Hoppa yfir valmynd
13. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 70/2020 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 70/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20010004

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 27. nóvember 2019 var ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, staðfest.

Þann 7. janúar 2020 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með beiðni kæranda um endurupptöku fylgdi greinargerð ásamt fylgigögnum.

II. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar í máli sínu, sbr. úrskurð nr. 564/2019. Þar hafi kærunefnd m.a. komist að þeirri niðurstöðu að samskipti kæranda og maka hennar hafi verið afar takmörkuð fyrir hjúskap. Þá megi ráða af niðurstöðu kærunefndar að tilvitnað mat á fyrirliggjandi gögnum hafi haft veruleg áhrif á niðurstöðu nefndarinnar. Að mati kæranda sé framangreint mat kærunefndar ekki í samræmi við málsatvik; þannig hafi kærandi og maki verið í reglulegu sambandi frá október 2017 og fram til maí 2018, kærandi hafi þurfti að skipta um aðgang að Facebook árið 2018 og hafi kærandi talið sig hafa veitt kærunefnd fullnægjandi upplýsingar um framangreint. Vísar kærandi til þess að kærunefnd hefði getað kallað eftir upplýsingum um samskipti á enn afmarkaðra tímabili. Meðfylgjandi beiðni um endurupptöku hafi kærandi lagt fram samskipti hennar og maka á tímabilinu desember 2017 til maí 2018. Telji kærandi að samskiptin sýni fram á að þau hafi verið í reglulegu sambandi á því tímabili þar sem kærunefnd hafi fullyrt að engin samskipti hefðu verið. Af framangreindum gögnum telji kærandi ljóst að úrskurður kærunefndar hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum og því sé mat kærunefndarinnar rangt. Sé um grundvallarforsendu að ræða í mati nefndarinnar og hinar leiðréttu upplýsingar muni leiða til annarrar niðurstöðu.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 564/2019 frá 27. nóvember 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga. Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á því að úrskurður kærunefndar hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum og því hafi mat kærunefndar á samskiptum kæranda og maka á tilgreindu tímabili verið rangt og að uppfyllt séu skilyrði til endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar byggði á nokkrum þáttum; hjúskaparsögu maka kæranda en hann skildi að lögum við fyrrverandi eiginkonu sína skömmu eftir að hann öðlaðist sjálfstæð réttindi hér á landi og gekk í hjúskap með kæranda um níu mánuðum síðar, að kærandi hafði skömmu áður verið synjað um dvalarleyfi á öðrum grundvelli hér á landi, takmörkuðum samskiptum kæranda og maka fyrir hjúskap og þá leit nefndin til fjölskyldutengsla kæranda við Ísland, en samkvæmt gögnum málsins eru móðir hennar og systir búsettar hér á landi.

Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á því að úrskurður kærunefndar hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum varðandi samskipti kæranda og maka hennar á tilteknu tímabili. Við meðferð kærumáls kæranda, sbr. fyrrgreindan úrskurð kærunefndar í máli kæranda, var henni leiðbeint um að leggja fram gögn sem sýndu fram á samskipti á tilgreindu tímabili, sbr. tölvupósta kærunefndar til kæranda, dags. 25. október 2019 og 4. nóvember s.á. Þá óskaði kærunefnd eftir frekari útskýringum á framlögðum gögnum kæranda þann 18. nóvember s.á. Kærandi lagði fram gögn sem sýndu fram á samskipti hennar við maka sinn á tímabilinu október til desember 2017 annars vegar og maí og júní 2018 hins vegar. Frekari gögn bárust hins vegar ekki og úrskurðaði kærunefnd í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram gögn sem eiga að sýna fram á samskipti kæranda og maka hennar á tímabilinu desember 2017 til maí 2018. Kærunefnd hefur farið yfir hin framlögðu gögn. Líkt og fyrri gögn um samskipti kæranda og maka kæranda sem kærandi lagði fram við meðferð kærumáls hennar sem lauk með úrskurði kærunefndar nr. 564/2019, þá virðast samskipti þeirra fyrir hjúskap hafa verið takmörkuð, þrátt fyrir að þau spanni nú lengra tímabil. Þá áréttar kærunefnd að sá þáttur málsins sem snýr að samskiptum kæranda og maka hennar fyrir hjúskap var aðeins hluti af heildarmati nefndarinnar í máli kæranda. Líkt og áður greinir byggði kærunefnd niðurstöðu sína jafnframt á öðrum atriðum sem höfðu veigamikla þýðingu við mat kærunefndar; hjúskaparsögu maka, fjölskyldutengslum kæranda hér á landi og þeirri staðreynd að kærandi hefði skömmu áður verið synjað um dvalarleyfi á öðrum grundvelli hér á landi. Er það mat nefndarinnar að framlögð gögn og skýringar breyti ekki fyrra mati kærunefndar. Með vísan til þess er það mat kærunefndar að framlögð gögn með endurupptökubeiðni séu ekki þess eðlis að tilefni sé til endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að framgreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 564/2019, dags. 27. nóvember 2019, hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá töku ákvörðunar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                     Daníel Isebarn Ágústsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta