Hoppa yfir valmynd
26. mars 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 504/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 504/2019

Fimmtudaginn 26. mars 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. nóvember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. maí 2019, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 6. desember 2018 og var umsókn hans samþykkt 6. febrúar 2019. Í ágúst 2019 tilkynnti kærandi Vinnumálastofnun að hann yrði óvinnufær í tvo mánuði. Í lok október 2019 kom í ljós að afskráning kæranda hafði misfarist og að hann hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur þá mánuði sem hann var óvinnufær. Kærandi var afskráður um leið og mistökin urðu ljós. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. október 2019, var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 331.491 kr., án álags, vegna þessara tveggja mánaða.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. nóvember 2019. Með bréfum, dagsettum 3. og 13. desember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir kærunni á íslensku og var sú beiðni ítrekuð 15. og 31. janúar 2020. Kæra á íslensku barst 4. febrúar 2020. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 28. febrúar 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir skýringu á máli sínu en hann hafi þurft að greiða Vinnumálastofnun 350.000 kr.    

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Til skuldarinnar hafi stofnast þar sem kærandi hafi verið óvinnufær, staddur erlendis. Kærandi hafi tilkynnt um framangreint atvik til Vinnumálastofnunar og óskað eftir afskráningu af atvinnuleysisskrá en sökum mistaka hjá stofnuninni hafi kærandi fengið áfram greiddar atvinnuleysisbætur.  Kærandi hafi ekki uppfyllt almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga frá 12. ágúst 2019 til 25. október 2019, enda sé óumdeilt að hann hafi verið staddur erlendis og óvinnufær á því tímabili. Meðal gagna í máli þessu sé sjúkradagpeningavottorð frá B þar sem fram komi að kærandi hafi verið óvinnufær frá 12. ágúst 2019 til 7. október 2019.  Einnig sé vottorð frá C sem staðfestir innlögn kæranda þar frá 13. september til 25. október 2019.

Vinnumálastofnun tekur fram að eitt af almennum skilyrðum fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga sé að vera staddur á Íslandi og vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. og c. liði 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun sé því ekki heimilt að greiða kæranda atvinnuleysisbætur á umræddum tíma. Endurgreiðsluskylda kæranda grundvallist á 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar en samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og að innheimta ofgreiddar bætur. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Ekkert álag hafi verið lagt á skuld kæranda. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 331.491 kr. vegna tímabilsins 12. ágúst til 25. október 2019 sem honum beri að endurgreiða í samræmi við 39. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hafi þegar greitt hluta af skuldinni með skuldajöfnun af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Skuld kæranda nemi nú 205.246 kr. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kæranda sé skylt að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. október 2019, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var óvinnufær og dvaldi erlendis á tímabilinu 12. ágúst til 25. október 2019, uppfyllti hann ekki skilyrði a. og c. liða 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera í virkri atvinnuleit og vera búsettur og staddur hér á landi. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að rétt hafi verið staðið að innheimtu skuldar kæranda við Vinnumálastofnun. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. október 2019, í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta