Tilskipun um evrópsk samstarfsráð leidd í lög
Alþingi samþykkti 23. október sl. breytingu á lögum til innleiðingar á tilskipun Evrópuráðsins um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum sem starfa í löndum Evrópska efnahagssvæðisins og hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn.
Lög um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum voru sett hér á landi árið 1999 í samræmi við tilskipun Evrópuráðsins. Hingað til hefur ekki reynt á tilskipunina þar sem hún beinist að fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum sem starfa í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins með a.m.k. 1.000 starfsmenn. Endurskoðun sem gerð var á tilskipuninni krafðist þess að breytingar væru gerðar hér á landi á lögum um evrópsk samstarfsráð og var frumvarp þess efnis samþykkt 23. október sl.
EFTA dómstóllinn felldi í gær dóm yfir íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa ekki innleitt umrædda tilskipun á tilsettum tíma. Velferðarráðuneytið hefur nú sent EFTA tilkynningu þess efnis að tilskipunin hafi verið leidd í lög sem tóku gildi 30. október sl.
Í ljósi þess hversu stór fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður þurfa að vera til að falla undir ákvæði laganna er ekki talið að áhrif laganna verði mikil hér á landi.