Hoppa yfir valmynd
26. september 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 208/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 208/2017

Þriðjudaginn 26. september 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. maí 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. maí 2017 um þátttöku í dvalarkostnaði.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. maí 2017, var kæranda tilkynnt um að vegna upplýsinga um að hún væri íbúi á hjúkrunarheimili frá X maí 2017 falli lífeyrisréttindi hennar frá stofnuninni niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir þá dagsetningu og voru greiðslur því stöðvaðar 1. júní 2017. Þá var kæranda tilkynnt um að þátttaka hennar í dvalarkostnaði hafi verið ákveðin X kr. á mánuði á tímabilinu 1. júní 2017 til 31. desember 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. maí 2017. Með bréfi, dags. 30. júní 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. júlí 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send B umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. júlí 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð dvalarkostnaðar vegna varanlegrar búsetu hennar á hjúkrunarheimili verði endurskoðuð.

Í kæru segir að farið sé fram á endurskoðun til lækkunar vegna dvalarkostnaðar á varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili. Við skoðun sé dvalarkostnaður óvenju hár. Hvorki salernis- né hreinlætisaðstaða sé til staðar í herbergi.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé fjárhæð kostnaðarþátttöku vegna dvalar á hjúkrunarrými.

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra skuli heimilismaður á hjúkrunarrými sem sé með tekjur umfram tiltekin mörk taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar. Tryggingastofnun annist framkvæmd útreiknings á tekjum, sbr. 3. mgr. 26. gr. laganna. Tekjumörkin séu 74.696 kr. á mánuði samkvæmt orðalagi laganna en þau hafi verið hækkuð með breytingum á 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1112/2006 um stofnanaþjónustu.

Samkvæmt nýjustu breytingum á reglugerðinni, sbr. 1. gr. (9.) breytingareglugerðar nr. 1/2016 og 1. gr. (10.) breytingareglugerðar nr. 1254/2016 séu tekjumörk vegna þátttöku í greiðslu dvalarkostnaðar nú 88.088 kr. á mánuði og hámarkskostnaðarþátttaka sé 395.305 kr. Til þess að hámarksþátttaka sé greidd þurfi mánaðarlegar tekjur að frádregnum staðgreiðsluskatti (miðað við hámarksútsvar) að nema að minnsta kosti 483.393 kr.

Samkvæmt tekjuáætlun fyrir árið 2017 séu tekjur kæranda frá lífeyrissjóði X kr. á ári eða X kr. á mánuði og vextir af innistæðum X kr. á ári eða X kr. á mánuði eða samtals X kr. á ári eða X á mánuði.

Við útreikning á kostnaðarþátttöku dragist frá tekjunum staðgreiðsla skatta (X kr. af lífeyrissjóðstekjum og X kr. af fjármagnstekjum), þ.e. X kr. og mánaðarlegar tekjur kæranda séu þannig X kr. Af þessum tekjum reiknist X kr. kostnaðarþátttaka, þ.e. full kostnaðarþátttaka en vegna auramismunur í útreikningum sé þessi fjárhæð 10 krónum lægri en fram komi í reglugerðinni.

Útreikningur á kostnaðarþátttöku kæranda sé réttur. Ekki sé um að ræða neinar heimildir í lögum eða reglugerðum til að endurskoða til lækkunar útreikning kostnaðarþátttöku.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. maí 2017 um þátttöku kæranda í dvalarkostnaði vegna varanlegrar dvalar hennar í hjúkrunarrými.

Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála segir að nefndin skuli úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar.

Í 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildi um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.

Ágreiningur í máli þessu varðar ákvörðun Tryggingastofnunar um hlutdeild kæranda í dvalarkostnaði vegna varanlegrar dvalar hennar á hjúkrunarheimili. Um er að ræða ákvörðun sem stofnunin tók á grundvelli laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, sbr. 3. mgr. 26. gr. laganna. Ljóst er að kæra í máli þessu varðar því ekki ágreining um þá þætti sem tilgreindir eru í framangreindri 13. gr. laga um almannatryggingar. Þá er hvorki að finna heimild í lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála né lögum um málefni aldraðra til að kæra ákvarðanir til nefndarinnar sem teknar eru á grundvelli síðarnefndu laganna.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að það falli utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um þann ágreining sem hér er til umfjöllunar.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Í máli þessu er velferðarráðuneytið hið æðra stjórnvald, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 4. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og b-lið 3. tölul. 9. gr. forsetaúrskurðar nr. 15/2017 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins verða því kærðar til velferðarráðuneytisins, nema annað leiði af lögum eða venju.

Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og framsend til velferðarráðuneytisins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og framsend til velferðarráðuneytisins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta