Opinn fundur um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs 12. apríl
Fjallað verður um hvernig fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög geta unnið að því að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og stuðlað þannig að fjölskylduvænni vinnustöðum og samfélagi, á fundi sem haldinn verður á Hótel KEA á Akureyri föstudaginn 12. apríl næstkomandi. Vinnuhópur um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs boðar til fundarins í nafni velferðarráðuneytisins, Jafnréttisráðs og Jafnréttisstofu. Fundurinn hefst kl. 13.00 og lýkur kl. 16.00.
Haldin verða níu erindi um ýmis mál sem tengjast umfjöllunarefninu. Meðal annars verður fjallað um fræðslu fyrir launafólk og atvinnurekendur, rætt um kynbundna verkaskiptingu á Íslandi, kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar á því hvernig þátttakendum á vinnumarkaði finnst þeim takast að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og í lok fundarins kynnir Þórður Kristinsson greinagerð til velferðarráðherra um framkvæmd verkefna og aðgerðir vinnuhóps um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, en Kristinn er formaður vinnuhópsins. Í vinnuhópnum eiga sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Ísland, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi Háskólamanna, Kvenréttindafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Femínistafélagi Íslands.