Mál nr. 39/2017
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 39/2017
Tjón á hinu leigða.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 9. apríl 2017, beindu A og B, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, hér eftir nefndur gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.
Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 1. júní 2017 og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 11. júní 2017, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 18. júlí 2017.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Gagnaðili leigði íbúð af álitsbeiðendum. Ágreiningur er um skaðabætur vegna ástands íbúðarinnar við leigulok.
Krafa álitsbeiðenda er:
Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða þeim skaðabætur vegna tjóns á hinni leigðu eign.
Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðendur telji sig eiga kröfu á hendur gagnaðila í samræmi við fylgiskjal sem hafi að geyma upptalningu á skemmdum á hinni leigðu eign. Þá er þess krafist að gagnaðili greiði sinn hlut af húsaleiguúttekt sem framkvæmd hafi verið í júlí 2016.
Í greinargerð gagnaðila segir að hann hafni því alfarið að hafa valdið tjóni á fasteign álitsbeiðenda. Hann hafi búið í húsnæðinu ásamt eiginkonu sinni og fimm börnum í fimm ár. Þau hafi gengið vel um eignina og ekki valdið tjóni á henni. Engin úttekt hafi farið fram á ástandi eignarinnar í upphafi og gegn neitun gagnaðila geti álitsbeiðendur því ekki sannað að hann hafi valdið tjóni á henni, sbr. meðal annars álit kærunefndar húsamála í málum nr. 9/2010, 8/2002 og 35/2012.
Í athugasemdum álitsbeiðenda segir að gagnaðili hafi ekki gert athugasemdir við ástand hinnar leigðu eignar í upphafi leigusamnings enda hafi verið um tiltölulega nýtt húsnæði að ræða. Klæðning hafi verið sett á húsnæðið í október 2009 en gagnaðili fengið það afhent 1. júlí 2011. Hafi álitsbeiðendur séð gagnaðila þrífa klæðninguna með WD-40 en á netinu megi sjá myndskeið af því hvernig fela megi rispur á máluðum flötum með WD-40. Þá sé bent á að í tölvupóst frá gagnaðila segi að hann harmi að hann geti ekki skilað húsnæðinu í sama horfi og hann hafi tekið við því.
III. Forsendur
Aðilar deila um hvort gagnaðila beri að greiða álitsbeiðendum skaðabætur vegna ástands hins leigða húsnæðis við lok leigutíma.
Samkvæmt 63. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, skal leigjandi skila húsnæði að leigutíma loknum í hendur leigusala í sama ástandi og hann tók við því. Ber leigjandi óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafi af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi. Samkvæmt 65. gr. laganna skal byggingarfulltrúi meta tjón vegna skemmda á hinu leigða húsnæði komi aðilar sér ekki saman um bótafjárhæð. Kröfu sinni til stuðnings lögðu álitsbeiðendur fram úttektarskýrslu byggingarfulltrúa sveitafélagsins sem framkvæmd var í lok leigutíma. Ekki fór þó fram úttekt á húsnæðinu við upphaf leigutíma en gagnaðili hafði afnot af eigninni í alls fimm ár. Gegn neitun álitsbeiðenda skortir því, að mati kærunefndar, viðhlítandi sönnun fyrir því að hin leigða eign hafi orðið fyrir spjöllum á leigutímanum sem gagnaðili beri ábyrgð á.
Ákvæði 1. mgr. 71. gr. húsaleigulaga kveður á um að aðilum leigusamnings sé skylt að láta fara fram úttekt á hinu leigða húsnæði við afhendingu þess eða við skil í lok leigutíma ef annar aðilinn krefst þess. Í 1. mgr. 70. gr. laganna segir að þegar úttekt sé gerð á húsnæði í upphafi eða við lok leigutíma skuli aðilar leigusamnings staðgreiða að jöfnu kostnað vegna úttektar. Reikningur sveitarfélagsins vegna úttektar 8. júlí 2016 hljóðar upp á 18.167 kr. Telur kærunefnd því að gagnaðila beri að greiða álitsbeiðendum 9.083 kr.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar húsamála að gagnaðila beri að greiða álitsbeiðendum 9.083 kr.
Reykjavík, 18. júlí 2017
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson
Eyþór Rafn Þórhallsson