Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 9/2016

Hinn 6. janúar 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 9/2016:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 695/2016

Sigmar Vilhjálmsson

gegn

Stemmu hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:


I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 11. nóvember 2016, fóru Sigmar Vilhjálmsson og Sjarmur og Garmur ehf. þess á leit að hæstaréttarmál nr. 695/2016, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 27. október 2016, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með stefnu þingfestri 6. september 2016 höfðuðu Sjarmur og Garmur ehf. og Sigmar Vilhjálmsson mál á hendur Stemmu hf. Við þingfestingu málsins og á síðari dómþingum var deilt um hver hefði málflutningsumboð til að mæta fyrir hönd Sjarms og Garms ehf. Á dómþingi 27. september 2016 felldi dómstjóri málið niður að því er varðaði Sjarm og Garm ehf, með vísan til c-liðar 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fram kom í þingbók að mættur hafi verið í dóminn nafngreindur lögmaður sem lagt hafi fram símskeyti þar sem fram kom að lögmaðurinn færi með málflutningsumboð fyrir Sjarm og Garm ehf. og að fella skyldi málið niður fyrir þann stefnanda. Lögmaður stefnanda Sigmars Vilhjálmssonar óskaði úrskurðar dómara um niðurfellingu málsins. Dómari hafnaði því að úrskurður yrði kveðinn upp enda lægi skýrt umboð fyrir til fyrrgreinds lögmanns um heimild til niðurfellingar málsins. Ákvörðun héraðsdóms var kærð til Hæstaréttar 10. október 2016 og þess aðallega krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi, en til vara að hún yrði ómerkt og héraðsdómi gert að kveða upp úrskurð í málinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að héraðsdómari hefði ekki kveðið upp úrskurð um að málið yrði fellt niður að því er fyrrgreint félag varðaði, heldur tekið um það ákvörðun sem bókuð hefði verið í þingbók, sbr. 3. mgr. 105. gr. laga um meðferð einkamála. Þar sem eingöngu úrskurðir héraðsdómara sættu kæru til Hæstaréttar samkvæmt ótvíræðu orðalagi 143. gr. laga um meðferð einkamála brysti heimild til að kæra umrædda ákvörðun. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðendur telja að niðurstaða Hæstaréttar byggi að því er virðist á misskilningi á staðreyndum málsins. Þannig hafi Hæstiréttur lagt til grundvallar að kærandi hafi verið einn en ekki tveir. Þá hafi í fyrirtöku fyrir héraðsdómi verið uppi ágreiningur um fyrirsvar fyrir hönd endurupptökubeiðandans Sjarms og Garms ehf. og því hafi héraðsdómi borið að kveða upp úrskurð um niðurfellingu málsins en ekki ákvörðun. Sá úrskurður hefði verið kæranlegur til Hæstaréttar. Varakrafa enduruppökubeiðenda fyrir Hæstarétti hafi byggt á framangreindu, en ekki verið tekin afstaða til hennar í dóminum. Verði ekki annað séð en að afstaða Hæstaréttar sé í andstöðu við eldri fordæmi réttarins, sbr. dóma í málum nr. 399/1992, 22/2003 og 223/2006. Mikilvægt sé að ágreiningur aðila um hver fari með fyrirsvar vegna málsins hljóti efnislega umfjöllun í formi úrskurðar héraðsdóms sem aðilar geti þá skotið til Hæstaréttar. Það sé einungis hægt taki Hæstiréttur upp dóm sinn og ómerki eða felli úr gildi hina kærðu ákvörðun héraðsdóms. Endurupptökubeiðendur telja að þegar uppi sé ágreiningur á dómþingi, milli stjórnarformanns félags annars vegar og stjórnarmanns og framkvæmdastjóra hins vegar, um heimild þess fyrrnefnda til að fella niður mál þá beri dómara á grundvelli 3. mgr. 105. gr. laga um meðferð einkamála að hlíða á sjónarmið aðila og taka rökstudda afstöðu til ágreinings með úrskurði. Þar sem héraðsdómur hafi ekki kveðið upp úrskurð hafi í samræmi við fyrri dóma Hæstaréttar borið að ómerkja eða fella ákvörðun héraðsdóms úr gildi í samræmi við varakröfu endurupptökubeiðenda.

Samkvæmt þessu telja endurupptökubeiðendur ljóst að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós við meðferð málsins hjá Hæstarétti og verði þeim ekki kennt um það, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 169. gr. sömu laga. Jafnframt telja endurupptökubeiðendur sig hafa stórfellda hagsmuni af því að efnisleg umfjöllun fáist um þann ágreining sem sé uppi á milli aðila. Þar af leiðandi sé skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála uppfyllt, sbr. 1. mgr. 169. gr. sömu laga.

Að lokum óska endurupptökubeiðendur að tiltekinn lögmaður verði skipaður til að gæta réttar þeirra.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála eru eftirfarandi:
a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 695/2016 var sóknaraðili Sigmar Vilhjálmsson og varnaraðili Stemma hf. Endurupptökubeiðandinn Sjarmur og Garmur ehf. átti því ekki aðild að málinu og getur ekki sett fram umsókn um endurupptöku þess máls, sbr. áskilnað 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu verður endurupptökubeiðni Sjarms og Garms ehf. vísað frá endurupptökunefnd.

Í endurupptökubeiðni er vísað til ágreinings sem á reyndi fyrir héraðsdómi um hver kæmi fram fyrir hönd Sjarms og Garms ehf. Byggt er á því að héraðsdómi hafi borið á grundvelli 3. mgr. 105. gr. laga um meðferð einkamála að kveða upp úrskurð um ágreiningsefnið en ekki afráða um úrlausnarefnið með ákvörðun. Í kæru til Hæstaréttar eru sjónarmið endurupptökubeiðanda reifuð ítarlega og er þeim mótmælt í greinargerð gagnaðila til réttarins. Dómur Hæstaréttar er byggður á þeirri forsendu að þar sem tekin var ákvörðun um að málið yrði fellt niður hvað varðar Sjarm og Garm ehf. en ekki kveðinn upp úrskurður bresti heimild fyrir kæru sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 143. gr. laga um meðferð einkamála. Var því hvorki tekin efnisleg afstaða til aðalkröfu né varakröfu sóknaraðila. Endurupptökubeiðandi telur að Hæstarétti hafi borið að taka afstöðu til varakröfu sinnar í dómi sínum, í samræmi við eldri fordæmi réttarins. Af málatilbúnaði endurupptökubeiðanda verður ráðið að hann er ósammála forsendum Hæstaréttar og telur að í öllu falli hafi átt að taka til greina varakröfu hans um ómerkingu héraðsdóms.

Það að endurupptökubeiðandi sé ósammála niðurstöðu Hæstaréttar leiðir ekki til þess að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála teljist vera uppfyllt um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar fyrir dómi. Aðrar málsástæður endurupptökubeiðanda uppfylla heldur ekki áskilnað a-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna. Beiðni um endurupptöku hefur ekki verið rökstudd með vísan til b-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna. Þess fyrir utan hefur engum nýjum gögnum verið teflt fram sem orðið geta til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.

Endurupptökubeiðandi hefur samkvæmt framansögðu ekki tekist að sýna fram á að uppfyllt séu skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða ákvæðisins sé fullnægt eins og áskilið er og gerist því ekki þörf á að fjalla um c-lið.

Í ljósi þessa skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni endurupptökubeiðandans Sigmars um endurupptöku dóms í máli Hæstaréttar nr. 695/2016 og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

Úrskurðarorð

Beiðni Sjarms og Garms ehf. um endurupptöku dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 695/2016, sem kveðinn var upp 27. október 2016, er vísað frá endurupptökunefnd.

Beiðni Sigmars Vilhjálmssonar um endurupptöku dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 695/2016, sem kveðinn var upp 27. október 2016, er hafnað.

 

Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta