Hoppa yfir valmynd
25. september 2015 Innviðaráðuneytið

Sprengt í gegn í Norðfjarðargöngum í dag

Eftir 1650 sprengingar í Norðfjarðargöngum sem liggja milli Eskifjarðar og Norðfjarðar sprengdi Ólöf Nordal innanríkisráðherra í dag 1651. sprenginguna og þá síðustu nálægt miðjum göngunum. Ráðherra óskaði við það tækifæri Austfirðingum til hamingju með þennan áfanga og sagðist hafa óskað eftir því við Vegagerðina að kannað yrði hvort unnt væri að hleypa umferð á göngin fyrr en áætlað er en samkvæmt verksamningi á að ljúka verkinu í september 2017. Það yrði þó aðeins gert að fyllsta öryggis yrði gætt.

Ólöf Nordal sprengdi síðustu sprengjuna í Norðfjarðargöngum í dag og með henni er Hreinn Haraldsson.
Ólöf Nordal sprengdi síðustu sprengjuna í Norðfjarðargöngum í dag og með henni er Hreinn Haraldsson.

Framkvæmdir við Norðfjarðargöng hófust haustið 2013 og eru verktakar Suðurverk og tékkneska fyrirtækið Metrostav. Göngin eru yfir 7 km löng auk vegskála. Borað hefur verið beggja megin frá og nú þegar sprengingum er lokið tekur við að leggja loftræstikerfi um göngin og ýmsan öryggisbúnað auk þess að leggja slitlag á veginn í göngunum og ljúka vegagerð beggja megin ganganna og steypa vegsvalir. Munu nokkrir tugir starfsmanna vinna að þessum verkefnum næstu misserin.

Gestir fögnuðu í Norðfjarðargöngum í dag.

Göngin leysa af hólmi fjallveginn milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og göngin um Oddsskarð í yfir 600 metra hæð. Innanríkisráðherra sagði þau göng barn síns tíma og væri löngu tímabært að bæta samgöngur milli byggðarlaganna en nýju göngin væru gerð eftir kröfum nútímans um öryggi og þægindi.

Verktakarnir buðu heimamönnum og ýmsum gestum til athafnar í tilefni þessa áfanga sem fram fór í  miðjum göngunum. Tóku þar til máls fulltrúar þingmanna og sveitarstjórna á Austurlandi og lýstu ánægju sinni með framkvæmdina sem myndi breyta miklu í samgöngu- og atvinnumálum byggðarlaganna. Tóku margir undir orð ráðherra um að flýta verkinu. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri flutti einnig ávarp og óskaði verktökunum til hamingju með vel unnið verk svo og eftirlitsmönnum frá Hnit og starfsmönnum Vegagerðarinnar sem hafa borið ábyrgð á framkvæmd verksamnings um gangagerðina.

Jens Garðar Helgason, Ólöf Nordal og Smári Geirsson.

Starfsmenn Metrostav fögnuðu verkinu í dag.

Síðasta haftið í Norðfjarðargöngum var sprengt í dag.

Ólöf Nordal, Stefán Þorleifsson og Kristján L. Möller.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta