Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 92/2014 - endurupptaka

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. nóvember 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður vegna kröfu um endurupptöku í máli A, nr. 92/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli A, þann 1. júlí 2015. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 30. október 2014, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Þá segi í bréfinu að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda hafi einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, samtals að fjárhæð 43.868 krónur. Mál kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun í kjölfar erindis frá X stéttarfélagi sem hafi borist stofnuninni þann 14. nóvember 2014. Með bréfi, dags. 4. desember 2014, hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að staðfesta fyrri ákvörðun, þar sem að sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu í máli hennar þrátt fyrir ný framkomin gögn.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. desember 2014. Í kæru bar kærandi því við að henni hafi verið sagt upp störfum 2. júlí 2014 og í framhaldinu hafi hún leitað til Vinnumálastofnunar. Síðan hafi hún fengið greitt frá fyrrum vinnuveitanda þann 1. ágúst 2014. Í ljós hafi komið að fyrrum vinnuveitandi hennar hafi greitt henni laun í uppsagnarfresti en skrifað á launaseðilinn líkt og hún hefði ennþá verið í vinnu.

Í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða komst nefndin að þeirri niðurstöðu að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. desember 2014. Í úrskurðinum kemur fram að samkvæmt bréfi X, dags. 14. nóvember 2014, hafi síðasti vinnudagur kæranda hjá B verið 11. júlí 2014. Kærandi hafi hins vegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 3. júlí 2014. Kærandi hafi því verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða töku atvinnuleysisbóta. Þá hafi þær greiðslur sem kærandi hafi hlotið frá B verið umfram frítekjumark 4. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því skert atvinnuleysisbæturnar skv. 1. mgr. 36. gr. laganna. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar bæri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur auk 15% álags.

Með bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. júlí 2015 óskaði kærandi eftir endurupptöku á máli sínu. Í beiðninni kemur fram að hún hafi hætt störfum þann 2. júlí 2014 en ekki 11. júlí 2014 líkt og fram kæmi í úrskurði nefndarinnar. Þann 13. júlí 2015 sendi kærandi úrskurðarnefndinni staðfestingu frá fyrrum vinnuveitanda sínum hjá B á því að hún hafi hætt störfum þann 2. júlí 2014 en hafi fengið greiddan uppsagnarfrest til 11. júlí 2014. Fyrrgreindur vinnuveitandi staðfesti framangreint jafnframt í símtali við starfsmann úrskurðarnefndarinnar þann 10. ágúst 2015.

Með bréfi, dags. 24. ágúst 2015, tilkynnti úrskurðarnefndin að nefndin hefði ákveðið að endurupptaka mál kæranda og veitti Vinnumálastofnun færi á að tjá sig um málið. Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. september 2015, segir að ný gögn í málinu bendi til þess að kærandi hafi ekki verið í vinnu á tímabilinu frá 3. – 11. júlí 2014. Þar sem ákvörðun um 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi byggt á því að kærandi hefði verið við vinnu á umræddu tímabili verði að telja sterk rök fyrir því að taka mál kæranda fyrir að nýju, a.m.k. hvað varði viðurlagaákvörðun skv. 60. gr. laganna.

Varðandi kröfu um endurgreiðslu á ofgreiddum bótum bendi Vinnumálastofnun á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þá teljist sá sem fái greiðslur vegna starfsloka ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eigi við um. Atvinnuleysisbætur séu því ekki greiddar fyrir sama tímabil og greiðslur vegna starfsloka séu ætlaðar fyrir. Það eigi við um tilvik þegar starfsmaður fái greidd laun í uppsagnarfresti án þess að gerð sé krafa um vinnuframlag. Kærandi eigi því ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir tímabilið 2. júlí til 11. júlí 2014 hvort sem kærandi hafi verið við störf á þeim tíma eða fengið greiddan uppsagnarfrest sinn fyrir tímabilið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. september 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. desember 2014 þar sem ákvörðun stofnunarinnar frá 30. október 2014 um viðurlög samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og endurgreiðslu ofgreiddra bóta skv. 2. mgr. 39. gr. laganna var staðfest. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar byggði meðal annars á því að samkvæmt bréfi frá X, dags. 14. nóvember 2014, hafi síðasti vinnudagur kæranda hjá B verið 11. júlí 2014. Kærandi hafi hins vegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 3. júlí 2014. Því taldi nefndin að kærandi hefði verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða töku atvinnuleysisbóta. Kærandi hefur nú lagt fram ný gögn, þ.e. staðfestingu frá fyrrum vinnuveitenda hennar hjá B þar sem fram kemur að hún hafi hætt störfum 2. júlí 2014 en fengið greiddan uppsagnarfrest til 11. júlí 2014. Á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Með vísan til þess hefur úrskurðarnefnd almannatrygginga fallist á endurupptökubeiðni kæranda.

Mál þetta lýtur meðal annars að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þá segir í 35. gr. a:

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.

Vinnumálastofnun ber að beita atvinnuleitanda viðurlögum samkvæmt 2. málsl. 60. gr. laganna hafi hann starfað á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hann hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um það. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur enga ástæðu til að vefengja það sem fram kemur í staðfestingu frá fyrrum vinnuveitanda kæranda hjá B þ.e. að kærandi hafi hætt störfum þann 2. júlí 2014. Þar sem kærandi hóf ekki töku atvinnuleysisbóta fyrr en 3. júlí 2014 er það því mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að ekki sé heimilt að beita kæranda viðurlögum samkvæmt 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sá sem fær greiðslur vegna starfsloka ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Samkvæmt fyrrgreindri staðfestingu frá fyrrum vinnuveitanda kæranda fékk kærandi greiddan uppsagnarfrest til 11. júlí 2014. Kærandi á því ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir tímabilið frá 3. júlí til 11. júlí 2014.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Hin kærða endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar byggði á 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þ.e. að þær greiðslur sem kærandi hlaut frá B hafi verið umfram frítekjumark 4. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hliðsjón af fyrrgreindum upplýsingum frá fyrrum vinnuveitanda kæranda er það hins vegar mat úrskurðarnefndarinnar að endurgreiðslukrafan skuli byggja 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna. Nefndin telur því að kæranda beri að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún fékk greiddar á tímabilinu frá 3. júlí til 11. júlí 2014 þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu bóta á framangreindu tímabili, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna. Einnig skal kærandi greiða 15% álag á skuldina í ljósi þess að hún tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um framangreinda greiðslu frá B.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Kæranda ber að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún fékk greiddar vegna tímabilisins frá 3. júlí til 11. júlí 2014 að viðbættu 15% álagi.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. desember 2014 í máli A, þess efnis að staðfesta fyrri viðurlagaákvörðun í máli kæranda, er felld úr gildi.  Kæranda ber að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún fékk greiddar vegna tímabilisins frá 3. júlí til 11. júlí 2014 að viðbættu 15% álagi.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta