Hoppa yfir valmynd
14. september 2017 Innviðaráðuneytið

Fyrsta sprenging í Dýrafjarðargöngum

Fyrsta sprenging fyrir jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar undirbúin - mynd

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sprengdi í dag fyrstu sprengingu í jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Framkvæmdir eru komnar vel af stað og er gert ráð fyrir að göngin verði tilbúin haustið 2020.

Heildarkostnaður við göngin, sem eru 5,6 km löng með vegskálum, er áætlaður kringum 13 milljarðar króna að meðtöldum nýjum vegarköflum beggja megin, tæpir 5 km Dýrafjarðarmegin og um 3 km Arnarfjarðarmegin og tvær stuttar brýr. Tíu útskot verða í göngunum, þar af fjögur snúningsútskot og rafmagns- og tæknibúnaður er fjölþættur svo sem spennistöðvar, loftræsibúnaður og símaskápar. Þá verður lagður háspennukapall í göngin fyrir Landsnet.

Verktakar eru Suðurverk og Metrostav frá Tékklandi sem unnið hafa saman að gerð Norðfjarðarganga. Með göngunum má leggja af fjallveg um Hrafnseyrarheiði sem er lokaður vegna snjóalaga stærstan hluta vetrar.

Fjölmenni var við athöfn við gangamunnann sem er í Borgarfirði innaf Arnarfirði, skammt frá Mjólkárvirkjun. Flutt voru ávörp og þegar búið var að koma sprengihleðslum fyrir í gangastafni sprengdi ráðherra í fyrsta sinn. Verður sprengt inn göngin Arnarfjarðarmegin í um það bil ár og síðan færa verktakarnir sig yfir í Dýrafjörð til að hefja framkvæmdir þeim megin. Fyrir sprenginguna var athöfn við  gangamunnann á vegum Metrostav þar sem heilög Barbara var að kaþólskum sið tilnefnd verndari verkefnisins.

Meðal þeirra sem fluttu ávörp voru Jón Gunnarsson, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður og fulltrúi Metrostav.

Frekari uppbygging nauðsynleg

Fram kom í máli ráðherra að langþráð framkvæmd væri hafin og eðlilegt og nauðsynlegt framhald hennar væri uppbygging heilsársvegar um Dynjandisheiði svo og framhald vegagerðar um Gufudalssveit. Með því kæmust Vestfirðingar öruggt í vegasamband og væri brýnt að fjármagna þær framkvæmdir sem fyrst. Þá sagði hann að eftir ferðir sínar um landið í sumar, meðal annars um Vestfirði, væri augljóst að bjartsýni ríkti um uppbyggingu í atvinnulífi í fjórðungnum og ekki síst kallaði atvinnurekstur á umbætur í samgöngum.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri þakkaði verktökunum fyrir gott verk og ánægjulegt samstarf um Norðfjarðargöng og sagði ljóst að mikil áhersla væri lögð á öryggismál. Greindi hann frá því að í september árið 1981 hefði hann þá nýráðinn starfsmaður Vegagerðarinnar meðal annars fengið það verkefni að huga að mögulegri jarðgangatengingu milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Sagði hann að í skýrslu sem hann lagði fram sumarið eftir hefði sú leið sem nú er farin einmitt verið niðurstaða hans.

 

  • Jón Gunnarsson var meðal þeirra sem fluttu ávörp við athöfn á verkstað í dag. - mynd
  • Frá vinstri: Jón Gunnarsson ráðherra, Dofri Eysteinsson forstjóri Suðurverks og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri. - mynd
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tilbúinn að sprengja og vegamálastjóri fylgist með. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta