Sjúkraþjálfun á hestbaki viðurkennd
Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur undirritað reglugerð sem felur í sér að framvegis mun Tryggingastofnun ríkisins taka þátt í kostnaði við nauðsynlega sjúkraþjálfun á hestbaki fyrir einstaklinga sem eru með skaða í miðtaugakerfi. Undanfarin misseri hefur verið gerð tilraun með að nota hesta við sjúkraþjálfun fatlaðra barna og hefur hún gefið góða raun. Hins vegar hefur þetta meðferðarúrræði ekki fengið almenna viðurkenningu hér á landi og því hefur Tryggingastofnun ríkisins ekki tekið þátt í kostnaði vegna slíkrar meðferðar. Úr því hefur nú verið bætt.
Undirritunin fór fram á reiðsvæði hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi en viðstaddir voru sjúkraþjálfarar sem hafa veitt þessa meðferð og nokkur þeirra barna sem hafa notið hennar og foreldrar þeirra. Ennfremur formaður Félags ísl. sjúkraþjálfara, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, fulltrúi frá Íþróttasambandi fatlaðra auk ýmissa sem hafa sýnt þessu máli áhuga.