Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2015 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 9/2015

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Kópavogsbæ

 

Kærandi, sem er kona, taldi að Kópavogsbær hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu karlmanns í starf forstöðumanns Náttúrufræðistofu bæjarins. Kærunefndin taldi að þrátt fyrir meiri menntun kæranda en þess sem starfið hlaut hafi hann verið hæfari til þess að gegna umræddu starfi þar sem hann uppfyllti betur þær hæfniskröfur sem gert var ráð fyrir að forstöðumaður þyrfti að uppfylla, meðal annars um reynslu af stjórnun og rekstri auk reynslu af starfsemi safna og safnafræðslu. Nefndin taldi þannig að mat kærða hefði byggt á málefnalegum forsendum og því hefði ekki verið brotið gegn lögum nr. 10/2008.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 19. nóvember 2015 er tekið fyrir mál nr. 9/2015 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 7. júlí 2015, kærði B hdl., f.h. A, ákvörðun Kópavogsbæjar um að ráða karlmann í starf forstöðumanns Náttúrufræðistofu bæjarins.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Kópavogsbæ með bréfi, dagsettu 10. júlí 2015. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dagsettu 22. júlí 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 14. ágúst 2015. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dagsettu 25. ágúst 2015, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 27. ágúst 2015.

  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti laust starf forstöðumanns Náttúrufræðistofu bæjarins í byrjun mars 2015. Í auglýsingu kom fram að helstu verkefni forstöðumanns væru umsjón með rekstri og stjórnun Náttúrufræðistofu, starfsmannamál, kynning á náttúru Íslands með sýningum, fræðslu og viðburðum, ábyrgð á rannsóknum og birtingu rannsóknarniðurstaðna ásamt samskiptum og samstarfi við Listhús Kópavogsbæjar og menningarstofnanir bæjarins. Í auglýsingunni voru jafnframt tilgreindar menntunar- og hæfniskröfur: Háskólapróf í náttúrufræðum, þekking og reynsla á sviði umhverfis- og náttúrufræða, reynsla af stjórnun og rekstri og þekking og reynsla af starfsemi safna og safnafræðslu. Viðkomandi þyrfti að hafa leiðtogahæfileika, jákvætt viðmót og vera lipur í mannlegum samskiptum, hafa frumkvæði, hugmyndaauðgi og metnað til að ná árangri í starfi ásamt færni til að setja fram mál í ræðu og riti á íslensku og ensku.  

  6. Alls bárust 14 umsóknir en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Þrír umsækjendur voru boðaðir í viðtal en kærandi var ekki þar á meðal. Tekin var ákvörðun um að ráða karlmann í starfið og var kærandi upplýst um það með tölvupósti 24. apríl 2015. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni sama dag og barst rökstuðningur kærða 7. maí 2015.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  7. Kærandi byggir á því að ákvörðun um ráðninguna hafi falið í sér brot á ákvæði 24. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og að jafnréttisstefna Kópavogsbæjar hafi ekki verið höfð að leiðarljósi. Kærandi telur ljóst að hún standi þeim er stöðuna hlaut framar, að nær öllu leyti í ljósi meginhlutverka Náttúrufræðistofunnar samkvæmt stofnskrá sem og yfirlýstra markmiða og áforma stofunnar. Kærandi bendir á að í rökstuðningi fyrir ákvörðun um ráðninguna virðist alfarið sneitt framhjá nær öllu sem Náttúrufræðistofa standi fyrir og framtíðarmarkmiðum hennar. Kærandi hafi verið eini umsækjandinn með doktorsgráðu eða framhaldsnám í vatnalíffræði en sérhæfing Náttúrufræðistofunnar sé á sviði vatnalíffræði, samkvæmt meðal annars starfsstefnu stofunnar frá mars 2013.

  8. Kærandi tekur fram að í stofnskrá Náttúrufræðistofu Kópavogs komi fram að hún áformi að hafa tekjur af styrkjum og opinberum aðilum. Til að bera ábyrgð á slíkum styrkjum og hljóta þá standi kærandi miklu framar þeim er hlaut starfið, en til þess að standa að rannsóknum sé áskilið að sá sem er í forsvari sé með doktorsnám. Aðrir geti starfað að rannsóknum sem meðrannsakendur en það sé ævinlega doktorsnemi eða aðili með Phd gráðu sem þurfi að standa fyrir viðkomandi rannsókn. Ekki leiki vafi á því að kærandi standi þeim er starfið hlaut mun framar hvað varðar hæfni til að stunda vísindalegar rannsóknir og freista þess að sækja um fjárstyrki sökum vísindastarfa sinna í tengslum við doktorsnámið og síðari störf og enn frekar á sviði vatnavistfræði. Einungis þeir sem séu í doktorsnámi eða búnir með doktorsnám geti sótt um styrk í rannsóknarsjóð Rannís og sama gildi um sjóði á vegum Evrópusambandsins. Aðeins slíkir vísindamenn geti verið ábyrgir fyrir rannsóknum, sótt um rannsóknarfé og tekið þátt í að leiðbeina MS og Phd nemum ef viðkomandi stofnun er í samstarfi við háskóla. Ljóst sé að sá sem starfið hlaut geti ekki vænst þess að fá styrki frá Rannís eða annars staðar þar sem hann skorti doktorspróf. Þegar ákvörðun um ráðningu hafi verið tekin hafi stofnunin því ekki verið fær um að sækja um styrki til að vinna verkefni og rannsóknir, enda enginn þar innanborðs með viðeigandi menntun til að standa fyrir þeim. Þrátt fyrir að úr verði bætt síðar liggi fyrir að sá er starfið hlaut uppfylli ekki hæfisskilyrði til að standa fyrir rannsóknum eða vera í forsvari fyrir styrkumsóknum á vegum stofnunar sem hann veiti forstöðu. Þau skilyrði hafi kærandi uppfyllt.

  9. Kærandi bendir á að hún sé vanur kennari, sbr. c- og d-liði 4. gr. stofnskrár stofunnar. Á heimasíðu Náttúrufræðistofunnar komi einnig fram að lögð sé áhersla á tengsl við skóla og hugmyndir sem gætu hjálpað kennurum að nýta safnið. Þetta eigi kærandi auðvelt með, en hún hafi samhliða doktorsnáminu kennt verklegar greinar vatnalíffræði og vistfræði auk þess að hafa kennt við menntaskóla í C. Þá hafi hún aðstoðað opinberar stofnanir hérlendis við ýmsar mælingar. Einnig standi kærandi vel að vígi við að veita aðstoð og ráðgjöf á verksviði stofunnar og leiða slík verkefni. Það hljóti að vera óumdeilt að mat á umhverfisáhrifum, skynsamleg landnýting og náttúruvernd í tengslum við skipulags- og umhverfismál sé meðal mikilvægustu verkefna sveitarfélaganna.

  10. Kærandi tekur fram að í starfsstefnu Náttúrufræðistofunnar frá mars 2013 komi fram að sérhæfing stofunnar sé á sviði vatnalíffræði. Stofan hyggist bæta innlendar systurstofnanir sínar upp með sérhæfingu í vatnalíffræði þar sem sviðinu sé lítið sinnt af innlendum systurstofnunum. Rannsóknarstarfsemi Náttúrufræðistofunnar skarist lítið við hliðstæðar stofnanir og því áformi stofan, sökum sérhæfingar sinnar, að vera leiðandi á sviði vatnalíffræði hérlendis. Með því að stunda og leiða rannsóknir og fá aðra til liðs við stofuna sé kærandi, vegna prófgráðu sinnar, þekkingar og reynslu, mun betur til þess fallin að leiða til lykta skammtímamarkmið stofunnar sem fram koma í starfsstefnu hennar. Ekki verði séð hvernig stofnunin geti að öllu leyti verið fær um að ná markmiðum sínum og hvað þá að sérhæfa sig í vatnalíffræði á þann hátt sem gert sé ráð fyrir, án starfsfólks með doktorsgráðu í faginu. Kærandi telur einsýnt að til þess að sinna meginmarkmiðum sínum, til dæmis samkvæmt stofnskrá og til þess að uppfylla markmið sín til skemmri og lengri tíma, hefði stofunni verið og væri enn nauðsynlegt að fá til liðs við sig starfskraft á borð við kæranda. Að mati kæranda falli menntun hennar og reynsla gersamlega að hlutverki og markmiði stofnunarinnar.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  11. Í greinargerð kærða kemur fram að við mat á umsóknum hafi verið byggt á þeim hæfniskröfum sem tilgreindar væru í auglýsingu um starfið. Í samræmi við starfslýsingu og áætluð verkefni Náttúrufræðistofu Kópavogs hafi viðmiðum jafnframt verið gefið vægi. Þekking og reynsla á sviði umhverfis- og náttúrufræða og þekking og reynsla af starfsemi safna og safnafræðslu hafi vegið mest. Eftir það hafi komið menntun og reynsla af stjórnun og rekstri, þá færni til að tjá sig á íslensku og að lokum færni til að tjá sig á ensku. Þrír umsækjendur höfðu, auk háskólamenntunar í náttúrufræðum, þekkingu og reynslu á öllum fyrrgreindum sviðum og því hafi þeir allir verið teknir í viðtal hjá ráðgjafa Capacent og forstöðumanni Listhúss. Kærandi hafi ekki verið þar á meðal. Í viðtalinu hafi verið leitast við að meta betur alla hæfnisþætti auglýsingarinnar og því hafi verið útbúinn samræmdur spurningalisti, en spurningarnar hefðu tekið mið af þeim forsendum sem fram kæmu í auglýsingu um starfið. Að teknu tilliti til greiningar á starfinu, menntunar, reynslu og frammistöðu í viðtali hafi niðurstaðan verið sú að sá sem ráðinn var í starfið hafi verið hæfastur til að gegna starfi forstöðumanns og því hafi honum verið boðið starfið.

  12. Kærði fellst ekki á að ákvörðun um ráðninguna hafi falið í sér brot á 1. mgr. 18. gr., sbr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og að jafnréttisstefna Kópavogsbæjar hafi  ekki verið höfð að leiðarljósi við ráðninguna. Í nýrri jafnréttis- og mannréttindastefnu kærða komi fram að þess skuli gætt við ráðningar að ómálefnalegum ástæðum, svo sem á grundvelli kyns, sé ekki beitt sem rökum gegn starfsmanni. Jafnréttissjónarmið skuli metin til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið sé í stöður hjá kærða. Það kynið sem sé í minnihluta í viðkomandi starfsgrein skuli að jafnaði ganga fyrir við ráðningar í störf þegar umsækjendur eru jafnhæfir. Þá segir að við ráðningar sé óheimilt að mismuna kynjum á grundvelli fjölskyldustöðu eða annarra þátta, sbr. 26. gr. jafnréttislaga.

  13. Kærði tekur fram að sá sem starfið hlaut uppfylli skilyrði auglýsingarinnar um háskólapróf í náttúrufræðum en hann sé með B.Sc. próf í líffræði frá D og B.Sc.hon. í líffræði frá sama skóla. Hann hafi starfað við Náttúrufræðistofu Kópavogs frá árinu X og hafi á þeim tíma tekið þátt í skipulagningu og framkvæmd rannsóknarverkefna sem Náttúrufræðistofan hafi tekið að sér. Hann þekki þar með vel þau verkefni á sviði umhverfis- og náttúrufræða sem stofan hafi sérhæft sig í, bæði þann hluta sem snúi að rannsóknum og þann hluta sem snúi að miðlun. Hann hafi í starfi sínu hjá Náttúrufræðistofu haft yfirumsjón með móttöku og leiðsögn hópa um náttúrugripasafn stofunnar og þekki þar með safnið vel og mikilvægi safnafræðslu. Í kynningarbréfi hans hafi jafnframt komið fram hugmyndir að því hvernig efla mætti safnið enn frekar og auka sýnileika þess út á við og inn á við. Sá sem starfið hlaut hafi því töluverða þekkingu og reynslu á sviði umhverfis- og náttúrufræða sem og verulega þekkingu og reynslu af starfsemi safna og safnafræðslu, þar á meðal langa reynslu af starfsemi og fræðslu á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs. Í kynningarbréfi og viðtali hafi einnig komið fram skýr skilningur á mikilvægi þess að stofan starfaði í nánu og góðu samstarfi við önnur menningarhús kærða, svo sem með viðburðum og/eða sýningarhaldi.

  14. Kærði greinir frá því að síðasta eina og hálfa árið hafi sá sem starfið hlaut verið settur forstöðumaður Náttúrufræðistofunnar og hafi á þeim tíma öðlast reynslu af stjórnun, starfsmannahaldi og rekstri. Hann hafi einnig reynslu af fjáröflun, ráðstöfun á fjármagni, gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlana og skýrslugerð. Sá sem starfið hlaut uppfylli þannig kröfur auglýsingarinnar um reynslu af stjórnun og rekstri. Af umsóknargögnum að dæma hafi hann gott vald á ritaðri íslensku en hann hafi jafnframt haldið kynningar á ensku og tekið þátt í alþjóðasamstarfi í faginu og skilji því og tali ensku mjög vel. Sá sem starfið hlaut hafi komið vel út í viðtali, hafi verið jákvæður og þægilegur í samskiptum. Það hafi því verið niðurstaða kærða að ráða hann í starfið, enda hafi hann þótt hæfastur umsækjenda.

  15. Kærði bendir á að til þess að hin óskráða forgangsregla jafnréttislaga komi til skoðunar þurfi að liggja fyrir að tveir umsækjendur, karl og kona, séu jafnhæfir með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem veitingarvaldshafi hafi ákveðið að byggja ákvörðun sína á. Það hafi verið mat kærða að einungis þrír umsækjendur hafi fullnægt skilyrðum auglýsingar um háskólamenntun í náttúrufræðum ásamt skilyrðum um þekkingu og reynslu á sviði umhverfis- og náttúrufræða, stjórnunar og reksturs og starfsemi safna og safnafræðslu. Kærandi hafi ekki verið þar á meðal, enda hafi hún ekki reynslu af stjórnun og rekstri og litla sem enga reynslu af starfsemi safna og safnafræðslu. Eftir nánari rannsókn málsins hafi það verið mat kærða að sá er ráðinn var væri hæfastur umsækjenda. Þar sem kærandi hafi ekki verið talin uppfylla skilyrði auglýsingar liggi ljóst fyrir að hún hafi ekki verið talin jafnhæf þeim er starfið hlaut og því hafi ekki komið til skoðunar að beita forgangsreglu jafnréttislaga. Að mati kærða hafi ekki verið sýnt fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, vegna ráðningarinnar enda hafi legið ljóst fyrir að hún uppfyllti ekki grunnskilyrði fyrir ráðningu, sbr. auglýsingu um starfið. Þá hafnar kærði því að ráðningin hafi brotið gegn jafnréttis- og mannréttindastefnu bæjarins.

  16. Kærði tekur fram að í stofnskrá Náttúrufræðistofunnar sé auk rannsóknarstarfa fjallað um mikilvægi skólafræðslu, safnafræðslu og sýningarhalds og sú áhersla sé ítrekuð í söfnunar- og sýningarstefnu safnsins, sem og í nýsamþykktri menningarstefnu bæjarins, sem jafnframt fari fram á að stofan efli sérstöðu sína með vísan til safnsins, sýninga og safnafræðslu. Menningarstefna bæjarins lýsi framtíðarsýn og um leið forgangsröðun í starfi menningarhúsa bæjarins. Þetta hafi verið haft að leiðarljósi í starfslýsingu, auglýsingu og þar með í ráðningarferlinu.   

  17. Kærði bendir á að rökstuðningur kærða hafi tekið mið af þeim kröfum sem settar hafi verið fram í starfslýsingu og í auglýsingu. Til grundvallar starfslýsingu og auglýsingu hafi meðal annars legið sú staðreynd að Náttúrufræðistofan starfi samkvæmt nýsamþykktri menningarstefnu kærða en stefnan lýsi framtíðarsýn og þar með meginmarkmiðum menningarhúsa kærða og menningarmála almennt. Með samþykkt stefnunnar sé meðal annars lögð skýr áhersla á fræðslu og miðlun, nútímavæðingu, viðburði, sýningar og náið samstarf menningarhúsa þvert á ólíkar listgreinar og fræði. Þetta sé því sú framtíðarsýn og forgangsröðun sem Náttúrufræðistofunni beri að fara eftir. Í aðdraganda ráðningarferilsins hafi þessi markmið menningarstefnunnar verið höfð að leiðarljósi sem birtist meðal annars í starfslýsingu og í auglýsingu og við mat á vægi hæfnisþátta. Hvorki í stofnskrá, starfslýsingu né í auglýsingu sé farið fram á að forstöðumaður stofunnar sé með doktorsgráðu, heldur sé talað um háskólapróf í náttúrufræðum. Kærði tekur fram að í starfsstefnu stofunnar komi fram að þrjú helstu skammtímamarkmið hennar snúist með einum eða öðrum hætti um aukna safnafræðslu, meðal annars til skólabarna í Kópavogi, og sé nú unnið að eflingu safnsins, miðlun og fræðslu í samræmi við menningarstefnu bæjarins, meðal annars með nýlegum styrk frá Safnaráði. Það fjórða snúist um að treysta betur rekstur með því að auka vægi langtíma vöktunarverkefna sem vel hafi gengið að treysta og fjölga undir stjórn þess er ráðinn var. Fimmta skammtímamarkmiðið snúist um að fá ríkið til að styðja við reksturinn sem sé verkefni sem unnið er að undir forystu forstöðumanns Listhúss kærða og forstöðumanns Náttúrufræðistofunnar í samráði við formann lista- og menningarráðs. Forstöðumaður stofunnar þurfi því að sinna margs konar verkefnum, meðal annars í stjórnun, rekstri, starfsmannahaldi, sýningum, viðburðum og fræðslu, rannsóknum og birtingu niðurstaðna og síðast en ekki síst með samskiptum og samstarfi við önnur menningarhús bæjarins. Ekki hafi verið óskað eftir doktorsprófi í auglýsingunni, heldur háskólaprófi í náttúrufræðum og jafnframt reynslu og/eða þekkingu á framangreindum þáttum.

  18. Kærði ítrekar að í auglýsingu um starfið hafi verið settar fram nánar tilteknar hæfniskröfur. Með auglýsingunni hafi þannig verið lagður grundvöllur að og markaður farvegur fyrir ráðningarferlið. Þær hæfniskröfur sem fram komi í auglýsingu hafi því mótað það sem á eftir hafi komið. Ráðningarferlið hafi þannig tekið mið af því sem fram hafi komið í auglýsingu, enda sé almennt ekki heimilt að víkja frá þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru til rækslu starfsins eða leggja annan grundvöll að mati á hæfni umsækjenda en fram komi í auglýsingu. Kærði bendir á að mat á því hvernig einstaklingur væri best til þess fallinn að sinna meginhlutverkum stofunnar hafi farið fram þegar auglýsing fyrir starfið hafi verið útbúin. Við auglýsingu starfsins hafi kærði lagt til grundvallar að ráðinn yrði einstaklingur sem hefði meðal annars reynslu af stjórnun og rekstri sem og þekkingu og reynslu af starfsemi safna og safnafræðslu. Það hafi því verið mat kærða að reynsla og þekking væntanlegs forstöðumanns á þeim sviðum, ásamt öðrum menntunar- og hæfniskröfum, myndi þjóna best hagsmunum og þörfum stofunnar og kærða. Kærði telur að ekki sé hægt að horfa fram hjá því að kærandi uppfylli ekki grunnskilyrði auglýsingar um reynslu og þekkingu af stjórnun, rekstri og starfsemi safna og safnafræðslu. Í ljósi þess grundvallar, sem kærði hafi lagt að ráðningunni, verði að líta svo á að umsækjendur hefðu þurft að fullnægja öllum menntunar- og hæfniskröfum til þess að koma til greina við ráðningu. Þar sem kærandi hafi ekki gert það verði ekki fallist á sjónarmið hennar um að hún hafi staðið þeim er starfið hlaut framar hvað það varðar.

  19. Kærði tekur fram að kærandi hafi menntun á hærra stigi en sá er starfið hlaut, enda hafi hún fengið fleiri stig fyrir þann þátt við grunnmat á umsækjendum. Kærði hafi þannig tekið tillit til mismunandi prófgráða umsækjendanna tveggja. Í auglýsingu hafi hins vegar ekki verið gerð krafa um doktorspróf, en hefði slíkt próf verið talið nauðsynlegt til rækslu starfans hefði það verið tekið fram í auglýsingu. Það hafi verið mat kærða að aðrir þættir sem tilgreindir væru í auglýsingu, svo sem reynsla af stjórnun og rekstri og þekking og reynsla af starfsemi safna og safnafræðslu, hafi haft meira vægi.

  20. Kærði bendir á að í nýsamþykktri menningarstefnu bæjarins sé rík og aukin áhersla lögð á miðlun lista og vísinda og fræðslu til barna og ungmenna, upplifanir og nútímavæðingu safna og sýninga. Ljóst sé samkvæmt menningarstefnunni og þeirri áherslu sem lögð hafi verið á þekkingu á safnamálum í ráðningarferlinu að Náttúrufræðistofunni sé í náinni framtíð ætlað stærra hlutverk á því sviði og þar með sé fyrirséð að safna- og sýningarhlutverk stofunnar muni eflast og það mögulega á kostnað rannsóknarhlutans. Það megi einnig heimfæra þessa nýju áherslu upp á mikilvægi þess að viðkomandi forstöðumaður hafi stjórnunarreynslu því að breytingar í áherslum og á vægi starfsemi stofnunar kalli á mikilvægi þess að slík reynsla sé til staðar.

  21. Kærði tekur fram að sambærilegar stöður og forstöðumaður Náttúrufræðistofunnar séu forstöðumenn menningarhúsa hjá bænum sem heyri undir Listhús kærða en þau séu samtals sex. Undir stjórn forstöðumanns Listhúss hafi markvisst verið unnið að því undanfarið ár að jafna kynjahlutföll hópsins og nú séu af sex forstöðumönnum menningarhúsa þrír karlar og þrjár konur. Næsti yfirmaður þeirra, forstöðumaður Listhúss kærða, sé kona. Fyrir ári síðan hafi hlutfallið í þessum sex manna forstöðumannahópi verið fimm karlar og ein kona. Kærði telur að með framangreindu hafi verið sýnt fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðninguna og því liggi ljóst fyrir að hin kærða ráðning brjóti ekki í bága við lög nr. 10/2008.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  22. Kærandi tekur fram að af greinargerð kærða megi ráða að tilgangur með stofnuninni skipti litlu máli við ráðningu forstöðumanns heldur það sem standi í auglýsingunni og að sá sem ráðinn var uppfylli skilyrðin betur en kærandi þegar auglýsingin er skoðuð ein og sér. Þá megi ráða að kærandi hafi ekki komið til álita þar sem hún hafi ekki reynslu af safnastjórnun og safnafræðslu en það hafi verið ófrávíkjanlegt skilyrði. Það leyndarmál hafi þó fyrst verið upplýst eftir að kærandi hafi kært til kærunefndar jafnréttismála. Ekki hafi verið skýrt út hvað felist í þekkingu á safnastjórnun og safnafræðslu og hvernig kærandi eigi ekki að vera fær um að kynna gripi safnsins og safnið sem slíkt fyrir skólabörnum en hún hafi talsverða reynslu af kennslustörfum líkt og áður hafi komið fram. Kærandi gerir athugasemdir við grunnmatið á umsækjendum og telur að það sýni harðan og einbeittan brotavilja á jafnréttislögum. Kærði hafi ekki getað skýrt það með neinum hætti að annað en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun við umrædda ráðningu.

  23. Kærandi bendir á að þrátt fyrir þann óumdeilda og augljósa mun sem er á menntunarstigi kæranda og þess er ráðinn var hafi hann fengið 3,5 í einkunn en hún 4. Þá hafi sá sem starfið hlaut fengið hæstu einkunn eða 4 í þekkingu og reynslu á sviði umhverfis- og náttúrufræða eða sömu einkunn og kærandi þrátt fyrir mun á menntun og reynslu þeirra. Kærandi hafi ekki fengið nein stig fyrir reynslu af stjórnun og rekstri, án þess að ljóst sé á hvaða grunni það er byggt. Kærandi hafi meðal annars stýrt verkþáttum í dokstorsnámi sínu, hafi starfað sem vaktstjóri á vöktum á sjúkrahúsi með mannaforráð, starfað sem kennari og borið ábyrgð á yfir 200 nemendum og unnið við löggæslu. Kærandi gerir athugasemd við vægi þekkingar af starfsemi safna og safnafræðslu og að hún hafi fengið færri stig en sá sem ráðinn var fyrir færni til að setja fram mál á íslensku í ræðu og riti. Kærandi hafi, auk þess að sitja lengur á skólabekk, skrifað ritrýndar greinar og starfi sjálf sem ritrýnir slíkra fræðigreina. Þá gerir kærandi athugasemd við það að hún og sá er starfið hlaut hafi fengið sömu einkunn fyrir hæfni í að tala og skrifa ensku. Kærandi dregur í efa að sá er starfið hlaut hafi í reynd borið hærri einkunn en hún samkvæmt framangreindum matsþáttum.

  24. Kærandi tekur fram að þar sem hún hafi ekki verið boðuð í viðtal hafi hún ekki fengið tækifæri til að láta ljós sitt skína eða fá þar neina punkta/einkunn. Hún hafi því verið útilokuð frá því að keppa við þann er starfið hlaut hvað þann matsþátt varðar. Þá bendir kærandi á að samkvæmt gögnum málsins hafi hvorki verið minnst á rannsóknir í viðtalinu né framtíðarsýn þeirra. Einungis sé fjallað um safnið sem slíkt og mikilvægi þess að efla samstarf við önnur safnahús bæjarins og áform þar um.  

    NIÐURSTAÐA

  25. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

  26. Kærði auglýsti laust starf forstöðumanns Náttúrufræðistofu Kópavogsbæjar í byrjun mars 2015. Í þeirri auglýsingu kom fram að helstu verkefni forstöðumanns væru umsjón með rekstri og stjórnun Náttúrufræðistofu, starfsmannamál, kynning á náttúru Íslands með sýningum, fræðslu og viðburðum, ábyrgð á rannsóknum og birtingu rannsóknarniðurstaðna ásamt samskiptum og samstarfi við Listhús Kópavogsbæjar og menningarstofnanir bæjarins. Í auglýsingunni voru jafnframt tilgreindar menntunar- og hæfniskröfur: Háskólapróf í náttúrufræðum, þekking og reynsla á sviði umhverfis- og náttúrufræða, reynsla af stjórnun og rekstri og þekking og reynsla af starfsemi safna og safnafræðslu. Viðkomandi þyrfti að hafa leiðtogahæfileika, jákvætt viðmót og vera lipur í mannlegum samskiptum, hafa frumkvæði, hugmyndaauðgi og metnað til að ná árangri í starfi ásamt færni til að setja fram mál í ræðu og riti á íslensku og ensku.

  27. Þrír umsækjendur höfðu, auk háskólamenntunar í náttúrufræðum, þekkingu og reynslu á öllum þeim sviðum sem skilgreind voru í auglýsingu, sviðum umhverfis- og náttúrufræða, stjórnunar og reksturs og starfsemi safna og safnafræðslu. Þeir voru teknir í viðtöl hjá ráðgjafa kærða, Capacent og forstöðumanni Listhúss, aðrir ekki, þar með talin kærandi. Ástæða þess var að sögn kærða sú að kærandi hafi ekki verið jafnhæf þar sem hún hafði ekki reynslu af stjórnun og rekstri og litla sem enga reynslu af starfsemi safna og safnafræðslu. Hún hafi þannig ekki komið til álita andspænis þeim umsækjendum sem bjuggu að þeirri reynslu og þekkingu sem eftir var sóst.

  28. Séu bornir saman þeir þættir, sem lágu til grundvallar af hálfu kærða og hann byggði niðurstöðu sína á, liggur fyrir að kærandi hefur meiri menntun en sá er ráðinn var. Hún hefur lokið doktorsnámi í líffræði frá D en sá er ráðinn var hefur lokið B.Sc. prófi og B.Sc.hon. gráðu, hvoru tveggja í líffræði frá D. Stendur því sá sem starfið hlaut kæranda að baki er menntun varðar.

  29. Sá sem starfið hlaut bjó að starfsreynslu sem féll vel að hinu auglýsta starfi, bjó að reynslu af stjórnun og rekstri enda verið staðgengill forstöðumanns auk þess sem hann bjó að löngum starfsaldri á Náttúrufræðistofu kærða og þekkti því vel til starfsemi safnsins og safnafræðslu. Kærandi hafði á hinn bóginn helst helgað sig fræðistörfum síðasta áratuginn eftir að hafa starfað sem heilbrigðisstarfsmaður þar á undan og meðfram námi í D. Ef horft er almennt til starfsferils stendur sá sem starfið hlaut kæranda framar, bæði hvað varðar rekstrarreynslu og stjórnun tengdri rekstri en einnig hvað varðar þann þátt er laut að safnareynslu og kynningum á starfsemi safnsins. Leiða má að því líkum að sökum doktorsnáms síns hafi kærandi verið í ákjósanlegri stöðu til að stuðla að rannsóknum á vettvangi Náttúrufræðistofunnar. Þegar hins vegar horft er til þess hve margþætt starf forstöðumanns er, eins og gerð er grein fyrir í stofnskrá Náttúrufræðistofu Kópavogs, sem á sér jafnframt skírskotun í starfsstefnu Náttúrufræðistofunnar, telst sú áhersla ekki ómálefnanleg sem kærði lagði á fjölþætta reynslu umsækjenda.

  30. Að öllu ofangreindu virtu er það mat kærunefndar að þegar ólíkir hæfileikar kæranda og þess sem starfið hlaut eru vegnir saman að hæfni hans falli betur að þeim hæfniskröfum sem kærði auglýsti eftir á sviðum umhverfis- og náttúrufræða, stjórnunar og reksturs og starfsemi safna og safnafræða. Það er því mat kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar ráðinn var forstöðumaður Náttúrufræðistofu kærða. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði Kópavogsbær braut ekki gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar ráðinn var forstöðumaður Náttúrufræðistofu kærða í apríl 2015.

 

Björn L. Bergsson

Grímur Sigurðsson

Guðrún Björg Birgisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta