Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Kraftur í uppbyggingu hjúkrunarrýma

Vinna við uppbyggingu hjúkrunarrýma samkvæmt framkvæmdaáætlun félags- og tryggingamálaráðuneytisins er hafin af kappi. Á þessu ári verður unnið að framkvæmdum og undirbúningi vegna uppbyggingar 388 rýma.

Nýlega kynnti ráðuneytið framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu til ársins 2012. Gert er ráð fyrir að koma á fót 780 hjúkrunarrýmum. 400 þeirra eru til þess að mæta uppsöfnuðum vanda og þörf fyrir fjölgun en 380 rými verða nýtt til að breyta fjölbýlum í einbýli.

Verið er að skipa starfshópa með fulltrúum ráðuneytisins, Framkvæmdasýslu ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga um einstakar framkvæmdir og hafa fyrstu fundir verið haldnir þar sem tilnefningar í starfshópa liggja fyrir.

Í dag var tekið tilboði Mark-Húsa ehf. í byggingu 44 rýma hjúkrunarheimilis við Boðaþing í Kópavogi. Mark-Hús áttu lægsta tilboðið, 634 milljónir króna. Áætlað er að hjúkrunarheimilið verði tekið í notkun í desember á næsta ári.

Framkvæmdir standa yfir við byggingu 110 rýma hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut í Reykjavík og lýkur verkinu í febrúar 2010.

Í Ólafsvík er langt komin hönnunarvinna vegna viðbyggingar og endurbóta á hjúkrunarheimilinu Jaðri og verður verkið boðið út í nóvember. Öllum fjölbýlum verður eytt og bætt við tveimur nýjum hjúkrunarrýmum.Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum fyrri hluta ársins 2010.

Í samræmi við áætlun ráðuneytisins verða á næstu mánuðum gerðar frumathuganir og sinnt öðrum undirbúningi vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Borgarbyggð, Seltjarnarnesi og Garðabæ, en þetta eru þau sveitarfélög þar sem framkvæmdir fara fyrst af stað samkvæmt áætluninni. Samtals verður komið á fót 222 hjúkrunarrýmum í þessum sveitarfélögum, af þeim verða 120 viðbót til fjölgunar hjúkrunarýmum en 102 verða nýtt til að fækka fjölbýlum á hjúkrunarheimilum. Að meðtöldum þeim framkvæmdum sem þegar eru hafnar verður á þessu ári unnið að framkvæmdum og undirbúningi vegna uppbyggingar 388 rýma. Af þeim verða 276 rými viðbót til fjölgunar hjúkrunarrýmum á landinu en 112 nýtast til að fækka fjölbýlum.

Tenging frá vef ráðuneytisins Nánari upplýsingar um framkvæmdaáætlunina



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta