Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aukinn þungi í baráttu gegn skattsvikum með sameiningu embættis skattrannsóknarstjóra við Skattinn

Fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn í skattalagabrotum. Markmið frumvarpsins er að styrkja eftirlit og rannsóknir skattundanskota og er þess vænst að verði það að lögum aukist þungi í baráttunni gegn skattsvikum.

Forsögu málsins má rekja til þess að í tilefni af dómum mannréttindadómstóls Evrópu í tengslum við rannsókn og saksókn skattalagabrota á Íslandi ákvað dómsmálaráðherra í apríl 2019 í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, að skipa nefnd um rannsókn og saksókn skattalagabrota. Varð það hlutverk nefndarinnar að greina þær kröfur sem leiða af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í tengslum við rannsókn og saksókn skattalagabrota og móta afstöðu til þeirra breytinga sem þarf að ráðast í til að mæta þeim kröfum. Nefndin skilaði ráðherrum skýrslu 11. september 2019

Í kjölfarið voru sett bráðabirgðaákvæði í skattalög til að bregðast strax við vanda sem til staðar var í kerfinu meðan unnið var að varanlegum breytingum á skattrannsóknum á þessu sviði. Í lok janúar 2020 var komið á fót vinnuhópi sem var ætlað að koma með tillögur að lagabreytingum á grundvelli fyrrgreindrar skýrslu vinnuhóps frá september 2019 þar sem lagðar yrðu til breytingar á efnisreglum, stofnanauppbyggingu og samstarfi sem hefði í för með sér að tvöföldum refsingum verði ekki beitt við rannsókn og saksókn skattalagabrota.

Vinnuhópurinn hefur nú lokið störfum og skilað frumvarpi til ráðherra.

Í frumvarpinu er lagt til að embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins verði sérstök eining innan Skattsins, sem sameinist embætti ríkisskattstjóra. Til viðbótar felast í frumvarpinu ýmsar tillögur um að skýra nánar fyrirkomulag rannsóknar í kjölfar skattalagabrota sem eiga að stuðla að því að gera kerfið gagnsærra og skilvirkara. Er þar reynt að styrkja réttaröryggi einstaklinga við rannsókn skattalagabrota og þar einkum horft til styttingar málsmeðferðartíma og einföldunar málsmeðferðar. Meðal tillagna er að útiloka að álagi verði beitt samhliða stjórnvaldssektum eða refsingum vegna skattalagabrota. Er þar jafnframt höfð hliðsjón af því sem fram hefur komið í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu að öruggasta leiðin til að tryggja að ekki sé brotið gegn 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sé að beita ekki álagi samhliða refsingu.

Frestur til að skila inn umsögnum um málið er til 16. nóvember n.k.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta