Innanríkisráðherra heimsótti embætti sýslumannsins í Reykjavík
Ögmundur Jónasson innanríksráðherra heimsótti í dag ásamt fylgdarliði úr ráðuneytinu embætti sýslumannsins í Reykjavík og ræddi við Guðmund Sophusson og samstarfsmenn hans. Kynnti ráðherra sér starfsemina og síðan var farið yfir mála- og fjárhagsstöðu embættisins og rekstrarhorfur á næsta ári.
Fram kom í máli sýslumanns á fundinum að störfum við embættið hefði fækkað undanfarin ár um leið og verkefnum hefði fjölgað. Reynt væri að beita aðhaldi og þannig haldið í lágmarki kaupum á þjónustu og lítið sem ekkert fjárfest í endurnýjun búnaðar. Þá var rætt um fjárlagafrumvarp næsta árs og þær áskoranir sem í því fælust að mæta kröfum um lækkun útgjalda.
Rætt var almennt um stöðuna og hin margvíslegu verkefni embættisins en það er hrein stjórnsýslustofnun sem verður að sinna ákveðnum verkefnum lögum samkvæmt. Ráðherra ræddi einnig um væntanlegt frumvarp til laga sem lagt verður fram á Alþingi í vetur um sameiningu sýslumannsembætta. Lagði hann áherslu á að takast mætti góð samvinna sýslumanna og ráðuneytisins um innleiðingu þeirra breytinga sem ráðgerðar eru á næstu árum samkvæmt frumvarpinu.