Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Gagngerar endurbætur á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupsstað

Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað
Fjórðungssjúkrahúsið_Neskaupsstað

Gagngerum endurbótum og viðbyggingu við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað er lokið og tók Siv Friðleifsdóttur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra húsnæðið formlega í notkun í gær mánudaginn 16. apríl. Endurbætur á eldri hluta sjúkrahússins fela meðal annars í sér að byggð var ný hæð ofan á húsið í stað þakhýsis sem fyrir var. Þá var byggt við húsið nýtt anddyri, lyftuhús, setustofa og aðstaða til fræðslu- og fundarhalda auk þess sem tvær aðalhæðir hússins voru endurinnréttaðar. Með þessum áfanga lýkur endurbótum á aðstöðu Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupsstað, en í fyrra voru sett þar upp í ný stafræn röntgentæki og innréttað rými fyrir röntgen sneiðmyndatæki, en tækið sjálft var gefið af hollvinasamtökum Fjórðungssjúkrahússins á Neskaupstað.

Eldri hluti sjúkrahússins sem nú hefur verið bættur til mikilla muna var byggður árið 1957 og er því 50 ára á þessu ári. Sjúkrahúsið var stækkað með viðbyggingu á árunum 1973-1988. Að sögn heilbrigðisráðherra er með endurbótunum sem nú er að ljúka brugðist við þeirri miklu uppbyggingu sem orðið hefur á Austurlandi síðustu misserum, en brýnt hafi verið að auka þjónustuna í takt við fjölgun íbúa á svæðinu.

Fyrsta og önnur hæð eldra hússins voru innréttaðar upp á nýtt og er á fyrstu hæð matsalur og eldhús auk skrif-stofuhúsnæðis. Á annarri hæð er hjúkrunardeild með 7 stofum og á þriðju hæð hefur verið innréttuð ný og fullkomin endurhæfingardeild með rúmgóðri aðstöðu fyrir iðju- og sjúkraþjálfun. Áætlað er að starfsemi endurhæfingar- og hjúkrunardeilda fyrir aldraða hefjist um næstu mánaðamót. Með þeirri viðbót sem nú er verið að taka í notkun losnar samsvarandi rými annars staðar á spítalanum. Það þýðir að meðal annars verður hægt að létta á legudeild sjúkrahússins og aðstaða fyrir aðra starfsemi eins og endurhæfingarnámskeið fyrir hjarta- og lungnasjúklinga batnar til muna.

Kostnaður við breytingarnar er um 250 milljónir króna en með nýjum tækjabúnaði verður heildarkostnaður liðlega 300 milljónir króna. Framkvæmdasýsla ríkisins hafði umsjón með framkvæmdunum og var Guðbjartur Á. Ólafsson verkefnastjóri. Arkitekt breytinganna var Pétur Örn Björnsson arkitekt hjá Arkitektahönnun ehf., Hönnun hf. sá um hönnun burðarþols og lagna- og brunatæknilega hönnun. Umsjá ehf. hannaði raflagnir en verktaki var Viðhald fasteigna ehf.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta