Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2007 Heilbrigðisráðuneytið

SAMAN hópurinn fær Íslensku lýðheilsuverðlaunin

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að veita SAMAN hópnum Íslensku lýðheilsuverðlaunin 2007 fyrir að leiða saman ólíka aðila til stuðnings íslenskum foreldrum í vandasömu uppeldishlutverki þeirra. Afhending verðlaunanna fór fram í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun.

Íslensku lýðheilsuverðlaunin eru veitt í samræmi við áherslur sem heilbrigðis-og tryggingamála-ráðherra hefur kynnt á sviði forvarna og heilsueflingar. Auglýst var eftir tilnefningum til verð-launanna og bárust á milli 40 og 50 tilnefningar frá fyrirtækjum, einstaklingum og stofnunum. Nefnd á vegum heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytis var ráðherra til aðstoðar við mat á tilnefningum.

SAMAN hópurinn er samstarfsvettvangur frjálsra félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana sem láta sig varða velferð barna. Markmið hópsins er að styðja og styrkja foreldra, einkum í tengslum við tímabil eða sérstaka atburði þegar talið er líklegt að aukning verði á neyslu vímuefna meðal ungmenna. SAMAN hópurinn varð til um áramótin 1999 – 2000 og hefur starfað óslitið síðan. Hópurinn hefur staðið að gerð og útgáfu auglýsinga, fræðslu- og kynningarefnis til dæmis þegar 10. bekkingar útskrifast úr grunnskóla, á haustin þegar útivistartími barna styttist, á 17. júní og um verslunarmannahelgina.

SAMAN hópurinn er gott dæmi um öflugt tengslanet talsmanna um lýðheilsu en í hópnum sameina krafta sína 22 sveitarfélög, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök. Aðilar að SAMAN hópnum eru: Akureyrarbær, Seltjarnarnesbær, Garðabær, Reykjavíkurborg, Hafnar-fjarðarbær, Mosfellsbær, Sveitarfélagið Álftanes, Kópavogur, Barnaheill, Fræðslumiðstöð í fíknivörnum, Heilsugæslan í Reykjavík, Heimili og skóli, IOGT, Lögreglan á höfuðborgar-svæðinu, Ný leið ráðgjöf, Rauði kross Íslands, Ríkislögreglustjórinn, SAMFOK, Umboðsmaður barna, Vímulaus æska, Þjóðkirkjan og loks Lýðheilsustöð.

Handhafi Íslensku lýðheilsuverðlaunanna fær annars vegar veglegan verðlaunagrip, styttu úr gleri á grágrýtisstöpli eftir Ólöfu Davíðsdóttur í Brákarey, en hins vegar 500 þúsund króna fjárupphæð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta