Hoppa yfir valmynd
10. október 2017 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur fundar með sendiherra Rússlands um heimsmeistaramótið 2018

Guðlaugur Þór og Anton Vasiliev, sendiherra Rússa slá á létta strengi.  - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, átti í dag fund með Antoni Vasiliev, sendiherra Rússlands, til að ræða undirbúning heimsmeistaramóts FIFA í knattspyrnu, sem hefst í Rússlandi 14. júní 2018 og lýkur með úrslitaleik á Luzhniki leikvanginum í Moskvu 15. júlí. Lið Íslands tryggði sér í gær þátttöku í mótinu og er búist við að fjöldi Íslendinga muni leggja leið sína til Rússlands til að styðja við bakið á liðinu.

„Það er ljóst að þetta er risaverkefni en það greinilegt að Rússar leggja mikið upp úr því að undirbúa keppnina vel, og búa að mikilli reynslu í þeim efnum. Okkur hefur verið lofað allri aðstoð sem við gætum þurft á að halda og við munum einnig senda starfsfólk aukalega til Rússlands til að styðja við bakið á sendiráði okkar, því ljóst er að mikið mun mæða á því í aðdraganda keppninnar og meðan á henni stendur,“ segir Guðlaugur Þór.

Keppt verður á tólf leikvöngum í ellefu rússneskum borgum, allt frá Kaliningrad við Eystrasalt, til Ekaterinburg við Úralfjöll í austri en svæðið spannar fjögur tímabelti. Ljóst verður hvar Ísland mun leika þann 1. desember nk.

Á fundinum kom fram að í kringum keppnina munu rússnesk stjórnvöld bjóða stuðningsmönnum sem ferðast til landsins upp á sérstakt stuðningsmannaskírteini, svokallað „Fan ID“. Það heimilar viðkomandi stuðningsmanni að ferðast til Rússlands án áritunar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og einnig innan þess með sérstökum lestum á milli borga þar sem leikirnir fara fram. Allir sem ætla að sækja leiki í Rússlandi ættu að skrá sig á þartilgerða heimasíðu, www.fan-id.ru en einnig er smáforrit, „Welcome 2018“ fyrir þá sem ætla að ferðast til Rússlands vegna leikjanna. Stuðningsfólk á leið til Rússlands ætti að skoða áðurnefnda gaumgæfulega og leita til sendiráðs Rússlands ef frekari spurningar vakna.

Ekki er beint áætlunarflug milli landanna en Icelandair og Aeroflot eru í samstarfi um flug með sameiginleg flugnúmer og fjölmargir aðrir möguleikar eru með tengiflugi í gegnum Norður-Evrópu, þ.m.t. með lággjaldaflugfélögum.

Utanríkisráðuneytið hefur farið fyrir viðræðum síðustu misseri við rússnesk stjórnvöld um að endurskoða loftferðasamning ríkjanna til að greiða betur fyrir mögulegum flugsamgöngum milli landanna.

Sjá upplýsingar um dagskrá og borgirnar á heimasíðu FIFA:

Hér munu upplýsingar birtast frá KSÍ þegar nær dregur:

Almenn sala á leiki, þ.m.t. úrslitaleiki:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta