Hoppa yfir valmynd
30. desember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 80/2015 Úrskurður 17. desember 2015

Mál nr. 80/2015                     Eiginnafn: Skaði

 

 

Hinn 17. desember 2015 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 80/2015 en erindið barst nefndinni 16. nóvember:

 

Orðið Skaði kemur fyrir í fornu máli sem heiti á gyðju af jötnaættum, m.a. í eddukvæðum. Algengt er að norræn gyðjunöfn séu notuð sem kvenmannseiginnöfn í nútímamáli, t.d. Frigg, Sif, Freyja o.s.frv.

 

Í aukaföllum er þetta nafn Skaða og beygist því eins og veikt karlkynsorð, t.d. hani. Í Íslenskri orðsifjabók (1989:824) stendur um beygingu nafnsins: „[...] þá er og beyging orðsins (kk. n-stofn) sem nafn á gyðju eða kvenveru allfurðuleg.“ Þetta er eina kvenmannsnafnið, sem við vitum um, sem fylgir veikri karlkynsbeygingu. Örfá karlmannsnöfn (t.d. Sturla) beygjast hins vegar eins og veik kvenmannsnöfn og það eru því fordæmi fyrir því í nafnaforðanum að nöfn fylgi öðru málfræðilegu kyni í beygingu en líffræðilegu. Einnig eru ýmis dæmi um að merking samnafns vísi til annars líffræðilegs kyns en málfræðilegs, t.d. svanni ‚kona‘. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er uppruni nafnsins óviss með öllu en m.a. hefur verið bent á tengsl við gotn. skadus ‘skuggi‘.

Eiginnafnið Skaði (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Skaða, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Skaði (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta