Fjármögnun tryggð fyrir byggingu 95 stúdentaíbúða í Reykjavík
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun tillögu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra sem heimilar Íbúðalánasjóði að veita Félagsstofnun stúdenta 90% lán með 3,5% vöxtum til að byggja 95 íbúðir í Brautarholti 7 í Reykjavík.
Áætlaður byggingarkostnaður er 1.400 milljónir króna og nemur lán Íbúðalánasjóðs því 1.260 milljónum króna. Ríkissjóður niðurgreiðir lánið sem nemur mismuninum á 3,5% vöxtum og almennum útlánsvöxtum sjóðsins.
Nærri 300 nýjar íbúðir í notkun á þessu ári
Árið 2011 var sambærileg heimild veitt sem gerði Félagsstofnun stúdenta kleift að byggja hátt í 300 íbúðir í Vatnsmýrinni fyrir einstaklinga og pör og var áætlaður heildarkostnaður við þær framkvæmdir um fjórir milljarðar króna. Þessar íbúðir verða allar teknar í notkun fyrir lok þessa árs en fyrir á Félagsstofnun stúdenta samtals 815 herbergi; einstaklings-, par- og fjölskylduíbúðir til útleigu.
Langtímamarkmið Félagsstofnunar stúdenta er að tryggja 15% nemenda við Háskóla Íslands hentugt og vel staðsett leiguhúsnæði á sanngjörnu verði. Þetta er sambærilegt eða heldur lægra hlutfall en leigufélög á Norðurlöndunum bjóða. Til að uppfylla þetta markmið þarf Félagsstofnun stúdenta að byggja um 1.100 nýjar einingar, þ.e. herbergi eða íbúðir, en að lokinni úthlutun síðastliðið haust voru rúmlega 1.000 umsækjendur á biðlista eftir íbúð.
Deiliskipulag á lokastigi
Vinna við breytingar á deiliskipulagi vegna fyrirhugaðra framkvæmda er á lokastigi og fer þá í hefðbundið kynningar- og umsagnarferli. Að því loknu miðar Félagsstofnun stúdenta við að lokið verði við hönnun íbúðanna og samið við verktaka.