Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 49/2015

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 10. nóvember 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 49/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. maí 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 29. maí 2015 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði frá B. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 29. maí 2015 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þann 31. maí 2015 mótmælti kærandi niðurstöðunni og gerði grein fyrir sinni afstöðu. Málið var endurupptekið en með bréfi, dags. 11. júní 2015, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og var hún kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 16. júní 2015. Kærandi óskar endurskoðunar. Vinnumálastofnun telur að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 8. desember 2014. Í apríl 2015 mætti kærandi í atvinnuviðtal hjá B. Þann 17. apríl 2015 var Vinnumálastofnun framsendur tölvupóstur frá eiganda B þar sem fram kemur að kærandi geti ekki unnið í fiski vegna þess að hún verði alltaf veik og kalt. Þá segir að hún hafi engan áhuga á að vinna.

Með bréfi, dags. 5. maí 2015, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegum skýringum á höfnun kæranda á atvinnutilboði. Ekkert svar barst frá kæranda. Með bréfi, dags. 29. maí 2015, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun stofnunarinnar. Þann 31. maí 2015 barst tölvupóstur frá kæranda þar sem fram kemur meðal annars að kærandi hafi ekki hafnað starfinu heldur einungis tekið fram að hún hafi sagt upp starfi sínu hjá fyrri vinnuveitanda vegna veikinda af völdum kulda. Með bréfi, dags. 11. júní 2015, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest.

Í kæru, sem er á ensku, kemur fram að kærandi hafi farið í viðtal til B í apríl 2015. Hún hafi ekki hafnað atvinnutilboðinu. Eigandinn hafi spurt hana hvenær hún gæti byrjað og þá hafi hún greint frá því að hún hefði unnið í eitt og hálft ár hjá öðru fiskvinnslufyrirtæki en sagt upp starfinu þar vegna þess að hún hafi svo oft verið veik vegna kuldans í verksmiðjunni. Þá hafi eigandinn sagt að hann vilji ekki ráða fólk sem sé mjög oft veikt og því synjað henni um starfið. Hún hafi viljað starfa hjá B.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. september 2015, kemur fram að mál þetta varði 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi jafnt við um þann sem hafni starfi sem og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum bjóðist eða sinni ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé tekið fram að umsækjandi þurfi m.a. að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist óreiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006.

Í greinargerð sem hafi fylgt frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi.  Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Það liggi fyrir að kærandi hafi mætt í atvinnuviðtal hjá B í apríl 2015 og henni hafi verið boðið starfið hjá fyrirtækinu. Sjálf segi kærandi að atvinnurekandi hafi spurt hana hvenær hún gæti hafið störf. Hún hafi svarað á þá leið að hún hefði verið mikið frá vegna veikinda í síðasta starfi sínu hjá fiskvinnslufyrirtæki. Það hafi verið mat atvinnurekanda að kærandi hefði ekki áhuga á að starfa fyrir fyrirtækið.

Svar kæranda til atvinnurekanda hafi augljóslega ekki verið til þess fallið að henni yrði boðið starf hjá fyrirtækinu.  Eins og sérstaklega sé áréttað í athugasemdum með 57. gr. frumvarps því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar séu atvinnuviðtöl venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf.  Ljóst sé af skýringum kæranda og athugasemdum atvinnurekanda að framferði kæranda í atvinnuviðtali hjá B hafi leitt til þess að ekki hafi orðið að ráðningu. Svör kæranda til atvinnurekanda hafi ekki verið líkleg til árangurs ef ætlunin hafi verið að fá vinnu í stað þess að þiggja atvinnuleysistryggingar. Það verði að jafna augljósu áhugaleysi kæranda við höfnun á atvinnuviðtali í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Það sé mat stofnunarinnar, að teknu tilliti til skýringa kæranda, að hún hafi í umrætt sinn hafnað starfi hjá B. Vinnumálastofnun bendi á að ríkar kröfur séu gerðar til atvinnuleitanda að þeir taki þeim störfum sem þeim kunni að bjóðast, enda eigi ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Líta beri til þess að kærandi hafi ekki verið með annað starf í hendi á umræddum tíma og Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning um skerta vinnufærni eða vottorð læknis sem staðfesti slíkt. Vinnumálastofnun bendi einnig á niðurstöðu kærunefndarinnar í máli nr. 72/2014.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. september 2015, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

2. Niðurstaða

Í a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga kemur fram að með virkri atvinnuleit felist meðal annars að hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og vera reiðubúin að taka starfi hvar sem er á Íslandi.

Um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnutilboði er fjallað í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laganna hljóðar svo:

 „Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

Kærandi fór í atvinnuviðtal hjá eiganda B í apríl 2015. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda var henni boðið starf hjá fyrirtækinu. Eigandinn spurði hana hvenær hún gæti hafið störf og kærandi svaraði á þá leið að hún hefði verið mikið frá vegna veikinda í síðasta starfi sínu hjá fiskvinnslufyrirtæki vegna kulda í verksmiðjunni. Þá dró eigandinn atvinnutilboðið til baka. Í tölvupósti eigandans sem var framsendur til Vinnumálastofnunar kemur meðal annars fram að kærandi hafi engan áhuga á að vinna.

Kærandi byggir á því að hún hafi ekki hafnað starfinu hjá B. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða var svar kæranda til atvinnurekanda ekki til þess fallið að henni yrði boðið starf hjá fyrirtækinu. Þá er ljóst af skýringum kæranda og athugasemdum atvinnurekanda að framferði kæranda í atvinnuviðtalinu leiddi til þess að henni var ekki boðið starfið. Úrskurðarnefndin telur að viðbrögðum kæranda í viðtalinu megi jafna við höfnun á starfi samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá telur úrskurðarnefndin að höfnum kæranda hafi ekki verið réttlætanleg með hliðsjón af 4. mgr. 57. gr. laganna

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.


Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. júní 2015 í máli A, um að staðfesta fyrri viðurlagaákvörðun stofnunarinnar, er staðfest.

  

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta