Endurgreiðsla kostnaðar vegna sjálfstætt starfandi sérgreinalækna
Velferðarráðherra hefur framlengt gildistíma reglugerðar um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands til 29. febrúar 2012.
Þegar samningur milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og sjálfstætt starfandi sérgreinalækna rann út í vor var sett reglugerð nr. 333/2011 til að tryggja sjúklingum endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu þeirra. Gildistími reglugerðarinnar hefur nú verið framlengdur til 29. febrúar 2012 með reglugerð nr. 1024/2011.
Velferðarráðherra hefur einnig sett reglugerð nr. 1023/2011 þar sem kveðið er á um þátttöku sjúkratrygginga almannatrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við einnota áhöld og efni vegna aðgerða hjá sérgreinalæknum í handlækningum, fyrirtækjum þeirra eða hópum sérgreinalækna sem starfa án samnings við SÍ.