Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Kórónuveirufaraldurinn efstur á baugi á EES-ráðsfundi

Kórónuveirufaraldurinn efstur á baugi á EES-ráðsfundi - myndUtanríkisráðuneytið
Samstarf ríkja Evrópska efnahagssvæðisins á tímum kórónuveirufaraldursins var í brennidepli á fjarfundi EES-ráðsins í dag. Í almennum umræðum um alþjóðamál bar málefni Hvíta-Rússlands hæst.

EES-ráðið kemur saman til fundar tvisvar á ári en það er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan og fulltrúum framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði á fundinum áherslu á að samstarf ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu hafi haft mikla þýðingu í kórónuveirufaraldrinum. Það hafi m.a. náð til aðgangs að hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk, aðgangs að lyfjum og að bóluefni í nánustu framtíð sem og samvinnu hvað varðar för yfir landamæri. Sá grundvöllur sem EES-samningurinn skapar fyrir því samstarfi hafi reynst mjög heilladrjúgur.

Guðlaugur Þór benti einnig á að áframhaldandi náin samskipti aðila við Bretland eftir útgöngu þess úr ESB væru afar mikilvæg fyrir framtíð innri markaðar svæðisins. „Bretland er stærsta einstaka viðskiptaríki Íslands í Evrópu og næststærst á heimsvísu á eftir Bandaríkjunum. Þýðing þess að lokið verið sem fyrst við gerð fríverslunarsamninga við Bretland verður ekki ofmetin, hvorki fyrir EFTA-ríkin í EES né Evrópusambandið,“ sagði Guðlaugur Þór. 

Þá ítrekaði ráðherra að ýmsar forsendur sem lagðar voru til grundvallar við gerð nýlegs samnings milli Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur hafi breyst frá gerð samningsins. Þannig hafi Bretland nú gengið úr ESB og sá markaðsaðgangur sem samið var um við sambandið nái því ekki lengur til Bretlands. „Þá skiptir líka máli að vegna áhrifa heimsfaraldursins á komu ferðamanna til Íslands hefur dregið úr eftirspurn eftir landbúnaðarvörum hér á landi. Því þarf hugsanlega að kanna hvort ástæða sé til endurskoðunar á þeim viðskiptakjörum sem samningurinn kveður á um,“ sagði Guðlaugur Þór.

Loks áréttaði ráðherra á að í ljósi náinna tengsla Íslands og ESB væri óeðlilegt að íslenskar sjávarafurðir nytu ekki fulls tollfrelsis við innflutning til ríkja ESB, líkt og slíkar afurðir frá ýmsum þriðju ríkjum sem hafi minni tengsl við sambandið. 

Í almennum umræðum um stöðu og horfur í alþjóðamálum bar málefni Hvíta-Rússlands hæst og lögðu fundarmenn áherslu á að senda þyrfti skýr skilaboð um að ekki yrði litið framhjá brotum á mannréttindum þeirra sem mótmæltu framkvæmd forsetakosninganna í sumar. Brýnt væri að sýna samstöðu, þar á meðal um þvingunaraðgerðir sem Evrópusambandið hefur gripið til gegn háttsettum aðilum í stjórnkerfi Hvíta-Rússlands og EFTA-ríkin innan EES tekið undir. Samskiptin við stórveldin, Kína og Bandaríkin, voru einnig til umræðu.

Auk Guðlaugs Þórs tóku þátt í fundinum þau Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, og Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtenstein auk þeirra Stefano Sannino , fulltrúa utanríkisþjónustu ESB (EEAS) og Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, en Þjóðverjar fara nú með forsæti í Evrópusambandinu.

Í kjölfar fundar EES-ráðsins áttu utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna innan EES fund með þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA. 
 
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra - mynd
  • Kórónuveirufaraldurinn efstur á baugi á EES-ráðsfundi - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta