Fyrsta grjótinu sturtað í Landeyjahöfn
Siglingastofnun Íslands er verkkaupi og annaðist rannsóknir, hönnun og nú umsjón með smíði Landeyjahafnar en verktaki er Suðurverk. Um 80 starfsmenn Suðurverks munu starfa við verkið í sumar og verða alls notaðir 12 grjótflutningabílar við efnisflutningana í brimvarnargarðana en því verki á að ljúka í október.
Við Landeyjahöfn verða gerðir tveir um 700 metra langir bogadregnir garðar sem munu verja höfnina og ferjubryggjuna gegn ágangi sjávar. Efnið sem þarf í svo öflugt mannvirki verður alls um 1,3 milljónir tonn af grjóti en heildarmagnið í verkinu er um tvær milljónir tonna. Vegagerð að hafnarstæði frá námum í Kattarhrygg í Seljalandsheiði hófst sl. haust. Búið er að safna grjóti niður á Markarfljótsaura fyrir ofan Hringveginn, alls um 1,5 milljón tonnum.
Hér má sjá hvar ekið er undir Hringveginn með efnið frá grjótlagernum við Markarfljótið.
Tólf námutrukkar munu í sumar keyra lagernum fyrir ofan Markarfljótsbrú niður í brimvarnargarðana dag og nótt, en sumir þeirra geta tekið allt að 55 tonnum af grjóti í hverri ferð. Á hverjum sólarhring munu því um 10 þúsund tonn af grjóti bætast við garðana, sem eru mikilvæg undirstaða að þeirri samgöngubót við Vestmannaeyjar sem höfninni er ætlað að verða. Gert er ráð fyrir að uppbyggingu brimvarnargarðanna ljúki í október. Verklok við höfnina eru ráðgerð í júlí 2010 og stefnt er að vígslu nýju hafnarinnar næsta sumar.
Fyrstu steinarnir í brimvarnargarðana renna í fjöruborðið. Róbert Marshall, fráfarandi aðstoðarmaður samgönguráðherra, sturtaði fyrsta hlassinu. |
Gestir og gangandi fögnuðu upphafi hafnargerðar í Landeyjahöfn í gær. |
Af Seljalandsheiði má sjá hvar grjótlagernum hefur verið komið fyrir við Markarfljótið. Honum verður nú ekið suður fyrir Hringveginn við vesturenda brúarinnar og eftir nýjum vegi að Landeyjahöfn. Nýi vegurinn verður þó ekki opnaður fyrir almennri umferð fyrr en hafnarframkvæmdunum lýkur næsta sumar. |
Róbert Marshall, nýkjörinn þingmaður Suðurlands, Karl Alvarsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneyti, og Siguður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar, fylgdust með upphafi framkvæmdanna. Yngri mennirnir, Ólafur og Óskar litu ekki af sturtubílnum stóra. |
Gísli Viggósson, forstöðumaður rannsókna og þróunar hjá Siglingastofnun, greindi frá rannsóknum og aðdraganda hafnargerðarinnar. |