Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2017 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2016

Mál nr. 4/2016

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu

 

Ráðning í sumarstarf.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu auglýsti í apríl 2016 þrjú sumarstörf við embættið við almenn afgreiðslu- og skrifstofustörf ásamt aðstoð við lögfræðileg viðfangsefni. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að ráða þrjár konur í störfin en hann taldi sig vera að minnsta kosti jafn hæfan þeim konum sem ráðnar voru. Kærði lagði til grundvallar hæfni til starfanna lengd starfsreynslu við störf sem töldust þjónustu- og afgreiðslustörf þar sem umsækjandi hefði verið í beinum samskiptum við þjónustuþega eða viðskiptavini. Kærunefnd jafnréttismála taldi að af umsókn kæranda hefði mátti ráða að starfsreynsla hans hefði verið lengri en starfsreynsla einnar kvennanna. Þessi samanburður hefði mátt gefa kærða tilefni til að kanna nánar hæfni kæranda til starfsins en honum gafst ekki kostur á að koma til viðtals ólíkt því sem gegndi um konurnar þrjár. Röksemdir kærða um að kærandi hefði í umsókn ekki gefið til kynna áhuga á að starfa við embættið hefðu ekki átt rétt á sér enda hefði verið eðlilegt að kanna slíka þætti með viðtali eins og gert var í tilfelli kvennanna. Taldi kærunefnd að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við ráðningu í sumarstarf hjá kærða umrætt sinn.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 26. janúar 2017 er tekið fyrir mál nr. 4/2016 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 6. nóvember 2016, kærði A ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að ráða þrjár konur í sumarstörf við embættið. Kærandi telur að með ráðningunni hafi sýslumaðurinn brotið gegn 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 9. nóvember 2016. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 23. nóvember 2016, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 28. nóvember 2016. Engar athugasemdir bárust af hálfu kæranda.

  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Í apríl 2016 auglýsti kærði þrjú sumarstörf sem styrkt voru af sumarátaksverkefni Vinnumálastofnunar. Í auglýsingunni kom fram að um væri að ræða sumarstörf og í þeim fælust almenn afgreiðslu- og skrifstofustörf ásamt aðstoð við lögfræðileg álitaefni. Jafnframt að um væri að ræða sumarstörf í fullu starfi og var gerð krafa um að viðkomandi væru laganemar.

  6. Alls bárust 54 umsóknir og uppfylltu allir umsækjendur þá kröfu sem gerð var til starfanna, þ.e. að vera laganemi. Ákveðið var að bjóða sjö umsækjendum í viðtal, tveimur körlum og fimm konum. Kærandi var ekki þar á meðal. Af þessum sjö umsækjendum var fjórum, tveimur konum og tveimur körlum, boðið starfið en þau höfnuðu öll starfstilboði. Þar sem um tímabundin störf var að ræða í tvo mánuði var hinum þremur, sem einnig höfðu komið til viðtals, boðið starf sem þær þáðu.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  7. Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um eitt þriggja sumarstarfa fyrir laganema sem kærði bauð fram í gegnum átaksverkefni Vinnumálastofnunar undir heitinu Sumarstörf 2016, enda hafi hann uppfyllt þá kröfu sem gerð var í starfsauglýsingu.

  8. Með tölvupósti 11. maí 2016 hafi kærði tilkynnt kæranda að embættinu hefðu borist 54 umsóknir um umrædd þrjú stöðugildi og að ráðnar hefðu verið til starfans þrjár konur, en ein þeirra sé samnemandi kæranda og á svipuðum stað í laganámi við lagadeild Háskóla Íslands.

  9. Samdægurs hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi á grundvelli 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, enda hafi kynjahlutfallið vakið athygli hans, þar sem það sé þekkt staðreynd að konur séu í miklum meirihluta í starfshópi kærða. Þá hafi kærandi jafnframt óskað eftir upplýsingum um hvar mætti nálgast jafnréttisáætlun embættisins.

  10. Svar barst kæranda með tölvubréfi 17. maí 2016 þar sem fram kom að þær sem ráðnar hefðu verið hefðu allar lokið tveimur árum við lagadeild og hefðu allar reynslu af þjónustustörfum í miklum samskiptum við viðskiptavini þar sem reynir á að vinna undir álagi. Þá hefðu þær komið vel fyrir í viðtali, verið áhugasamar um störfin og fengið góð meðmæli. Jafnframt hafi komið fram að embættið hefði ekki sett sér jafnréttisáætlun sökum tímaskorts.

  11. Kærandi ítrekaði beiðnina um rökstuðning sama dag, enda taldi hann svar embættisins ekki uppfylla kröfur stjórnsýsluréttar um rökstuðning, þ.e. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Vísaði hann meðal annars til meginreglunnar um skyldubundið mat, enda hafi hann talið sig jafn hæfan, ef ekki hæfari en þær sem ráðnar hafi verið þegar horft sé til menntunar og reynslu af þjónustustörfum. Einnig vísaði kærandi til þeirrar meginreglu stjórnsýsluréttar að ráða beri hæfasta einstaklinginn.

  12. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 3/2014 frá 20. október 2014. Hann telur sig að minnsta kosti jafn hæfan og þær konur sem ráðnar hafi verið, með tilliti til menntunarstigs og reynslu af þjónustustörfum. Rétt sé þó að benda á að í ferilskrá kæranda komi ekki fram hversu miklu laganámi hann hafi lokið, aðeins að hann hafi stundað nám við lagadeild Háskóla Íslands síðan 2012. Þá hafi kærandi áralanga starfsreynslu af þjónustustörfum þar sem reynt hafi á að vinna undir álagi í miklum samskiptum við viðskiptavini. Þá liggi fyrir að miklu máli hafi skipt að koma vel fyrir í viðtali, sem og að hafa góð meðmæli, en kærandi hafi hvorki verið boðaður í viðtal né hafi verið haft samband við meðmælendur sem hann hafi tilgreint. Af þeim sökum hafi kærði brotið gegn reglunni um skyldubundið mat og gegn 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 10/2008, með hliðsjón af þeirri staðreynd að konur séu í miklum meirihluta starfsmanna við embættið.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  13. Kærði greinir frá því að forsaga ráðninganna sé sú að í mars 2016 hafi embættið óskað eftir þátttöku í sumarátaksverkefni Vinnumálastofnunar við sumarstörf námsmanna 2016 og fengið þann 6. apríl úthlutað þremur störfum sem styrkt væru í tvo mánuði hvert. Stofnanir sem fengu úthlutað störfum hafi fengið fimm vinnudaga til að auglýsa störfin. Ekki hafi verið fyrirséð á þeim tíma innan hvaða sviðs embættisins þörfin fyrir sumarstarfsfólk yrði mest og því hafi verið ákveðið að auglýsa almenn afgreiðslu- og skrifstofustörf ásamt aðstoð við lögfræðileg viðfangsefni.

  14. Umsóknarfrestur hafi runnið út 2. maí 2016 og á þeirri stundu verið ljóst að tveir starfsmenn í deild vegabréfa og ökuskírteina yrðu ekki í starfi í maí. Þá hafi verið ákveðið að hinum þremur nýju sumarstarfsmönnum yrði komið fyrir í þeirri deild. Í deildinni sinni starfsfólk afgreiðslu og móttöku viðskiptavina, starfsfólk þurfi að vera þjónustulipurt og geta unnið undir álagi, vera nákvæmt og drífandi.

  15. Embættinu hafi borist 54 umsóknir. Allir umsækjendur hafi uppfyllt þá auglýstu kröfu sem gerð hafi verið til starfanna, þ.e. að vera laganemi. Tveir starfsmenn embættisins hafi farið yfir umsóknirnar og sett sér nokkrar einfaldar reglur varðandi yfirferð umsókna, meðal annars að umsækjendur hefðu reynslu af þjónustu- og afgreiðslustörfum, þar sem reyni á að vinna undir álagi í beinum samskiptum við þjónustuþega eða viðskiptavini og að umsækjendur hefðu aðra starfsreynslu eða hæfni sem væri talin nýtast hjá þjónustustofnun eins og kærða.

  16. Eftir skoðun á umsóknum og gögnum sem þeim fylgdu hafi verið ákveðið að bjóða sjö umsækjendum í viðtal, tveimur körlum og fimm konum. Embættið hafi boðið fjórum af þessum sjö umsækjendum starf, tveimur körlum og tveimur konum, sem hafi talist hæfustu umsækjendurnir. Þau hafi öll hafnað starfstilboði.

  17. Í ljósi þess að um hafi verið að ræða tímabundin sumarstörf til tveggja mánaða, að fjórir höfðu hafnað starfi, að þrír umsækjendur hafi þá uppfyllt hæfnikröfur og þau viðmið sem sett hafi verið fyrir yfirferð umsókna og viðtöl, hafi embættið talið nægilegar upplýsingar vera til staðar til að taka ákvörðun um ráðningu.

  18. Ein þeirra sem hafi verið ráðin hafi verið í grunnnámi í háskóla. Hún hafði starfað samtals fimm sumur við afgreiðslu, upplýsingagjöf o.fl. hjá Þjóðgarðinum á Þingvöllum og Krambúðinni á Árbæjarsafni. Að auki hafði hún unnið með skóla við afgreiðslu o.fl. á veitingastað og í bakaríi. Önnur hafi verið í grunnnámi í háskóla. Hún hafði starfað sem ráðgjafi í þjónustuveri Íslandsbanka þrjú sumur og hafði að auki starfsreynslu af afgreiðslu hjá verslun. Sú þriðja hafi einnig verið í grunnnámi í háskóla. Hún hafði unnið við þjónustustörf og afgreiðslu samhliða námi í fimm ár. Allar hafi þær sýnt áhuga á að starfa við sýslumannsembættið, annars vegar í umsókn og hins vegar í viðtali.

  19. Kærandi sé í grunnnámi í háskóla. Hann hafi starfað sem þjónustufulltrúi Tæknivers í rúmt eitt og hálft ár, eigi nám að baki í tölvunarfræði, auk starfsreynslu í tæknigeira og hafi fjórar Microsoft vottanir. Kærði hafi ekki talið það nýtast í þeim störfum sem um ræði á sama hátt og sú reynsla sem þær sem ráðnar voru höfðu af afgreiðslu og beinum samskiptum við viðskiptavini.

  20. Umsókn kæranda hafi ekki gefið til kynna áhuga á að starfa fyrir embættið. Eftir skoðun á umsókn og ferilskrá hafi embættið ekki talið kæranda standa framar eða jafnfætis þeim sjö umsækjendum sem hafi upphaflega verið boðaðir í viðtal.

  21. Embættið hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, enda hafi aðrar ástæður en kyn legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í sumarstörfin. Vegna eðlis umræddra starfa hafi þótt rétt að horfa fyrst og fremst til reynslu af þjónustu- og afgreiðslustörfum. Það hafi verið mat embættisins að kærandi hefði ekki haft sambærilega reynslu af slíku og þær sem ráðnar voru.

  22. Embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu var stofnað 1. janúar 2015 eftir sameiningu sýslumannsembættanna í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík. Kærði kveður embættið starfa samkvæmt jafnréttisáætlun Sýslumannsins í Reykjavík. Störf í vegabréfadeild hafi fallið undir sýslumannsembættið í Kópavogi og ekki séu enn til starfslýsingar fyrir þau störf. Jafnréttisáætlun kærða sé í vinnslu og verið sé að útbúa starfslýsingar fyrir öll störf á embættinu.

    NIÐURSTAÐA

  23. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

  24. Í apríl 2016 auglýsti kærði eftir þremur starfsmönnum í sumarstörf námsmanna. Í auglýsingu kom fram að um væri að ræða afgreiðslu- og skrifstofustörf ásamt aðstoð við lögfræðileg viðfangsefni. Áskilið var að umsækjendur væru laganemar en frekari kröfur voru ekki gerðar til umsækjenda í umsókn. Að sögn kærða lá fyrir er umsóknarfrestur rann út að tveir starfsmenn í deild vegabréfa og ökuskírteina yrðu fjarverandi í maí og að því myndu allir þrír sumarstarfsmennirnir starfa í þeirri deild.

  25. Við yfirferð umsókna lagði kærði til grundvallar að þeir er ráðnir yrðu hefðu reynslu af þjónustu- og afgreiðslustörfum þar sem reynt hefði á að vinna undir álagi í beinum samskiptum við þjónustuþega eða viðskiptavini og að viðkomandi hefðu aðra starfsreynslu eða hæfni sem væri talin nýtast hjá embættinu. Á grundvelli þessarar yfirferðar var sjö umsækjendum boðið í viðtal, tveimur körlum og fimm konum. Fjórum þeirra, tveimur körlum og tveimur konum, var boðið starf en þau afþökkuðu öll. Í ljósi þess að þeir þrír umsækjendur er þá stóðu eftir í þeim hópi, er boðið hafði verið til viðtals voru allt konur, var sérstaklega brýnt að kærði fullvissaði sig um að hann hefði gætt lögmætra sjónarmiða við yfirferð umsóknanna áður en hann byði störfin þremur konum.

  26. Kærunefnd telur að það sjónarmið kærða að leggja til grundvallar vali sínu reynslu af þjónustu- og afgreiðslustörfum þar sem reynt hefði á að vinna undir álagi í beinum samskiptum við þjónustuþega eða viðskiptavini hafi verið fyllilega lögmætt sjónarmið með tilliti til eðlis starfanna og til þess fallið að hæfustu umsækjendurnir yrðu ráðnir.

  27. Ein þeirra kvenna er ráðnar voru mun hafa starfað í þjóðgarði, vöruhúsi, á leikskóla, safni, veitingastað og í bakaríi. Af umsókn hennar mátti ráða að starfsreynsla hennar við þjónustu- og afgreiðslustörf þar sem hún hefði verið í beinum samskiptum við þjónustuþega eða viðskiptavini spannaði eitt sumar og að auki þrjú ár í hlutastarfi en í því starfi hafði hún einnig séð um eldamennsku og sinnt öðrum verkefnum. Annar kvenkyns umsækjandi mun hafa haft reynslu af störfum á félagsheimili aldraðra, við fiskvinnslu, á veitingastað, í fataverslun og af þjónustustarfi á tveimur vinnustöðum að auki. Af umsókninni mátti ráða að starfsreynsla hennar við þjónustu- og afgreiðslustörf þar sem hún hefði verið í beinum samskiptum við þjónustuþega eða viðskiptavini næði yfir fimm ár en öllum störfunum hafði hún gegnt í afleysingum eða með námi í framhaldsskóla. Þriðja konan mun hafa starfað sem formaður flóttamannanefndar en reynsla hennar af afgreiðslustörfum af þeim toga sem var áskilið var eingöngu af sumarstarfi í þrjú sumur hjá þjónustuveri í fjármálastofnun auk starfa þar á álagstímum einn vetur. Kærandi mun hafa starfað sem viðgerðarfulltrúi hjá tæknifyrirtæki, sem þjónustufulltrúi hjá fjölmiðli og sem skólastjóri útilífsskóla. Hann mun einnig hafa starfað í Danmörku, bæði sem sjónvarpsfréttamaður og sem hugbúnaðarráðgjafi og tæknimaður. Loks var þess getið að hann hafi gegnt sumarstörfum og störfum samhliða námi við byggingarvinnu, steypuvinnu auk verkamanna- og landbúnaðarstarfa. Samkvæmt umsókn kæranda hafði hann starfað við þjónustu- og afgreiðslustörf í beinum samskiptum við þjónustuþega eða viðskiptavini í 21 mánuð en það starf sem um ræðir fólst einnig í bakvinnslu.

  28. Af framangreindu er ljóst að af umsókn kæranda mátti ráða að starfsreynsla hans við störf sem töldust þjónustu- og afgreiðslustörf þar sem hann hafði verið í beinum samskiptum við þjónustuþega eða viðskiptavini var 21 mánuður. Starfsreynsla þriðju konunnar sem lýst er að framan úr slíku starfi var þrjú sumur auk sama starfs á álagstímum einn vetur. Þessi samanburður hefði mátt gefa kærða tilefni til að kanna nánar hæfni kæranda til starfsins en honum gafst ekki kostur á að koma til viðtals ólíkt því sem gegndi um konurnar þrjár. Röksemdir kærða um að kærandi hafi í umsókn ekki gefið til kynna áhuga á að starfa við embættið eiga ekki rétt á sér enda hefði verið eðlilegt að kanna slíka þætti með viðtali eins og gert var í tilfelli kvennanna.

  29. Með vísan til þess sem að framan er rakið telur kærunefnd að kærði hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kyn umsækjenda hafi ráðið niðurstöðu kærða við ákvörðun um ráðningu í umrædd sumarstörf.

  30. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við ráðningu í sumarstarf hjá kærða í maímánuði 2016.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu braut gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu í sumarstarf í maímánuði 2016.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta