Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2021 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu um afturköllun endurvigtunarleyfis

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 24. október 2019, frá [A ehf.], [B, lögmanni], f.h.[C ehf.], þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 23. september 2019, um afturköllun endurvigtunarleyfis. Er sú ákvörðun tekin á grundvelli 1. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, og 2. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 745/2016 um vigtun og skráningu sjávarafla. Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fiskistofu, dags. 23. september 2019, verði felld úr gildi.

 

Málsatvik

Í stjórnsýslukæru er málsatvikum lýst á þann hátt að með bréfi, dags. 28. júní 2019, hafi Fiskistofa bent á að stofnunin hefði til meðferðar fjögur mál er varða endurvigtun [C ehf.] Lýsir Fiskistofa þeim meintu brotum í bréfi sínu en þar kemur fram að eftirlitsmenn Fiskistofu höfðu verið viðstaddir úrtaksvigtun hjá [C ehf.] þann 7. júní 2019. Úrtaksvigta átti afla af tveimur bátum, þ.e. [D] og [E]. Samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Fiskistofu hafði endurvigtun verið hætt þegar búið hafði verið að vigta steinbít af báðum skipunum og þorsk af [D], þrátt fyrir að eftir ætti að vigta sex fisktegundir af [D] og fimm tegundir af [E]. Kemur fram að samkvæmt vigtarnótum frá vigtunarleyfishafa, dags. 11. og 13. júní 2019 virtist sem allur afli hafi verið endurvigtaður af [E], en aðeins þorskur og steinbítur af [D]. Annar afli af [D] sé skráður með 0% íshlutfall. Kemur einnig fram að þann 13. júní 2019, höfðu eftirlitsmenn Fiskistofu verið staddir í húsnæði [C ehf.] við yfirstöðu á endurvigtun þegar endurvigtaður var afli úr bátnum [E]. Framkvæmdu eftirlitsmenn hornapróf á þeirri vog sem notuð hafði verið til endurvigtunar og hafi komið í ljós að eins til eins og hálfs kílóa munur hafi verið á vigtun milli horna. Hafði löggiltur vigtarmaður útgerðarinnar framkvæmt sama próf í kjölfarið og fengið sömu niðurstöðu og eftirlitsmenn Fiskistofu. Hafi vogin í kjölfarið verið reist upp til að stilla fætur hennar sem bar ekki tilskilinn árangur og hafi þá vigtarmaður útgerðar tekið samskonar vogarhaus með gaffalvog annarsstaðar frá í húsinu, sem hann setti upp á endurvigtunarsvæðinu. Sáu þá eftirlitsmenn Fiskistofu að innsigli á vogarhausnum sem notaður hafði verið fram að því var rofið. Var endurvigtun haldið áfram með þeim búnaði sem sóttur hafði verið og lauk henni kl. 12:00 á vigtun meðafla sem kom úr körum. Hafði verið erfitt að sjá á seinni voginni hvort hún hefði verið löggilt eða hvenær slíkt hefði verið gert, þar sem aðgengi að vogarhausnum hafi verið erfitt. Fiskistofa benti einnig á að þann 19. júní 2019, hafi komið í ljós við skoðun gagna á hafnarvog að vigtarnótur frá [C ehf.] höfðu verið sendar á Hornafjarðarhöfn óundirritaðar af vigtarmanni. Sama dag höfðu eftirlitsmenn Fiskistofu verið viðstaddir úrtaksvigtun hjá [C ehf.] þegar úrtaksvigta átti afla af tveimur bátum, [D] og [E]. Þegar búið hafði verið að vigta aflann af báðum bátunum hafi komið í ljós við skoðun eftirlitsmanna að innsigli sem á að vera á vigtarhaus hafi ekki verið til staðar. Var kæranda gefinn kostur á að koma andmælum eða athugasemdum á framfæri við Fiskistofu áður en afstaða yrði tekin til þess hvort brot hafi verið framin og eftir atvikum hvort viðurlögum yrði beitt.

 

Var umræddu bréfi Fiskistofu svarað af sjávarútvegsfræðingi og löggiltum vigtunarmanni, [F] með bréfi, dags. 11. júlí 2019. Kemur þar fram að þann 7. júlí 2019, hafi verið ákveðið að hætta við endurvigtun vegna tímaskorts þar sem komið hafi verið að tímamörkum afskipunar. Var einnig bent á að kærandi hafi um langt skeið kappkostað að hafa tvær löggiltar gaffalvogir ávallt í húsinu þannig að hægt væri að grípa til vara vogar ef einhver frávik kæmu fram. Þegar að frávik hafi komið fram við hornapróf hafði vara vog verið sótt og sett upp að viðstöddum eftirlitsmönnum Fiskistofu. Hornapróf á henni hafi reynst fullnægjandi og vog sem hafði flökt hafi strax verið send í viðgerð til umboðsaðila. Hafi vigtarnótur frá kæranda verið sendar á hafnarvog í Hornafirði rafrænt úr tölvupóstfangi löggilts vigtarmanns og nafn hans skráð á nóturnar. Benti kærandi á að þetta verklag hafi viðgengst hjá kæranda um margra ára skeið án athugasemda frá Fiskistofu. Benti kærandi að lokum á að sú vog sem um ræðir hafi verið vara vogin sem sett hafi verið upp þann 13. júní, að viðstöddum eftirlitsmönnum Fiskistofu. Hafði sú vog ekki farið úr húsi frá því að Frumherji löggilti hana á starfstöð kæranda 24. september 2018. Höfðu eftirlitsmenn Fiskistofu ekki gert athugasemd við vogina, hvorki við uppsetningu né meðan á vigtun stóð.

 

Með ákvörðun, dags. 23. september 2019, afturkallaði Fiskistofa leyfi kæranda, útg. 10. apríl 2019, til að endurvigta sjávarafla, frá og með 25. október 2019, með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996 og 2. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 745/2016. Í ákvörðuninni kom fram að Fiskistofa myndi ekki gefa út endurvigtunarleyfi að nýju fyrr en að liðnum átta vikum frá afturköllun, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 17. gr. laganna. Þá kom einnig fram að afturköllunin hefði ítrekunaráhrif í tvö ár, sbr. 19. gr. laganna.

 

Stjórnsýslukæra barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 24. október 2019 á grundvelli 18. gr. laga nr. 57/1996. Með tölvupósti, dags. 13. mars 2020, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna ásamt þeim gögnum er stofnunin teldi varða málið. Barst umsögn Fiskistofu með bréfi ásamt fylgiskjölum, dags. 28. apríl 2020 (brotaskýrsla og vigtarnótur) og var kæranda sama dag gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Fiskistofu. Það var ítrekað með tölvupósti, dags. 18. nóvember 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Er málið því tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna.

 

Málsástæður og sjónarmið í stjórnsýslukæru

Kærandi vísar til þess að í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þess að eftirlitsmenn Fiskistofu höfðu verið viðstaddir yfirstöðu á endurvigtun afla úr bátnum [E], dags. 13. júní 2019. Við eftirlitið, n.t.t. við hornapróf á þeirri vog sem hafi verið notuð til endurvigtunar, hafi komið í ljós frávik á milli horna vogarinnar og hafi af þeim sökum verið reynt að framkvæma viðgerð á voginni án árangurs. Þar sem ekki hafi tekist að lagfæra vogina hafði kærandi sótt aðra vog í viðurvist eftirlitsmanna Fiskistofu og sett upp á endurvigtunarsvæði. Hafði sú vog verið hornaprófuð og skoðuð af eftirlitsmönnum Fiskistofu og hafði reynst fullnægjandi. Í ljósi þess hafði kærandi haldið endurvigtun áfram í góðri trú. Kemur fram í kæru að eftir að vigtun lauk kl. 17:00 höfðu eftirlitsmenn Fiskistofu tekið eftir því að innsiglið á vogarhaus þeirrar vogar væri rofið og bent á að erfitt hafi verið að sjá hvort vogin væri löggilt og hvenær slík löggilding hefði farið fram. Hafði þá starfsmaður kæranda sýnt eftirlitsmönnum Fiskistofu löggildingarvottorð frá Frumherja, dags. 24. september 2018, fyrir báðar vogirnar. Kærandi gerir athugasemd í kæru við málsmeðferð Fiskistofu og bendir á að starfsmenn stofnunarinnar hefðu á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins átt að yfirfara þá vog sem sótt hafði verið eftir að bilun kom upp í þeirri vog sem notuð var fyrst. Telur kærandi að ef eftirlitsmenn Fiskistofu hefðu strax gert athugasemd við skort á innsigli á voginni að þá hefði kærandi þegar í stað hætt endurvigtun og útvegað sér fullnægjandi vog. Þá bendir kærandi á að ekki sé loku fyrir það skotið að innsigli vogarinnar hefði rofnað við endurvigtun afla við þetta tilefni en sú staðreynd að ekki höfðu verið gerðar athugasemdir við skort á innsigli við upphaf vigtunar bendi til þess að svo geti hafa verið.

 

Kærandi telur að í ljósi atvika beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og veita honum endurvigtunarleyfið að nýju enda sé ljóst að ekki hafi verið gætt að meginreglum stjórnsýsluréttarins við málsmeðferð og sé í því sambandi bent á að opinberum eftirlitsaðila líkt og Fiskistofa beri að gæta meðalhófs og rannsaka mál til þrautar áður en íþyngjandi refsingum sé beitt gegn atvinnufyrirtækjum. Kærandi bendir einnig á að beita skuli vægasta úrræði sem hægt sé í hverju tilviki og slíkt hefði verið réttmætt miðað við hvernig máli þessu sé háttað. Ítrekar kærandi að lokum að hann hafi þegar bætt úr öllum þeim ágöllum sem fyrsta bréf Fiskistofu, dags. 23. september 2019, gerði athugasemdir um.

 

Sjónarmið Fiskistofu

Fiskistofa bendir á að hin kærða ákvörðun sé vegna fjögurra aðskilinna brotatilvika en ekki vegna eins atviks eins og ráða megi af frásögn kæranda í stjórnsýslukærunni. Vísar Fiskistofa til þess að kærandi geri ekki athugasemd við niðurstöðu Fiskistofu um að kærandi hafi þann 7. júní 2019, ekki endurvigtað allan afla fiskiskipanna [D] og [E], og hafi kærandi þannig brotið gegn 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 745/2016. Standi því niðurstaða Fiskistofu hvað það brot varðar óhögguð. Sé í kærunni heldur ekki gerður ágreiningur um þá niðurstöðu Fiskistofu að með því að hafa notað ólöggilta og bilaða vog við endurvigtun sjávarafla, dags. 13. júní 2019, hafi kærandi brotið gegn 2. mgr. 6. gr. laga nr. 75/1996, sbr. 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 745/2016. Líti því Fiskistofa svo á að ekki sé heldur ágreiningur um þann hluta hinna kærðu ákvörðunar. Sé í kærunni heldur ekki gerður ágreiningur um að kærandi sendi til löndunarhafnar vigtarnótur vegna vigtana af fiskiskipinu [D], dags. 5. júní 2019, 6. júní 2019, 11. júní 2019 og 13. júní 2019, án þess að vigtarnóturnar bæru undirskriftir þess löggilta vigtarmanns sem tilgreindur var sem sá sem annaðist vigtun á afla skipsins. Hafi með því verið brotið gegn. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 745/2016.

 

Telur Fiskistofa að málatilbúnaður kæranda verði skilinn á þann veg að hann geri ágreining um það brot sem framið var, dags. 19. júní 2019, þar sem í ljós kom að innsigli vigtar sem hann hafði notað við endurvigtun afla úr fiskiskipunum [D] og [E] hafi verið rofið og löggilding vogarinnar því fallin úr gildi. Verði málatilbúnaðurinn skilinn þannig að kærandi telji að það hafi verið á ábyrgð veiðieftirlitsmanna Fiskistofu að tryggja að kærandi hafi notað löggilta vog við verkið, enda hafi veiðieftirlitsmennirnir verið viðstaddir þegar vogin hafi verið færð á staðinn og notkun hennar hafist.

 

Fiskistofa vísar til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin vegna fjögurra aðskilinna brotatilvika og hafi tilvikið sem kærandi vísar til verið hið síðasta þeirra. Bendir Fiskistofa á að þrátt fyrir að ráðuneytið féllist á þá afstöðu kæranda að ógilda ætti ákvörðun Fiskistofu hvað varðar þetta eina brot, myndi það ekki geta valdið ógildingu ákvörðunarinnar í heild. Fiskistofa hafnar því að rannsóknarskylda stjórnsýsluréttar hafi verið brotin en bendir stofnunin á að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 feli í sér að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin sé ákvörðun í því. Þeir sem hafi leyfi Fiskistofu til endurvigtunar sjávarafla, sé með leyfisveitingunni treyst til að framkvæma, í samræmi við ákvæði laga og reglugerða, vigtun á sjávarafla sem veiddur sé úr auðlind sem sé í eigu allra landsmanna. Leyfið sé veitt í trausti þess að leyfishafi hagi framkvæmd vigtunar í samræmi við lög og að öll framkvæmd einkennist af því öryggi og festu sem endurspegli hina ríku almannahagsmuni sem felist í vigtuninni, enda byggist endanleg aflaskráning á niðurstöðum vigtana hans. Sé þetta sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að kærandi sé eigandi þeirra skipa sem í hlut eiga og sömuleiðis kaupandi afla þeirra. Þeirri ríku ábyrgð sem kærandi beri, meðal annars á því að vogir sem hann noti við endurvigtun séu löggiltar, geti hann ekki velt yfir á veiðieftirlitsmenn Fiskistofu eða aðra þá opinberu eftirlitsaðila sem kunni að koma í húsnæði hans til eftirlits. Kærandi beri ábyrgðina sjálfur og geti ekki vikið sér undan henni. Fiskistofa telur að staðfesta beri ákvörðunina.

 

Forsendur og niðurstaða

I.  Kærufrestur.

Ákvörðun Fiskistofu um afturköllun á endurvigtunarleyfi kæranda, dags. 23. september 2019, var móttekin þann 25. september 2019. Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996 og er kærufrestur einn mánuður frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu, dags. 24. október 2019. Kæran barst því innan tilskilins frests.

 

Kemur þá til skoðunar hvort að rétt sé að vísa málinu frá þar sem tímabili leyfissviptingar er lokið, en ekki var farið fram á frestun réttaráhrifa í málinu. Ráðuneytið telur rétt að líta til þess að leyfissvipting sem um ræðir varðar mikilvæga hagsmuni á sviði atvinnuréttinda. Þá hefur slík ákvörðun ítrekunaráhrif í tvö ár, sbr. 19. gr. laga nr. 57/1996. Þegar litið er til þessa er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af efnislegri úrlausn þessa máls þótt tímabili leyfissviptingarinnar sé nú lokið.

 

Málið er því tekið til efnismeðferðar.

 

II. Ágreiningur í málinu

Ráðuneytið tekur fram að einungis virðist vera ágreiningur um einn hluta ákvörðunar Fiskistofu um afturköllun endurvigtunarleyfis kæranda en hin kærða ákvörðun er vegna fjögurra aðskilinna brotatilvika að mati Fiskistofu.

 

Í málinu liggur fyrir að vigtunarleyfishafi endurvigtaði ekki allan landaðan afla þann 7. júní 2019 skv. útgefnu vigtunarleyfi. Aðilum sem fengið hafa slíkt leyfi er skylt að vigta afla sem móttekinn er skv. útgefnu leyfi, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 745/2016.

 

Varðandi óundirritaðar vigtarnótur tekur Fiskistofa fram í ákvörðun sinni, dags. 23. september 2019, að tekið sé undir athugasemdir kæranda varðandi það verklag sem viðhaft hefur verið að vigtarnótur hafi verið sendar á hafnarvog með tölvupósti úr netfangi viðkomandi vigtarmanns og með nafni hans á nótum. Fiskistofa hafi ekki gert athugasemdir við ofangreint verklag með formlegum hætti og þyki því ekki rétt að taka afstöðu til þess hluta málsins í úrlausn sinni að svo komnu máli. Ekki er í stjórnsýslukæru fjallað sérstaklega um óundirritaðar vigtarnótur. Í bréfi Fiskistofu, dags. 28. apríl 2020, þar sem Fiskistofa veitir umsögn um stjórnsýslukæruna segir að ekki sé gerður ágreiningur um að kærandi sendi til löndunarhafnar vigtarnótur án þess að þær beri undirskriftir. Ráðuneytið telur að Fiskistofa hafi í ákvörðun sinni ekki grundvallað þennan þátt málsins með fullnægjandi hætti þar sem annars vegar er lýst broti á 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 745/2016 en síðar í niðurstöðukafla ákvörðunar er tekið undir athugasemdir kæranda og ekki tekin afstaða til þess parts málsins. Forsendur þessa þáttar í ákvörðun Fiskistofu hafa ekki úrslitaáhrif á niðurstöðu í málinu að mati ráðuneytisins. Ráðuneytið vísar þó til 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 745/2016 en þar kemur skýrt fram að löggiltur vigtarmaður sem annast endurvigtun afla skal fylla út og undirrita vigtarnótu. Verður því ekki annað séð en að undirrita verði vigtarnótur til að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar.

 

Varðar ágreiningurinn í málinu því rof á innsigli vigtar sem hafði verið notuð til að endurvigta afla úr fiskiskipunum [D] og [E] og því löggilding vogarinnar fallin úr gildi. Liggur fyrir að innsigli var rofið á vog sem kærandi notaði til endurvigtunar afla, annars vegar þann 13. júní 2019 og hins vegar þann 19. júní 2019. Vog bar ekki innsigli og var vogin því ólöggilt, skv. 2. málsl. 3. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 254/2009, um mælifræðilegt eftirlit með ósjálfvirkum vogum, en þar er kveðið á um að löggilding vogar falli úr gildi ef innsigli hennar rofnar.

 

Í 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996 er Fiskistofu veitt heimild, að fenginni umsögn hafnaryfirvalda á löndunarstað, til að veita einstökum aðilum leyfi til að vigta afla, enda hafi hann áður verið veginn á hafnarvog. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 745/2016 er Fiskistofu heimilt að veita leyfi til að ísaður afli sem vigtaður hefur verið á hafnarvog sé endurvigtaður og samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu reglugerðar er vigtunarleyfishafa skylt að vigta afla sem móttekinn er í samræmi við útgefið leyfi. Kærandi hefur slíkt leyfi útgefið, dags. 10. apríl 2019.

 

Í 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 745/2016 er mælt fyrir um að endurvigtun skuli framkvæmd af löggiltum vigtarmanni og að við hana skuli notuð löggilt vog. Skv. 2. málsl. 3. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 254/2009, um mælifræðilegt eftirlit með ósjálfvirkum vogum, fellur löggilding vogar úr gildi ef innsigli hennar rofnar.

 

III. Meiriháttar eða minniháttar brot

Í 56. gr. reglugerðar nr. 745/2016 er kveðið á um að brot gegn ákvæðum reglugerðarinnar varði viðurlögum samkvæmt VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og IV. kafla laga nr. 57/1996 þar sem mælt er fyrir um viðurlög í formi áminninga, sviptingu veiði- og vigtunarleyfa og refsinga. Er í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996 kveðið á um að Fiskistofa skuli afturkalla leyfi aðila til vigtunar sjávarafla skv. 2. mgr. 6. gr. ef hann, fyrirsvarsmenn hans, starfsmenn eða aðrir þeir sem í þágu hans starfa hafi brotið gegn ákvæðum III. kafla laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Í 3. mgr. 17. gr. laganna er mælt fyrir um að við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa veita hlutaðeigandi aðila skriflega áminningu.

 

Kærandi telur að fella eigi ákvörðun Fiskistofu úr gildi þar sem að Fiskistofa hafi ekki gert athugasemdir við það að innsigli væri rofið og löggilding þ.a.l. fallin úr gildi. Fiskistofa hafnar þessari málsástæðu og bendir á að það firri ekki kæranda ábyrgð sinni sem handhafa leyfis til endurvigtunar afla ef að Fiskistofa geri ekki athugasemdir.

 

Til skoðunar kemur hvort að brot kæranda teljist minniháttar eða meiriháttar, en ef um minniháttar brot sé að ræða hvort Fiskistofa hefði þá fremur átt að veita skriflega áminningu í stað afturköllunar leyfis. Í ákvörðun Fiskistofu kemur fram að brot gegn 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 745/2016 ógni mikilvægum hagsmunum með tilliti til þess trausts sem stjórnvöld verði að bera til vigtunarleyfishafa og í 4. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að við endurvigtun skuli notuð löggilt vog. Taldi því Fiskistofa að umrætt brot gæti ekki talist minniháttar brot og því ekki lagaskilyrði fyrir hendi til veitingu skriflegrar áminningar.

 

Ráðuneytið tekur undir með Fiskistofu að vigtun sjávarafla sé mikilvægur hluti fiskveiðistjórnunarkerfisins og er það ófrávíkjanlegt skilyrði að vigtun vigtunarleyfishafa skuli fara fram á löggiltri vog, sbr. 2. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 745/2016. Ráðuneytið getur hins vegar ekki fallist á svo fortakslausa túlkun að sérhvert tilfelli þar sem vigtun hefur farið fram á vog sem ekki sé löggilt skuli leiða til sviptingar á leyfi til vigtunar. Ráðuneytið telur að Fiskistofu beri að leggja mat á sérhvert tilfelli hvort um minni háttar eða meiri háttar brot sé að ræða og þá hvort beita skuli 1. eða 3. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996.

 

Í því máli sem hér er til skoðunar var innsigli rofið á vigt en ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á hversu lengi innsigli var rofið né ástæður þess, hvort kærandi eða starfsmenn hans hafi verið grandvísir um rofið innsigli vogarinnar og að hún hafi því ekki verið löggilt. Eini rökstuðningur kæranda hefur verið að Fiskistofu hafi borið að gera athugasemd við umrædda vog og að innsigli hennar væri rofið. Segir í 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 745/2016 að vigtun afla skuli framkvæmd af vigtarmanni sem hlotið hefur löggildingu til vigtunar og notuð til þess löggilt vog. Með því að gera kröfu um að löggiltir vigtunarmenn framkvæmi vigtun er reynt að tryggja að þekking sé til staðar hjá vigtunarleyfishafa sem er m.a. ætlað að tryggja eftirlit með því að vogir uppfylli lagalegar kröfur, m.a. að þær fullnægi skilyrðum um löggildingu. Ábyrgð á vigtun er því hjá leyfishafa eða kæranda. Ráðuneytið telur að kærandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hafa ekki fylgst með því hvort vogin væri löggilt og því sé ekki hægt að meta brot kæranda sem minni háttar brot.

 

Niðurstaða ráðuneytisins grundvallast því annars vegar á því að kærandi hafi ekki vigtað allan afla sem hann átti að vigta þann 7. júní 2019, sem kærandi hefur ekki gert ágreining um í málinu, og hins vegar á því að hann hafi vigtað afla með vog með rofnu innsigli sem var því ólöggilt vog þann 13. og 19. júní 2019.

 

Með vísan til alls framangreinds staðfestir ráðuneytið ákvörðun Fiskistofu, með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996 um að fella úr gildi leyfi kæranda skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, til endurvigtunar sjávarafla.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Fiskistofu, dags. 23. september 2019, um að afturkalla endurvigtunarleyfi [C ehf.] skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, útgefið 10. apríl 2019, með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 57/1996. Afturköllunin gildir frá og með 25. október 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta