Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2019 Forsætisráðuneytið

838/2019. Úrskurður frá 28. október 2019

Úrskurður

Hinn 28. október 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 838/2019 í máli ÚNU 19030004.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 7. mars 2019, kærði A afgreiðslu Landspítala-Háskólasjúkrahúss („Landspítalinn“) á afgreiðslu beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Með erindi, dags. 27. febrúar 2019, óskaði kærandi eftir afritum að öllum gögnum sem varði kæranda frá og með árinu 2014. Jafnframt var óskað eftir yfirlýsingu frá Landspítalanum um að ekki séu til frekari gögn eða upplýsingar um kæranda. Þá var óskað eftir upplýsingum um tilvist gagna sem Landspítalinn teldi sig ekki hafa heimild til að veita kæranda aðgang að.

Kæran var kynnt Landspítalanum með bréfi, dags. 18. mars 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Í umsögn Landspítalans, dags. 20. mars 2019, segir að kærandi hafi fengið aðgang að sjúkraskrá sinni og þar með öllum upplýsingum um færslur í hana. Verið væri að taka saman önnur gögn og í kjölfarið yrði tekin afstaða til þess hvort þau yrðu afhent kæranda. Þann 12. apríl 2019 barst úrskurðarnefndinni annað bréf frá Landspítalanum. Þar segir að kærandi hafi fengið aðgang að öllum gögnum í vörslum Landspítalans er varði kæranda.

Kærandi ritaði Landspítalanum og úrskurðarnefndinni tölvupóst þann 16. apríl 2019 þar sem hann hélt því fram að hann hefði ekki fengið afhent ýmis gögn. Í erindinu óskaði hann m.a. eftir afritum af bréfi frá lögfræðistofu og svari spítalans við því. Í bréfi Landspítalans til kæranda, dags. 18. júní 2019, segir að bréfið sé á meðal þeirra gagna sem kærandi hafi fengið send með ábyrgðarpósti.

Með tölvupósti til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 4. október 2019, ítrekaði kærandi þá kröfu að fá afhent öll gögn er lúti að honum. Fram kemur að forstjóri Landspítalans hafi þann 28. febrúar ritað kæranda tölvupóst þar sem fram komi að forstjórinn hafi falið framkvæmdastjóra lækninga það verkefni að svara erindi kæranda. Kærandi hafi ekki fengið afrit af gögnum þar að lútandi. Kærandi hafi heldur ekki fengið afrit af gögnum þar sem framkvæmdastjóri lækninga fól tilteknum starfsmanni að svara erindinu.

Með erindi, dags. 21. október 2019, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir upplýsingum um það hvort gögnin sem vísað er til í bréfi kæranda, dags. 4. október 2019, væru fyrirliggjandi hjá Landspítalanum og hvort þau hafi verið afhent kæranda. Með tölvupósti, dags. 25. október 2019, svaraði Landspítalinn því að gögnin væru ekki fyrirliggjandi enda sé ekki talið nauðsynlegt að miðlun verkefna fari ávallt fram með formlegum hætti.

Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Landspítalans á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Af hálfu spítalans hefur komið fram að kærandi hafi fengið aðgang að öllum gögnum sem hann varða, bæði gögn úr sjúkraskrá, sbr. lög nr. 55/2009 og önnur gögn. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að draga það í efa að Landspítalinn hafi afhent kæranda öll fyrirliggjandi gögn sem hann varða.

Af 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 7. mars 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir              Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta