læknisfræðilegum gögnum, umönnunarmötum og umönnunarkortum en ekki gögnum sem geti varðað hennar einkamálefni. Í ákvörðun TR kemur fram að stofnunin hafi áður birt kæranda á „mínum síðum“ umönnunarmöt og umönnunarkort. Stofnunin hafi því einnig ákveðið að veita kæranda aðgang að læknisfræðilegum gögnum sem hún hafi undir höndum varðandi son hans. TR hafi ekki önnur gögn sem varðað geti son kæranda undir höndum, heldur einungis gögn sem varði einkamálefni barnsmóður kæranda. Þá hafi komið fram af hálfu kæranda að hann væri ekki að biðja um aðgang að upplýsingum um barnsmóður sína. Eftir standi þá það álitamál og beiðni kæranda um að TR sendi honum allan póst vegna sonar hans jafnóðum. Til þess hafi stofnunin enga heimild þar sem sum þeirra gagna tilheyri einungis barnsmóður kæranda. Sem dæmi megi nefna greiðsluseðla frá TR til hennar. Stofnunin geti því ekki sent allan póst einnig til kæranda eða birt hann sjálfkrafa á „mínum síðum“ með vísan til 9. og 11. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Ákvörðun TR fylgdu leiðbeiningar um rétt til að kæra ákvörðun um aðgang að fyrirliggjandi gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál og rétt til að bera synjun á óheftum aðgangi að gögnum undir velferðarráðuneytið.

Í kæru kemur fram að kærandi skilji ekki ákvörðun TR og viti ekki hvernig hann eigi að kæra hana. Hann hafi einnig óskað eftir því að fá upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga þar sem TR hafi í sinni vörslu viðkvæmar persónuupplýsingar um sig sem séu rangar.

Í síðari kæru kæranda, dags. 14. október 2018, segir að kærandi hafi sent TR beiðni í gegnum „mínar síður“ um aðgang að persónuupplýsingum um sig. TR hafi hafnað beiðninni á þeirri forsendu að stofnunin hefði engar persónuupplýsingar um kæranda. Kærandi hafi hins vegar undir höndum gögn úr vörslum TR sem innihaldi persónuupplýsingar um sig.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. október 2018, var TR kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn TR, dags. 2. nóvember 2018, kemur fram að stofnunin telji sig hafa veitt kæranda aðgang að öllum gögnum sem hún hafi undir höndum og varða son hans, þ.e. umönnunarmöt, umönnunarkort og læknisfræðilegar upplýsingar. TR hafi ekki önnur gögn sem varði son kæranda, heldur einungis gögn er varði einkamálefni barnsmóður kæranda sem hún samþykki ekki að sendar verði kæranda og kærandi hafi upplýst að hann óski ekki eftir aðgangi að. Synjun TR á beiðni kæranda um að senda honum framvegis jafnóðum öll bréf eða vottorð til og frá stofnuninni varðandi son hans, þ.e. um óheftan aðgang að gögnum sem enn eiga eftir að berast stofnuninni, sé kæranleg til velferðarráðuneytis eins og fram hafi komið í hinni kærðu ákvörðun. Það sé ekki á valdsviði úrskurðarnefndar um upplýsingamál að skera úr um það hvort veita eigi kæranda aðgang að gögnum sem ekki hafi verið orðin til hjá TR þegar beiðni var lögð fram.

Með bréfi, dags. 12. nóvember 2018, var umsögn TR kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust með bréfi, dags. 6. desember 2018. Þar kemur meðal annars fram að kærandi óski eftir því að fá eðlilegan aðgang að upplýsingum um barn sitt hjá TR. Í tilefni af þeirri fullyrðingu TR, sem fram kemur í umsögn stofnunarinnar, að barnsmóðir kæranda samþykki að veittur verði aðgangur að læknisfræðilegum gögnum, umönnunarmötum og umönnunarkortum tekur kærandi fram að þetta séu einmitt gögnin sem hann hafi óskað eftir. Hins vegar telur kærandi eðlilegt að hann sé upplýstur um réttindi sonar síns um leið og þau verði til. TR hafi upplýsingavef og auðvelt sé að setja upplýsingarnar þangað.

Með bréfi, dags. 11. mars 2019, framsendi félags- og barnamálaráðuneytið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál erindi kæranda til ráðuneytisins með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Í erindi ráðuneytisins til kæranda, dags. sama dag, kemur fram að framsendingin lúti að þeim hluta erindis kæranda sem varðar aðgang að tilteknum upplýsingum. Með vísan til framangreinds er ljóst að framsendingin varðar sama efni og kæra kæranda, dags. 5. október 2018.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu TR á beiðni kæranda um aðgang að gögnum er varða son hans. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að beiðni kæranda um aðgang að fyrirliggjandi gögnum hafi verið afmörkuð við umönnunarmöt, umönnunarkort og tiltekin læknisfræðileg gögn. Kæranda var veittur aðgangur að þessum gögnum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, en fram kemur að stofnunin hafi ekki undir höndum önnur gögn er varði son kæranda. Hvað varðar beiðni kæranda um að fá jafnóðum aðgang að gögnum, kemur fram í gögnum málsins að TR telji sér óheimilt að veita kæranda slíkan aðgang, þar sem þau kunni að hafa að geyma upplýsingar um einkamálefni barnsmóður hans.

Réttur aðila til aðgangs að gögnum er varða hann sjálfan tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds á beiðni um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er í þessum tilvikum afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn séu ekki til staðar og afhending þeirra komi af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu TR að ekki hafi verið frekari upplýsingar um son kæranda í fórum stofnunarinnar þegar beiðni kæranda barst. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þessu leyti.

Hvað varðar beiðni kæranda um að hann fái jafnóðum aðgang að gögnum um son hans er verði til eða berist TR í framtíðinni tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að hér sé eðli málsins samkvæmt heldur ekki um að ræða gögn sem teljist fyrirliggjandi hjá TR í skilningi 1. mgr. 14. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður þessum hluta málsins því vísað jafnframt vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Úrskurðarnefndin tekur fram að telji kærandi að aðgangur hans að „mínum síðum“ sé ekki fullnægjandi og feli í sér brot gegn réttindum hans, getur hann leitað til annarra aðila með erindi þar að lútandi. Vísar nefndin einkum til félagsmálaráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis í þeim efnum.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 5. október 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta