Ráðherra skipar starfshóp um úrbætur í þrífösun rafmagns
Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, hefur skipað starfshóp til að greina möguleika og gera tillögur um uppfærslur á raforkuflutningskerfi í dreifbýli, með áherslu á þrífösun rafmagns. Núverandi áætlanir um endurnýjun á dreifikerfi raforku í 3ja fasa dreifikerfi ná allt til ársins 2034 og ljóst að þörfum heimila og fyrirtækja er ekki hægt að mæta með óbreyttri nálgun á endurnýjun og uppfærslu á fyrirliggjandi dreifikerfi. Uppfært dreifikerfi bætir afhendingaröryggi raforku og eflir t.d. möguleika á að víðar verði mögulegt að hefja framleiðslu á raforku með smávirkjunum. Styrking dreifikerfis mun einnig styðja við frekari áform um orkuskipti og rafvæðingu samgangna.
Í vinnu starfshópsins verður skoðað samspil áforma um þrífösun rafmagns við tekjumörk og gjaldskrár dreifiveitna, aðgerðir til úrbóta kostnaðarmetnar sem og hvaða áhrif þær kunna að hafa á viðskiptavini dreifiveitna. Samráð verður haft við hagsmunaaðila og m.a. leita til starfandi starfshópa Orkustofnunar um raforkuöryggi landsvæða sem búa við skert afhendingaröryggi.
Haraldur Benediktsson, alþingismaður, er formaður starfshópsins, en auk hans eru í honum Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem fulltrúi frá stjórnarandstöðunni, Hanna Dóra Hólm Másdóttir frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Sigurður H. Magnússon frá Orkustofnun og Sandra Brá Jóhannsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt mun sérfræðingur frá RARIK og sérfræðingur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vinna með starfshópnum.
Ráðgert er að starfshópurinn skili skýrslu og tillögum til úrbóta fyrir 1. mars 2018.