Ófjármögnuð viljayfirlýsing um hjúkrunarheimili við Sléttuveg
Fyrir liggja samningar við þrjú sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu hjúkrunarrýma samkvæmt leiguleið en framkvæmdir eru ekki hafnar. Heilbrigðisráðherra segir eðlilegt að fylgja þeirri uppbyggingu eftir í stað þess að gefa fyrirheit um uppbyggingu við Sléttuveg þar sem ekkert liggur fyrir, hvorki um fjármögnun framkvæmda né rekstrar.
Skömmu fyrir síðustu Alþingiskosningar, þann 23. apríl 2013, undirritaði þáverandi velferðarráðherra og formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar viljayfirlýsingu um uppbyggingu öldrunarþjónustu í Reykjavík þar sem fram kom vilji þessara aðila til þess að reisa 88 hjúkrunarrými við Sléttuveg og var þar gert ráð fyrir að borgin og Sjómannadagsráð/Hrafnista myndu gera með sér samstarfssamning um starfsemi hjúkrunarheimilisins áður en áformaðar framkvæmdir hæfust vorið 2014.
Þegar viljayfirlýsingin var undirrituð lágu engar áætlanir fyrir um fjármögnun framkvæmdanna, en stofnkostnaður við byggingu heimilis af þessari stærð nemur um 2,5 milljörðum króna. Ekkert lá heldur fyrir um fjármögnun rekstrarkostnaðar heimilisins sem myndi nema um 750 milljónum króna á ári.
Árið 2009 tóku þáverandi stjórnvöld ákvörðun um að leita samninga við níu sveitarfélög um uppbyggingu hjúkrunarheimila á landsvísu samkvæmt leiguleiðinni. Gengið var til samninga við þau og síðar bættust tvö sveitarfélög í þennan hóp. Áform um uppbyggingu við Sléttuveg voru ekki inni í þessari áætlanagerð. Á þessum tíma mátti vera ljóst að ef áform gengu eftir um uppbyggingu þar sem fjármagn úr Framkvæmdasjóði er bundið í leigugreiðslur til fjörutíu ára vegna hverrar einstakrar framkvæmdar yrðu hendur sjóðsins bundnar til framtíðar og hann ekki aflögufær til stórframkvæmda á borð við byggingu 88 rýma heimilis við Sléttuveg.
Óábyrg fyrirheit án fjármagns
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir ekkert liggja fyrir um það hvernig ríki eða borg hugðust standa straum af kostnaði vegna viljayfirlýsingarinnar um Sléttuveg frá í vor: „Það sem liggur fyrir er að samningar um uppbyggingu 440 hjúkrunarrýma samkvæmt leiguleiðinni kosta um 858 milljónir króna á ári miðað við verðlag þessa árs. Þetta eru um 50% af fjárheimildum Framkvæmdasjóðs aldraðra. Ef uppbyggingin við Sléttuveg ætti að verða að veruleika þyrfti annað hvort að auka fjármuni inn í Framkvæmdasjóð aldraðra eða tryggja beina fjárveitingu til framkvæmdanna úr ríkissjóði. Áform um hvorugt finnast í bókum velferðarráðuneytisins.“