Nr. 32/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 26. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 32/2022
í stjórnsýslumáli nr. KNU21100062
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 25. október 2021 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Dóminíska Lýðveldisins (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2021, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt 58. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi fyrir börn, sbr. 71. gr. laga um útlendinga, hinn 23. febrúar 2015 með gildistíma til 2016. Var leyfið endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 8. júlí 2020. Eftir að kærandi náði 18 ára aldri fékk hann útgefið dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 71. gr. laga um útlendinga. Kærandi sótti um dvalarleyfi á sama grundvelli hinn 11. mars 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 25. október 2021 og hinn 27. október barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að við vinnslu umsóknar hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókn væru ófullnægjandi. Hafi kæranda verið sent bréfi hinn 15. apríl 2021 þar sem m.a. hafi verið óskað eftir undirritun á dvalarleyfisumsókn, ásamt staðfestingu á námi eða ráðningarsamningi og umsókn um atvinnuleyfi. Lokadagur fyrirliggjandi ráðningarsamnings kæranda við [...] hafi verið 10. júní 2021. Með bréfinu hafi kæranda verið veittur 30 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að leggja fram umbeðin gögn. Hinn sama daga hafi kæranda jafnframt verið sent andmælabréf í ljósi þess að gildistíma fyrra dvalarleyfis lauk 8. júlí 2020 en umsókn um endurnýjun hafi ekki verið lögð fram fyrr en 11. mars 2021.
Frekari gögn hafi ekki borist en bréf Útlendingastofnunar hafi verið móttekin hinn 19. apríl 2021 samkvæmt upplýsingum Póstsins. Hafi kæranda verið send ítrekun með bréfi, dags. 20. maí 2021, og honum veittur 15 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að leggja fram umbeðin gögn en að öðrum kosti yrði tekin ákvörðun um umsóknina á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt upplýsingum Póstsins hafi ítrekunarbréfið verið móttekið hinn 25. maí 2021. Vísaði Útlendingastofnun til þess að miðað við þau gögn sem kærandi hefði lagt fram og þau gögn sem ekki hefðu borist stofnuninni, þrátt fyrir beiðni þar um, væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga um fullnægjandi fylgigögn með umsókn. Hefði kærandi því ekki sýnt fram á að hann uppfyllti skilyrði 71. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis og var umsókn hans því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð er vísað til þess að kærandi hafi komið hingað til lands með móður sinni árið 2014, móðir hans sé í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og kærandi sé búsettur hjá þeim. Er vísað til þess að það hafi reynst kæranda erfitt að fá nýjan ráðningarsamning þar sem ráðningarsamningur með gildistíma til 10. júní 2021 hafi þegar legið fyrir og kærandi hafi ekki vitað hvernig hann ætti að sækja um nýtt atvinnuleyfi, þar sem fyrrum atvinnurekandi, [...], hafi ávallt séð um þau mál. Hafi kærandi starfað hjá [...] á árunum 2018 til 2020. Vegna þessa hafi kærandi látið undir höfuð leggjast að skila umbeðnum gögnum þar sem honum hafi fundist umsóknarferlið verulega flókið og engar leiðbeiningar hafi verið að fá af hálfu Útlendingastofnunar. Hafi kærandi nú fengið aðstoð með öflun gagna svo unnt sé að ganga frá dvalarleyfisumsókn hans og óski hann því eftir því að Útlendingastofnun verði gert að taka umsóknina til meðferðar að nýju, þar sem leiðbeiningarskylda hafi ekki verið virt gagnvart honum, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Hann sé nú með ótímabundinn ráðningarsamning hjá [...], sbr. framlögð gögn til kærunefndar.
Kærandi óskar eftir því að málið verði endurupptekið samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga auk þess sem hin kærða ákvörðun brjóti gegn meðalhófsreglunni, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Loks hafi Útlendingastofnun ekki upplýst kæranda um að hann ætti rétt á ótímabundnu dvalarleyfi hér á landi samkvæmt d-lið 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til atriða er varðar skilyrði 58. gr. til útgáfu dvalarleyfis.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Þá skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, sbr. 1. ml. 2. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.
Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.
Við meðferð dvalarleyfisumsóknar kæranda óskaði Útlendingastofnun eftir því að kærandi legði fram tilgreind gögn, m.a. staðfestingu á námi eða ráðningarsamning. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi varð ekki við beiðnum Útlendingastofnunar þrátt fyrir ítrekuð tilmæli stofnunarinnar um að tilgreind gögn vantaði. Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að gera athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, enda liðu um sex mánuðir frá fyrsta bréfi stofnunarinnar þess efnis að fylgigögn með umsókn væru ófullnægjandi fram að ákvörðun stofnunarinnar. Verður því að líta svo á að kæranda hafi gefist nægt ráðrúm til að verða við gagnabeiðnum Útlendingastofnunar.
Við meðferð málsins hjá kærunefnd hefur kærandi lagt fram frekari gögn, m.a. undirritaðan ráðningarsamning hjá [...], dags. 10. júlí 2021. Þar kemur fram að fyrsti starfsdagur hafi verið hinn 1. júlí 2021 og ber samningurinn ekki annað með sér en að vera ótímabundinn. Með hliðsjón af því og hagsmunum kæranda þykir rétt að Útlendingastofnun taki afstöðu til hinna nýju gagna í málinu.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
Vegna varakröfu kæranda bendir kærunefnd á að mál þetta lýtur að ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2021. Samkvæmt framlögðum gögnum sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi hinn 26. október 2021 og er umsóknin til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Með vísan til þess verður ekki tekin afstaða til varakröfu kæranda.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.
Þorsteinn Gunnarsson
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares