Samstarf háskóla eflir hjúkrunarfræðinám
Sjö verkefni sem ætlað er að bregðast við samfélagslegum áskorunum voru meðal þeirra sem fengu úthlutun úr Samstarfi háskóla á dögunum. Tæplega 1,6 milljarði króna var úthlutað til 35 fjölbreyttra verkefna sem skiptast í sex áhersluflokka sem allir hafa það að markmiði að auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni íslenskra háskóla.
Fyrrnefndu verkefnin sjö hlutu úthlutun upp á alls 256 milljónir króna og er þeim ætlað að bregðast við samfélagslegum áskorunum svo sem loftslagsvá, gervigreind og þróun heilbrigðisþjónustu. Þannig lýtur eitt verkefnanna að undirbúningi nýrrar námsleiðar til viðbótardiplómaprófs á meistarastigi í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun. Námið er þverfaglegt og kennt í fjarnámi við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, með tímasókn í hermikennslu í rauntíma auk vettvangsnáms. Markmiðið er að fagfólk sem útskrifast úr náminu geti veitt fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra ráðgjöf og stuðning, en verkefnið er liður í því að bregðast við þeirri heilbrigðis- og samfélagslegu áskorun sem heilabilun fylgir.
Bætt hjúkunarfræðinám
Þá var rúmlega 31 milljón varið til þróunar kennslu, náms og vals á nemendum í hjúkrun. Um er að ræða samstarfverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands, hvers markmið er að bæta nýtingu námsplássa í hjúkrunarfræði og minnka brottfall úr starfi að námi loknu. Þannig verður greint hvað spáir fyrir um styrk og áhuga í námi og starfi sem og aðferðir við val á nemendum í hjúkrunarfræði og möguleikar á samræmdri inntöku skólanna skoðaðir. Þetta verður gert í því ljósi að kjörval á nemendum, samnýting námskeiða og sameiginleg samkeppnispróf tryggir gæði náms, er fjárhagslega hagkvæmt, eykur jafnræði nemenda sem og ánægju í námi.
Verkefni sem lýtur að klínískri málsýnagreiningu hlaut úthlutun upp á ríflega 22,5 milljónir króna. Þar er um að ræða þverfræðilegt samstarf Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík á sviði hug-, verk- og heilbrigðisvísinda. Íslenskt mál er sett í forgrunn á alþjóðlegu sviði máltæknilausna í stafrænum heilbrigðisvísindum en þar hefur mikill árangur náðst á skömmum tíma, m.a. í greiningu á fyrstu merkjum Alzheimersjúkdóms í málnotkun fólks. Í samstarfinu eru slíkar lausnir þróaðar fyrir smærri málsamfélög og samnýttar til greiningar á málþroskaröskun hjá ein- og fjöltyngdum börnum, en reynst hefur erfitt að þróa áreiðanlegar mælingar á málþroska fjöltyngdra barna.
Auk þeirra þriggja verkefna sem nefnd eru hér að ofan hlutu sérfræðinám í klínískri taugasálfræði, fagmál hjúkrunar til kennslu og rannsókna, vettvangur fyrir nýjar lausnir í heilbrigðiskerfinu og efling klínískrar lyfjafræði á Akureyri einnig úthlutun úr Samstarfi háskóla að þessu sinni.
--
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað fjármunum af safnlið háskólastigsins til samstarfsverkefna háskólanna með það að markmiði að auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni íslenskra háskóla. Samstarf háskóla er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum er fjármögnun á háskólastigi gerð gagnsærri en áður hefur verið.
Sjá einnig:
- Úthlutun úr Samstarfi háskóla
- Aukin gæði með stærri háskólaeiningum og samstarfi
- Bætt stoðþjónusta og nýting innviða með Samstarfi háskóla
- Fólki með þroskahömlun auðveldað að stunda háskólanám