Hoppa yfir valmynd
13. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 13. september 2011

Fundargerð 53. fundar, haldinn í velferðarráðuneyti þriðjudaginn 13. september 2011, kl. 14.00–16.00.

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Björg Bjarnadóttir, tiln. af KÍ, Einar Jón Ólafsson, tiln. af velferðarráðherra, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Ásta Sigrún Helgadóttir, tiln. af velferðarráðherra, Hannes Ingi Guðmundson, frá Umboðsmanni skuldara, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af SA, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ, Geir Gunnlaugsson, tiln. af velferðarráðherra, og Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður hans, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir, tiln. Reykjavíkurborg, Hrafnhildur Tómasdóttir, varamaður Gissurar Péturssonar, tiln. af velferðarráðherra, Ragnheiður Bóasdóttur, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Lovísa Lilliendahl, verkefnastjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, Margrét Erlendsdóttir, Ingibjörg Broddadóttir og Þorbjörn Guðmundsson starfsmenn.

Formaður bauð Guðbjart Hannesson velferðarráðherra og Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, aðstoðarmann ráðherra, velkomin á fundinn. Hún bauð stýrihópinn einnig velkominn til starfa að loknu sumarhléi.

1. Innlegg velferðarráðherra

Ráðherra þakkaði fyrir fundarboðið og hóf mál sitt með því að leggja áherslu á sjálfstæði velferðarvaktarinnar og hvatti hana til að vera í senn gagnrýnin og leiðbeinandi, að veita stjórnvöldum aðhald og leggja fram tillögur til úrbóta.

Í framhaldi fór ráðherra yfir tillögur velferðarvaktarinnar sem birtar eru í áfangaskýrslu hennar frá síðastliðnu sumri.* Það þarf sífellt að vera á vaktinni gagnvart velferð barna og það koma „sífellt nýjar kynslóðir“ sagði ráðherra. Í umræðum um tillögu velferðarvaktarinnar um að veita sérstöku fjármagni til heilsugæslustöðva til að tryggja geðheilbrigðisþjónustu og sálfélagslega þjónustu við börn greindi ráðherra frá því að mikill vilji væri hjá stjórnvöldum til að styrkja heilsugæsluna. Enn fremur sagði hann að foreldra- og fæðingarorlofið yrði ekki meira skert. Í tengslum við tillögur vaktarinnar um ungt fólk, skóla og atvinnumál greindi ráðherra frá því að verkefnið Nám er vinnandi vegur væri komið vel á skrið og ungu fólki að 25 ára aldri sé tryggð skólavist í framhaldsskóla. Þá greindi hann enn fremur frá samstarfi Vinnumálastofnunar, Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Reykjanesbæjar varðandi úrræði fyrir ungt fólk sem væri hvorki í vinnu né námi og til stæði að stofna sérstakt atvinnutorg fyrir svæðið. Niðurstaða liggur ekki fyrir varðandi miðlægan gagnagrunn um fjárhagsstöðu heimilanna, en velferðarvaktin hvatti til þess að ríkisstjórnin sæi til þess að hann yrði tekinn í notkun. Áttunda tillaga velferðarvaktarinnar snerist um að stofnaður yrði starfshópur sem meti úrræði stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna og kvaðst ráðherra styðja slíka tillögu.

Rætt var um stöðu efnalítilla barnafjölskyldna, einkum einstæðra foreldra, en velferðarkerfið geri í raun ráð fyrir tveimur fyrirvinnum. Var bent á skýrslu nefndar félags- og tryggingamálaráðherra frá apríl 2009 þar sem lagt var til að teknar yrðu upp barnatryggingar.

Enn fremur greindi ráðherra frá því að húsnæðismálin væru í endurskoðun, meðal annars að til stæði að samræma húsaleigubætur og vaxtabætur og vakti hann athygli á að á Íslandi næmi húsnæðiskostnaður 21% af ráðstöfunartekjum heimilanna, hann næmi 35% í Danmörku, 17–18% í Finnlandi og 25% í Noregi og Svíþjóð. Þá kom einnig fram að nefnd er að störfum við heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og að ráðuneytið hefði fengið sænsk-bandaríska ráðgjafa, Boston Consulting, til að fara yfir fyrirkomulag heilbrigðismála í samvinnu við ráðuneytið og fleiri innlenda aðila. Einnig var rætt um yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna og greindi ráðherra frá því að sveitarfélögin hefðu sýnt áhuga á að fá málefni aldraðra til sín fyrr en gert hafi verið ráð fyrir. Í því sambandi væri nauðsynlegt að skoða samhliða stöðu heilsugæslunnar.

2. Vetrarstarfið framundan

Rætt var um starf velferðarvaktarinnar á komandi vetri og samþykkt að halda starfsdag um það þriðjudaginn 4. október næstkomandi.

3. Fundargerð

Fundargerð 52. fundar var samþykkt.

Fundagerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

*http://www.velferdarraduneyti.is/rit-og-skyrslur-vel/nr/32846

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta