COVID-19: Aðgerðir á landamærum hertar tímabundið
Stjórnvöld kynna í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu COVID-19 innanlands. Markmiðið er að skapa aðstæður sem gera kleift að aflétta sem mest takmörkunum innanlands þrátt fyrir mikla útbreiðslu faraldursins erlendis. Bólusetningu hér á landi miðar vel og eftir því sem hlutfall bólusettra hækkar skapast forsendur til að slaka á takmörkunum, jafnt innanlands og á landamærunum.
Heilbrigðisráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi sóttvarnalögum sem felur í sér forsendur fyrir þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Meginefni þeirra eru:
Dvöl í sóttkvíarhúsi: Heimilt verður á tímabilinu 22. apríl til 30. júní, að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit/100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Ef nýsmit eru á bilinu 750-1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu, t.d. ef fyrir liggja trúverðug áform um dvöl í fullnægjandi húsnæði. Kveðið verður á um forsendur fyrir dvöl í sóttvarnahúsi í reglugerð heilbrigðisráðherra.
Auknar ferðatakmarkanir: Dómsmálaráðherra fái að auki heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum frá hááhættusvæðum (nýgengi yfir 1000/100.000) samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.
Óbreyttar reglur um vottorð og sýnatöku á landamærum til 1. júní
Reglur um framvísun vottorða og um sýnatökur á landamærum verða óbreyttar a.mk. til 1. júní. Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu skulu sæta einni sýnatöku á landamærunum og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Aðrir fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli. Frá og með 1. júní munu vægari kröfur gilda um þau lönd sem skilgreind verða sem lág-áhættusvæði.
Svæðisbundið áhættumat gefið út reglulega: Frá 7. maí verður gefið út hálfsmánaðarlega svæðisbundið áhættumat um stöðu og þróun faraldursins til að byggja á ákvarðanir um landamæraaðgerðir. Við áhættumatið veður m.a. stuðst við litakóðunarflokkun Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.