Hoppa yfir valmynd
25. september 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Hjartastuðtæki um allt land verði skráð og sýnileg í kortasjá

Starfshópur Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra leggur til að komið verði upp kortasjá fyrir sjálfvirk hjartastuðtæki um allt land. Markmiðið er að „fækka dauðsföllum af völdum hjartastoppa með því að bæta aðgang að sjálfvirkum hjartastuðtækjum á Íslandi og þannig stytta tíma frá hjartastoppi að stuði" eins og segir í skýrslu hópsins til ráðherra.

Ráðherra skipaði hópinn í febrúar síðastliðnum og fól honum að undirbúa gerð aðgengilegrar kortasjár yfir staðsetningu sjálfvirkra hjartastuðtækja í smáforritinu 112.

Alls eru fimm söluaðilar sjálfvirkra hjartastuðtækja á Íslandi. Starfshópurinn leitaði eftir upplýsingum frá þeim um hvort fyrirtækin haldi skrá yfir kaupendur tækjanna, hvort hún nái yfir staðsetningu þeirra, þjónustu fyrirtækjanna um tækin og um viðhorf fyrirtækjanna til samstarfs við rekstraraðila kortasjár um staðsetningu þeirra. Öll fyrirtækin halda slíkar skrár og eru tilbúin til samstarfs við að koma upp heildstæðri kortasjá á landsvísu yfir staðsetningu þeirra. Þá þjónusta jafnframt öll fyrirtækin seld tæki og senda kaupendum áminningu um viðhald og endurnýjun rafskauta og rafhlöðu þegar á þarf að halda.

Starfshópurinn leggur til að í gagnagrunn kortasjár verði skráðar greinargóðar upplýsingar um staðsetningu tækisins, hvenær og hvernig það sé aðgengilegt og hvernig viðhaldi þess sé háttað auk þess sem skoðaður verði möguleiki á birtingu ljósmynda sem sýna staðsetningu tækja.

Í hópnum áttu sæti fulltrúi ráðuneytisins sem var formaður hópsins, fulltrúar frá embætti landlæknis, Neyðarlínunni, Endurlífgunarráði, Rauða krossinum á Íslandi, Landspítala og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Í meðfylgjandi skýrslu starfshópsins er nánar fjallað um tillögurnar og mögulega framkvæmd verkefnisins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta