Móttaka fyrir flóttamenn í Mosfellsbæ
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var í gær viðstaddur formlega móttöku flóttafólks frá Kenía í Mosfellsbæ. Fólkið er hluti af 25 manna hópi sem kom til landsins 12. september síðastliðinn. Hluti hópsins settist að í Garðabæ og á Seltjarnarnesi og hluti í Mosfellsbæ. Þetta er í annað sinn sem Mosfellsbær tekur á móti kvótaflóttafólki.
„Ég vona að þið séuð hægt og rólega að venjast lífinu hér í Mosfellsbæ, þó ég viti að það taki talsvert lengri tíma að aðlagast að fullu,“ sagði Ásmundur Einar við móttökuna. „Það krefst hugrekkis að flytja til lands sem sum ykkar höfðuð jafnvel ekki heyrt um. Það er því vonandi gott til þess að vita að vel hefur gengið hjá hópnum sem settist hér að í fyrra og vona ég að hið sama muni gilda um ykkur. Ég vil jafnframt nota tækifærið og þakka Mosfellsbæ og örðum sem að verkefninu koma fyrir sitt góða framlag.“
Hinn 12. október 2018 samþykkti ríkisstjórnin að tekið yrði á móti allt að 75 flóttamönnum árið 2019. Fyrri hópurinn kom til landsins í apríl en þá var tekið á móti 50 einstaklingum frá Sýrlandi og eru þeir nú búsettir á Hvammstanga, á Blönduósi og í Árborg. Ekki hefur verið tekið á móti fleiri flóttafólk frá árinu 1999 þegar tekið var á móti 75 einstaklingum frá Kosovo.