Samstaðan skilar árangri - grein Bjarna Benediktssonar í Morgunblaðinu
Frá fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins hafa skilaboð okkar verið skýr: Við munum beita ríkisfjármálunum til að hjálpa fólki og fyrirtækjum í vanda og skapa skilyrði fyrir vöxt efnahagslífsins á ný. Líklega má fullyrða að enginn sé ósnortinn af afleiðingum faraldursins, en afleiðingarnar væru meiri og þungbærari ef ekkert væri aðhafst. Þetta kemur fram í grein Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra í Morgunblaðinu í dag.
Hvað ríkisfjármálastefnuna varðar hefur hún bein og óbein áhrif, sem miserfitt er að meta. Bein áhrif felast t.d. í fjárfestingarútgjöldum ríkissjóðs og óbein áhrif m.a. í greiðslum almannatrygginga og atvinnuleysisbóta, sem auka ráðstöfunartekjur og eftirspurn heimila og leiða þannig til framleiðslustarfsemi sem ella hefði ekki átt sér stað, segir í grein fjármála- og efnahagsráðherra.