Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 44/2017

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 44/2017

Lögmæti aðalfundar.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 23. maí 2017, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 27. júní 2017, og athugasemdir hans, dags. 5. júlí 2017, og athugasemdir gagnaðila, dags.18. júlí 2017, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 31. ágúst 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi er eigandi einnar íbúðar af 134 í fjölbýlishúsi. Gagnaðili er formaður stjórnar húsfélags eignarinnar. Ágreiningur er um lögmæti aðalfundar sem fram fór 12. apríl 2017.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að aðalfundur, sem haldinn var 12. apríl 2017, hafi verið ólögmætur.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi, við gagnaðila, lýst yfir áhuga á að sitja í stjórn húsfélagsins. Gagnaðili hafi þá tjáð honum að aðrir stjórnarmenn væru ekki hrifnir af því að fá hann í stjórn. Samkomulag hafi því orðið um að hann myndi bjóða sig fram sem varamann í stjórn. Í fundarboði hafi aftur á móti komið fram að þær konur sem setið höfðu í varastjórn húsfélagsins gæfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og hann hafi því ekki viljað fara fram á móti þeim í kosningu. Hann hafi því ákveðið að bjóða sig fram sem almennan stjórnarmann. Hafi nafngreindur aðili, sem einnig gaf kost á sér í stjórn, kveðið sér hljóðs og lýst því yfir að hann myndi ekki sitja í stjórn ef álitsbeiðandi yrði kosinn í stjórnina. Álitsbeiðandi hafi þannig verið niðurlægður og ekki náð kjöri í stjórn. Telur hann að fundurinn sé ólögmætur þar sem ekki hafi verið getið um framboðsræður í fundarboði og þess ekki getið í fundarboði að álitsbeiðandi gæfi kost á sér til stjórnarsetu í félaginu.

Í greinargerð gagnaðila segir að rætt hafi verið við álitsbeiðanda um að meirihluti þeirra sem gáfu sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu í félaginu teldu sig ekki geta unnið með honum. Þeir hafi áður setið í stjórn saman og samskipti verið erfið. Rétt sé hjá álitsbeiðanda að aðilar hafi rætt um að hann gæti boðið sig fram sem varamann í staðinn en annar varamannanna hafi lýst því yfir fyrir fund að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Þeim aðila hafi aftur á móti snúist hugur áður en fundarboð var sent út og álitsbeiðandi og tveir aðrir því verið nefndir á atkvæðaseðli sem frambjóðendur til varastjórnar. Eftir að fundarboðið hafi verið sent út hafi álitsbeiðandi fyrst skipt um skoðun og ákveðið að bjóða sig fram til stjórnar félagisns þrátt fyrir að stjórnarmenn hafi rætt við hann um að þeir treystu sér ekki til að starfa með honum í stjórn. Atkvæðaseðill á aðalfundi hafi þó haft að geyma nafn hans sem frambjóðanda til stjórnar og útskýrt verið fyrir fundarmönnum að hann væri ekki að bjóða sig fram sem varamann. Geti það ekki valdið ógildi fundarins.

Í athugasemdum álitsbeiðanda eru fyrri sjónarmið ítrekuð en tekið fram að álitsbeiðandi viti ekki hvaða samstarfsörðugleika fyrrverandi samstjórnendur hans vísi í.

Athugasemdum gagnaðila fylgdu tölvupóstar frá árinu 2011 þar sem álitsbeiðandi óskar í tvígang eftir að ganga úr stjórn vegna samstarfsörðugleika en fyrri sjónarmið að öðru leyti ítrekuð.

III. Forsendur

Aðila greinir á um hvort aðalfundur, sem haldinn var 12. apríl 2017, hafi veið lögmætur. Telur álitsbeiðandi fundinn ólögmætan þar sem ekki hafi verið getið um framboðsræður í fundarboði og þess ekki heldur getið að hann gæfi kost á sér til stjórnarsetu í félaginu. Fjallað er um aðalfundi og boðun þeirra í 59. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994. Segir þar í 2. mgr. að í fundarboði skuli greina fundartíma, fundarstað og dagskrá. Þá skuli geta þeirra mála sem ræða eigi og meginefni tillagna þeirra sem leggja eigi fyrir fundinn.

Óumdeilt er að álitsbeiðandi hugðist bjóða sig fram sem varamann en snerist hugur eftir að aðalfundarboð hafði verið sent félagsmönnum og ákvað að bjóða sig fram sem aðalmann í stjórn. Að mati kærunefndar getur það ekki valdið ógildingu fundarins auk þess sem ekki er lagaskylda að láta framboðslista fylgja með aðalfundarboði. Þá hafi frambjóðendur rétt til að tjá sig um framboð sitt án þess að slíks sé sérstaklega getið í aðalfundarboði enda falli sá réttur þeirra undir tillögu um kosningu stjórnarmanna, rétt eins og fundarmönnum sé heimilt að tjá sig um aðrar tillögur áður en þær eru bornar undir atkvæði.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að aðalfundur, sem haldinn var 12. apríl 2017, sé lögmætur.

Reykjavík, 31. ágúst 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta