Ræddu framtíð tungumála á málþingi í Kanada
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tók þátt í hringborðsumræðunum um varðveislu tungumála í Kanada ásamt forseta Íslands, Elizu Reid forsetafrú, Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Almannaróms og Mary Simon, landstjóra Kanada ásamt fleiri fulltrúum frá Kanada.
Rætt var við fulltrúa Kanada um mikilvægi þess að vernda tungumálin, bæði þau 70 frumbyggjamál sem töluð eru í Kanada og íslenskuna. Málþingið var hluti af opinberri heimsókn til Kanada þar sem sendinefndin hitti meðal annars með Justin Trudeau, forsætisráðherra.
Jeannette Menzies, sendiherra Kanada á Íslandi, stýrði pallborðinu. Í umræðunum var meðal annars farið yfir kanadíska löggjöf frá 2019 sem ætlað er að styðja við viðhald frumbyggjatungumála. Rætt var um þau skref sem hafa verið tekin til þess að tryggja framtíð íslenskunnar, svo sem með máltækniáætlun. Ráðherra lagði í máli sínu ríka áherslu á að aðkoma stjórnvalda skipti höfuðmáli í málefnum íslenskrar tungu.
Áhersla hefði verið lögð á að tryggja fjármagn til máltækniáætlunar, m.a. í því skyni að gera íslenskuna gjaldgenga í stafrænum heimi. Þá væri jafnframt verið að leggja lokahönd á tillögu til þingsályktunar um íslenska tungu þar sem blásið væri til stórsóknar, m.a. hvað varðar innflytjendur, börn af erlendum uppruna og þátttöku atvinnulífsins.