Nr. 480/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 13. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 480/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18090019
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 11. september 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. ágúst 2018, um að synja henni um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að endurnýja dvalarleyfi kæranda.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir námsmenn 9. ágúst 2017 með gildistíma til 15. júlí 2018. Kærandi sótti um endurnýjun 20. júní 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. ágúst 2018, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 31. ágúst 2018. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar þann 11. september 2018, en kæru fylgdu athugasemdir.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt ákvæði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga sé heimilt að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu ef útlendingur fullnægi áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og geti sýnt fram á viðunandi námsárangur þar sem þess sé krafist. Við fyrstu endurnýjun teljist námsárangur fullnægjandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu en heimilt sé að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um sé að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi. Samkvæmt námsferilsyfirliti kæranda, dags. 20. júní 2018, hafi kærandi lokið 40 ECTS-einingum af 60 fyrir námsárið 2017-2018, eða með um 67% námsárangri. Samkvæmt framangreindu uppfyllti umsókn kæranda því ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. þar sem áskilnaður væri um 75% námsárangur skv. ákvæðinu.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í athugasemdum með kæru kæranda kemur fram að kærandi sé sex barna móðir og fjölskylda hennar sé búsett í [...] en systir hennar sé búsett hér á landi. Á vormánuðum 2018 hafi gengið ýmislegt á hjá fjölskyldu hennar en [...]. Hafi það verið erfitt fyrir kæranda þar sem hún hafi verið stödd hinum megin á hnettinum. Þá sé annar sona hennar og elsta dóttir hennar ekki í sambúð en í heimalandi hennar, þar sem um 86% landsmanna tilheyri rómversku-kaþólsku kirkjunni, [...] skömm yfir fjölskyldur. Telur kærandi að meta verði afleiðingar þessa fyrir hana út frá menningarheimi hennar og trú. Ennfremur hafi kærandi á sama tíma verið í læknisrannsóknum á Landspítalanum vegna [...]. Vegna fyrrgreindra aðstæðna hafi kærandi ekki náð fullnægjandi árangri í vorprófum og því ekki þeim 75% námsárangri sem áskilinn sé í 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi á því að fyrir hendi hafi verið óviðráðanlegar ytri aðstæður og því sé heimilt að víkja frá kröfu um námsárangur. Þá byggir kærandi ennfremur á því að líta verði til þess að hún hafi stundað fullt nám skólaárið 2017-2018 og hafi henni einungis vantað 5 ECTS-einingar upp á áskilinn 75% námsárangur, sbr. 6. mgr. 65. gr. laganna. Þá sé hún skráð í fullt nám skólaárið 2018-2019. Tekur kærandi fram að um tímabundið og afmarkað tímabil hafi verið að ræða og hafi hún ekki staðið skil á fullnægjandi námsárangri vegna fyrrgreindra ytri aðstæðna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er heimilt að endurnýja dvalarleyfi skv. ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi. Í athugasemdum við 65. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að heimilt sé að endurnýja dvalarleyfi ef óviðráðanlegar ástæður valda því að fullnægjandi námsárangri hafi ekki verið náð. Þurfi ástæðurnar að hafa verið óviðráðanlegar fyrir námsmanninn, svo sem alvarleg veikindi eða ef nauðsynleg námskeið falla niður.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi fyrst verið veitt dvalarleyfi vegna náms þann 9. ágúst 2017 með gildistíma til 15. júlí 2018. Samkvæmt gögnum málsins lauk kærandi 40 ECTS-einingum af 60 á námsárinu 2017-2018, eða með um 67% námsárangri. Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki framangreint skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga um viðunandi námsárangur við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis vegna náms. Kemur þá til skoðunar hvort fyrrgreindar aðstæður kæranda á vormánuðum 2018 falli innan undantekningarheimildar 3. málsl. 6. mgr. 65. gr. laganna. Eins og að framan greinir byggir kærandi einkum á því að beita beri undantekningarheimildinni í máli hennar vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna og gruns um veikindi. Samkvæmt gögnum málsins verður ekki ráðið að um hafi verið að ræða alvarleg veikindi eða slys hjá kæranda eða fjölskyldu hennar. Að mati kærunefndar verður ekki talið að í máli hennar sé um að ræða óviðráðanlegar aðstæður sem hafi valdið því að hún náði ekki fullnægjandi námsárangri. Með vísan til þess telur kærunefnd að aðstæður hjá kæranda hafi ekki verið þess eðlis að skilyrðum undantekningarheimildar 3. málsl. 6. mgr. 65. gr. laganna sé fullnægt. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga um viðunandi námsárangur. Með vísan til framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Anna Valbjörg Ólafsdóttir