Hoppa yfir valmynd
21. maí 2021 Innviðaráðuneytið

Sigurður Ingi á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga: Lykillinn að umbótum er samvinna

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 21. maí 2021. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var rafrænt í dag. Ráðherra fór um vítt svið og fjallaði um fjölmörg framfaramál í stefnumótandi áætlun stjórnvalda um málefni sveitarfélaga, þ.á m. lágmarksfjölda íbúa, tekjustofna sveitarfélaga, stuðning við sameiningar, málefni landshlutasamtaka, stafræna þróun og starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Þá fjallaði hann um endurskoðun byggðaáætlunar sem komin er vel á veg.

Í ávarpi sínu sagði Sigurður Ingi að íslenskt samfélag hafi staðið af mikilli prýði eftir erfitt ár sem einkennst hafi af baráttunni við heimsfaraldur og ýmsum öðrum áskorunum. Á sama tíma hafi engu að síður tekist að vinna af krafti í nokkrum mikilvægum framfaramálum fyrir sveitarfélög og íbúa þess. 

„Ég er mjög þakklátur fyrir þá góðu samvinnu sem ríki og sveitarfélög hafa átt við þessar erfiðu aðstæður. Okkur hefur lánast að halda fókus á það sem skiptir fólkið í landinu mestu máli, við höfum staðið vörð um velferð fólks, tekið utan um þá hópa sem standa höllustum fæti og um leið lagt grunninn að öflugri viðspyrnu nú þegar við sjáum til lands,“ sagði Sigurður Ingi.

Unnið að framkvæmd aðgerða í stefnu um málefni sveitarfélaga

Stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga var samþykkt fyrir rúmu ári og er fyrsta áætlun sinnar tegundar, sem hefur skýra framtíðarsýn og markmið um eflingu og styrkingu sveitarstjórnarstigins. Undir hana falla ellefu skilgreindar aðgerðir sem nú væri verið að hrinda í framkvæmd. Staða aðgerða hefur verið birt á vef ráðuneytisins.

Í umfjöllun um þá aðgerð sem snýr að lágmarksíbúafjölda lýsti ráðherra því að hann væri opinn fyrir umræðu um málamiðlanir um frumvarp þessa efnis, sem nú væri til meðferðar á Alþingi, ef það gæti verið til þess fallið að tryggja breiðari samstöðu um þetta mikilvæga umbótaverkefni. Verið væri að skoða leiðir til þess og hann væri bjartsýnn á farsæl málalok.

Sigurður Ingi fjallaði um stóraukinn stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga sem hafi haft mjög jákvæð áhrif og unnið er að sameiningum vítt og breitt um landið. „Ef öll þau áform sem eru í pípunum hljóta samþykki íbúanna og ef litið er til nýlegra sameininga mun sveitarfélögum á Íslandi fækka á annan tug á skömmum tíma,“ sagði ráðherra. Ríkissjóður hafi þegar stutt við verkefnið sem nemur einum milljarði sem væri mun meira en þegar byrjað var að ræða fjármögnun fyrir um tveimur árum síðan. 

Ráðherra sagði frá starfi nefndar til að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en markmið verkefnisins er að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra. Búast megi við að um næstu áramót liggi fyrir tillögur eða valkostagreining nefndarinnar og að ný ríkisstjórn geti á þeim grundvelli tekið afstöðu til framhaldsins.

„Það er klárlega tímabært að fara vel yfir tekjustofnakerfið og meta tækifæri til úrbóta, m.a. mögulega nýja tekjustofna til að mæta nýjum áskorunum, t.d. á sviði umhverfismála. Þetta snýst um fjárhagslega sjálfbærni og getu sveitarfélaga til að annast brýn og krefjandi verkefni,“ sagði ráðherra.

Ráðherra sagði einnig frá því að ríkið hafi veitt 100 m.kr. til stuðnings stafrænnar þróunar hjá sveitarfélögum og er nú unnið að krafti að hrinda af stað ýmsum umbótaverkefnum á því sviði. Gott samstarf er milli Stafræns Íslands og sambandsins og vænti ég þess að það skili góðum árangri. Þá veit ég að einstök sveitarfélög hafa sett þessi mál í forgang og það er vel.

Endurskoðun byggðaáætlunar hafin

Ráðherra hvatti fundargesti til kynna sér vel yfirstandandi vinnu við endurskoðun byggðaáætlunar. Hún væri langt komin en ráðuneytið gaf nýverið út drög að nýrri stefnu í svokallaðri hvítbók. 45 aðgerðir eru kynntar í drögunum til að ná markmiðum áætlunarinnar og hluti þeirra eru nýjar aðgerðir, aðrar eru einnig hluti af núgilandi áætlun. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru nú fléttuð inn í stefnuna í fyrsta sinn.

Ein aðgerðanna í drögum að endurskoðaðri byggðaáætlun er mótun höfuðborgarstefnu. Stefnan muni skilgreina hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar allra landsmanna, réttindi og skyldur borgarinnar sem höfuðborgar Íslands og stuðli að aukinni samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls.

„Höfuðborgarsvæðið er óumdeild miðstöð opinberrar stjórnsýslu og miðlægrar þjónustu landsins en við gerum líka kröfu um sem allir landsmenn hafi gott aðgengi að henni. Höfuðborgarstefna væri stefna sem miðar að því að samræma margvíslegar aðgerðir fyrir höfuðborgarsvæðið sem efla landið í heild og leiða til aukinnar samkeppnishæfni þess og höfuðborgarsvæðisins í alþjóðlegu samhengi,“ sagði Sigurður Ingi.

Verkefnisstjórn um mótun höfuðborgarstefnu

Ráðherra kynnti skipun verkefnisstjórnar um mótun höfuðborgarstefnu. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, muni leiða verkefnið fyrir mína hönd, en auk hennar í verkefnisstjórninni væru Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri, án tilnefningar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar fyrir hönd SSH og Gauti Jóhannesson forseti sveitarstjórnar Múlaþings fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Í lokaorðum sínum fjallaði ráðherra um samvinnuna. „Lykillinn að umbótum er samvinna. Ég er þakklátur fyrir þá góðu samvinnu sem við höfum átt á undanförnum árum og veit að á henni getum við byggt til framtíðar. Því samfélag er ekki hús sem forfeður okkar byggðu og við búum í. Samfélag er eitthvað sem við byggjum saman á hverjum degi úr þeim gildum sem við eigum sameiginleg,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Arna Ír Gunnarsdóttir þingforseti. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta