Til umsagnar drög að breytingu á lögum um fjarskipti er varða alþjónustu
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, að því er varðar alþjónustu á sviði fjarskipta. Unnt er að senda umsagnir um drögin til og með 28. ágúst á netfangið [email protected].
Meginefni þeirra breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu er þríþætt.
Í fyrsta lagi er ljóst að inntak alþjónustu í gildandi lögum endurspeglar ekki þá lágmarks fjarskiptaþjónustu sem eðlilegt er að notendum standi til boða miðað við núverandi tækni. Á þetta fyrst og fremst við um gagnaflutningsþjónustu innan alþjónustu en sá gagnaflutningshraði sem skilgreindur er í lögum mætir ekki lágmarksþörfum notenda fyrir internetþjónustu í dag.
Í öðru lagi verður að horfa til þess að með tækniframförum í fjarskiptum síðustu ára hafa opnast möguleikar á því að veita alþjónustu eftir fleiri tæknilegum leiðum en með tengingu við grunnnet fjarskipta. Í sumum tilfellum gætu slíkar tæknilausnir, t.d. farnetsþjónusta, verið aðgengilegri og hagkvæmari kostur en fastanetstengingar og skilað viðunandi þjónustu, sérstaklega ef um er að ræða lögheimili og/eða vinnustaði sem eru tengd koparheimtaug og eru nokkuð fjarri símstöð eða götuskáp. Því þykir rétt, m.t.t. hagkvæmni og skilvirkni, að fella niður það skilyrði fjarskiptalaga sem bindur alþjónustu við fastanetstækni. Með breytingunni verður alþjónusta ekki bundin við tiltekna tækni og því hægt að meta það svæðisbundið í hverju tilviki fyrir sig hvernig er hagkvæmast er að veita alþjónustu. Slík breyting er auk þess til þess fallin að draga úr þeim kvöðum sem í dag hvíla á útefndum alþjónustuveitanda, þ.e. Mílu ehf., um að þurfa að útvega lögheimilum og vinnustöðum fastanetstengingu þrátt fyrir að aðrir jafngóðir tæknilegir valkostir standi til boða.
Þriðja meginatriðið sem frumvarpið felur í sér er hækkun á gjaldhlutfalli jöfnunargjalds. Jöfnunargjald er lagt á öll starfandi fjarskiptafyrirtæki á markaði og er ætlað að fjármagna úthlutanir úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna þjónustu sem alþjónustuveitanda er gert skylt að sinna þrátt fyrir að tap sé á þjónustunni sem telst vera ósanngjörn byrði fyrir hann. Reglubundið fjárframlag til Neyðarlínunnar fyrir að sinna neyðarsímsvörun hefur verið nokkuð hærra heldur en sem nemur árlegum tekjum sjóðsins. Í ljósi þess að sjóðurinn hefur til nokkurra ára verið með jákvæðan höfuðstól hefur þetta misræmi í tekjum og gjöldum ekki komið að sök. Nú þykir hins vegar vera nauðsynlegt að rétta af stöðu sjóðsins.