Hoppa yfir valmynd
25. mars 2024

Mælt fyrir frumvarpi um nýja Náttúruverndar- og minjastofnun

Fréttapóstar vegna breytinga á stofnanaskipulagi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins eru eingöngu sendir á starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, mælti í síðustu viku   fyrir frumvarpi til laga um nýja Náttúruverndar- og minjastofnun.  Frumvarpið kveður á um að Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvallaþjóðgarður, Minjastofnun og sá hluti Umhverfisstofnunar sem snýr að náttúruvernd sameinist í nýja stofnun, Náttúruverndar- og minjastofnun.

Nýrri Náttúruverndar- og minjastofnun er ætlað að sinna verkefnum á sviðum náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar, menningarminja, friðlýstra svæða, þ.m.t. þjóðgarða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar.

Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er kveðið á um að starfsfólk viðkomandi stofnana njóti forgangs til þeirra starfa sem til verða með tilkomu nýrrar stofnunar. Tilgangur nýrrar stofnunar er fyrst og fremst að koma á fót faglega sterkri stofnun og er ávinningurinn þar margþættur. Markmiðið er því ekki að fækka störfum heldur má m.a. gera ráð fyrir auknum fjölbreytileika starfa.  

Gert er ráð fyrir að starfsfólk sem ræður sig hjá nýrri stofnun haldi þeim réttindum sem það hefur áunnið sér til námsleyfis og um lengdan uppsagnarfrest þegar kjarasamningar gera ráð fyrir að sá réttur miði við samfellt starf hjá sömu stofnun.

Áhersla er lögð á að efla og viðhalda hjá nýrri Náttúruverndar- og minjastofnun því skipulagi sem skilað hefur góðum árangri við stefnumótun um stjórn og vernd innan þjóðgarða. Þá stendur ekki til að skipa sérstaka stjórn fyrir stofnunina, heldur eiga svæðisstjórnir að fara með umsjón tiltekinna landfræðilega afmarkaðra svæða og hafa það hlutverk að móta stefnu fyrir viðkomandi svæði og aðrar stefnumótandi áætlanir. Þannig eiga Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvallaþjóðgarður og Snæfellsþjóðgarður að starfa óslitið áfram. Einnig er gert ráð fyrir að Breiðafjarðarnefnd starfi áfram og að Vatnajökulsþjóðgarði verði, sökum stærðar, áfram skipt í fjögur rekstrarsvæði með svæðisráðum eins og verið hefur.  

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lög um nýja Náttúruverndar- og minjastofnun taki gildi í byrjun árs 2025.

Frumvarp til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun

Mælt fyrir samruna Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri

Ráðherra mælti einnig fyrir frumvarpi sem gerir ráð fyrir samruna Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar (SVSog Háskólans á Akureyri. Til að samruninn geti orðið að veruleika þarf að leggja SVS niður með því að fella brott lög um stofnunina.  

Samruninn felur í sér áform um að stofnuð verði rannsóknastofnun í Háskólanum á Akureyri um verkefni þau sem Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hefur annast, sem mun heyra undir háskóladeild eða háskólaráð, og verði vettvangur rannsókna á norðurslóðum með áherslu á þverfagleg mannvísindi og starf í alþjóðlegu vísindaumhverfi. Með samruna háskólans og SVS gefst enn fremur tækifæri til að skoða og endurmeta samstarfsmöguleika við aðra norðurslóðaaðila á Akureyri, einkum Norðurslóðanetið.

Gert er ráð fyrir að það starfsfólk SVS sem starfar hjá stofnuninni við gildistöku laganna, verði starfsfólk Háskólans á Akureyri við gildistöku laganna. Störf þeirra eru því ekki lögð niður heldur flutt til háskólans með því að hann yfirtekur ráðningarsamninga starfsfólks og færast því réttindi og kjör þeirra til háskólans. Gert er ráð fyrir að samruninn eigi sér stað 1. janúar 2025.

Samruni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri

Annað

Spurningum og ábendingum starfsmanna um stofnanabreytingarnar sem óskað er eftir að koma á framfæri skal beint til mannauðstjóra/forstöðumanna stofnananna, sem eru í góðu sambandi við ráðuneytið. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar beint til mannauðsstjóra ráðuneytisins [email protected], sem safnar þeim saman og sendir spurningar og svör til stofnana sem þau geta dreift til starfsfólks. 

Sameiningunni er m.a. ætlað að ná þeim markmiðum að:

  • Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir  til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
  • Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
  • Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
  • Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
  • Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta