Náðir þú að pakka? Herferð UN Women um stríð og konur
UN Women á Íslandi hóf í gær kynningar- og fræðsluherferð með yfirskriftinni: Náðir þú að pakka? Verkefninu er ætlað að vekja almenning til umhugsunar um sértæk áhrif stríðs og átaka á líf kvenna og stúlkna. Samhliða fræðslunni verður efnt til söfnunar fyrir konur á flótta. UN Women á Íslandi biðlar til almennings að senda senda sms-ið KONUR í 1900 (1900kr.) og veita konum og stúlkum á flótta lífsbjargandi aðstoð.
Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum og í dag. Sameinuðu þjóðirnar telja að þeim muni fjölga umtalsvert samhliða auknum áhrifum loftslagsbreytinga, sem þegar er farið að gæta víða um heim. Vegna stríðsins í Úkraínu hafa nú þegar átta milljónir flúið heimili sín, þar af eru 90 prósent konur og börn.
„Þegar fólk flýr heimili sín, sama hvort það sé vegna stríðsátaka, náttúruhamfara eða ofsókna, gefst sjaldan tími til að pakka, hvað þá að hugsa fyrir nauðsynjum. Sjaldan er hugsað fyrir sértækum þörfum kvenna og stúlkna og er átakinu Náðir þú að pakka? ætlað að upplýsa almenning um stöðu kvenna og stúlkna á flótta, mikilvægi þess að tekið sé mið af sértækum þörfum þeirra þegar neyðaraðstoð er veitt og hversu mikilvægt það er fyrir heilsu og líf kvenna á flótta að hafa aðgang að hreinlætisvörum, sálfræðiaðstoð, upplýsingum um réttindi sín, fjárhagsaðstoð og heilbrigðisþjónustu,“ segir í frétt frá UN Women.
Í fréttinni segir að stríðsátök hafi ólík áhrif á líf fólks eftir stöðu og kyni. Á meðan karlmenn séu líklegri til að deyja í átökum þá séu konur og stúlkur líklegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi, mansali og búa við viðvarandi skort þegar stríðsátök geisa. „Nú þegar eru farnar að berast fréttir af því að konur og börn á flótta frá Úkraínu hverfi í ringulreiðinni sem ríkir á lestastöðvum og móttökustöðum. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hefur það færst í aukana að konur á átakasvæðum og flótta séu þvingaðar til að „greiða“ fyrir húsaskjól, mat og vatn með líkama sínum.“
UN Women beitir sér af alefli fyrir því að aðstæður séu viðunandi fyrir konur og börn þeirra á flótta. Tryggja verði öryggi þeirra og koma þannig í veg fyrir að einstaklingar og skipulagði hópar nýti sér neyð kvenna. Hægt er að sýna stuðning með því að senda sms-ið KONUR í 1900 (1.900 kr)