Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftslagsmál og líffræðileg fjölbreytni rædd á ráðherrafundi í Slóveníu

Nýta þarf tímann vel fram að loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem haldinn verður í Glasgow í nóvember og mikilvægt er að ríki heims taki höndum saman um aukinn metnað í loftslagsmálum. Þetta kom fram í máli Guðmundar Inga, Guðbrandsonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, á óformlegum ráðherrafundi umhverfisráðherra Evrópusambandsins og EFTA ríkjanna sem fram fór í Ljúbljana í Slóveníu í gær og í dag.

Ráðherra fagnaði nýjum tillögum framkvæmdastjórnar ESB að aðgerðapakka (e. Fit for 55) vegna nýrra landsmarkmiða í loftslagsmálum. Ísland hefur uppfært markmið sín um samdrátt í losun líkt og ESB og Noregur og í samfloti ríkjanna er stefnt að 55% samdrætti í stað 40% árið 2030 miðað við 1990. Ráðherra greindi jafnframt frá samþykkt Alþingis á breytingu á loftslagslögum sem lögfesta markmið Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040.

Guðmundur Ingi ræddi mikilvægi þess að ríki heims settu sér metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum fyrir aðildarríkjafund loftslagssamningsins í haust því brýnt er að takmarka hækkun hitastigs við 1,5°C. Ráðherra lagði jafnframt áherslu á að lokið yrði samningaviðræðum um þá þætti sem enn stæðu út af vegna innleiðingar Parísarsamningsins svo hann gæti að fullu tekið gildi. 

Viljayfirlýsing með Sviss í loftslagsmálum

Í gær skrifaði ráðherra undir viljayfirlýsingu með Sviss um samstarf á sviði föngunar og förgunar kolefnis úr andrúmslofti, en mikill áhugi hefur verið á föngun og förgun kolefnis á Íslandi, bæði af hálfu innlendra og erlendra aðila.

 

 

Friðlýsingaátak og náttúrumiðaðar lausnir

Líffræðileg fjölbreytni var einnig á dagskrá ráðherrafundarins, sérílagi fyrstu drög að rammasamkomulagi um hnattrænar aðgerðir á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika.

Ráðherra lagði áherslu á stuðning Íslands við metnaðarfull markmið og aðgerðir, bæði hvað varðar verndarsvæði á landi og í hafi, endurheimt vistkerfa og samlegðaráhrif í aðgerðum sem geti stutt við markmið í loftslagsmálum, líffræðilegri fjölbreytni og í að vinna á landhnignun, allt á sama tíma. Náttúrumiðaðar lausnir eins og endurheimt skóga og votlendis eru dæmi um aðgerðir með slík samlegðaráhrif sem Íslandi hafi lagt stóraukna áherslu á síðastliðin ár, meðal annars með meira en tvöföldun aðgerða í skógrækt og landgræðslu og tíföldun í endurheimt votlendis.

Ísland vinnur nú að endurnýjun stefnu um líffræðilega fjölbreytni.

Vakti athygli á friðlýsingaátaki stjórnvalda

Ráðherra vakti sérstaklega athygli á friðlýsingarátaki íslenskra stjórnvalda, en 22 svæði hafa bæst við á síðustu þremur árum eða verið stækkuð. Mörg þeirra fela í sér frekari vernd viðkvæmra tegunda og vistkerfa og eiga meðal annars að tryggja vernd og viðgang líffræðilegrar fjölbreytni hérlendis. Unnið er að fleiri friðlýsingum en stærsta verkefnið er Hálendisþjóðgarður sem áfram verður unnið að á vegum stjórnvalda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta