Sterk menning er það sem heldur okkur saman
Lilja Alfreðsdóttir sótti 74. þing Norðurlandaráðs í Helsinki þar sem hún fundaði með norrænum menningarmálaráðherrum. Á fundinum kynnti Lilja formennskuáherslur Íslands á sviði menningarmála en Ísland tekur við formennsku í samstarfinu á næsta ári.
Á formennskuári Íslands verður sérstök áhersla lögð á samkeppnishæfni Norðurlandanna í listum og skapandi greinum með því að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum á milli listamanna. Einnig verður unnið að eflingu gagnkvæms tungumálaskilnings íbúa Norðurlanda og að mótuð verði sameiginleg norræn stefna um stafræna máltækni sem getur stuðlað að framgangi tungumálanna allra í stafrænum heimi. Þá verður áframhaldandi áhersla á málefni ungmenna og hreyfanleika ungs fólks milli Norðurlandanna.
Loftslagsbreytingar, áhrif COVID 19, stríðið í Úkraínu og orkumál voru yfirgripsmikil á fundi ráðherranna. Rætt var um grænt menningarlíf á Norðurlöndum en árið 2021 sammæltust ráðherrarnir um að stuðla að menningarpólitískum áherslumálum með sjálfbærni að leiðarljósi.
,,Norrænt samstarf hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og nú. Það kveður við nýjan tón að rætt sé um orkuöryggi og öryggismál í jafn miklum mæli og gert var á þessu 74. þingi Norðurlandaráðs. Menning og listir er límið í þeim gildum sem við á Norðurlöndunum stöndum fyrir og eru löndin staðráðin í að halda þeim enn hærra á lofti í ljósi þeirrar þróunar sem á sér stað í heiminum. Sterk menning er það sem heldur okkur saman,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra.