Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2018 Utanríkisráðuneytið

Samhent átak margra þarf til að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

„…innleiðing Heimsmarkmiðanna (er) ekki einungis á hendi stjórnvalda, heldur mun þurfa samhent átak margra ólíkra hagsmunaaðila til þess að þau megi verða að veruleika. Í ljósi þess er mikilvægt fyrir stjórnvöld að hvetja til samráðs og samstarfs um innleiðingu markmiðanna,“ segir í fyrstu stöðuskýrsla stjórnvalda um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem kom út fyrr í sumar. Heimsljós birtir á næstunni einstaka kafla skýrslunnar en í inngangsorðum er fjallað almennt um markmiðin, tildrög þeirra og aðalinntak. Einnig er farið nokkrum orðum um aðkomu Íslands að gerð Heimsmarkmiðanna, eftirfylgni þeirra, íslensku verkefnastjórnina og tölfræði Heimsmarkmiðanna.

„Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Aðalsmerki Heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra.

Heimsmarkmiðin byggjast um margt á arfleifð Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Ríó+20 ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldin var árið 2012. Þúsaldarmarkmiðin voru átta talsins og beindust aðallega að þróunarríkjum heimsins. Markmiðin skiluðu góðum árangri á gildistíma þeirra á árunum 2000-2015, en á þeim tíma minnkaði sárafátækt um meira en helming, verulega dró úr mæðra- og barnadauða, aðgangur að hreinu vatni jókst til muna, sem og aðgangur barna að menntun.1 Helsti munurinn á Þúsaldar- og Heimsmarkmiðunum felst meðal annars í því að Heimsmarkmiðin gilda um öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna en ekki einungis þróunarríki, þó að vissulega séu forsendur ríkjanna ólíkar. Að auki gegnir sjálfbær þróun, þá sér í lagi er varðar umhverfis- og auðlindamál, stærra hlutverki innan Heimsmarkmiðanna en hún gerði í Þúsaldarmarkmiðunum.

Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Því er mikilvægt að ríki horfi ekki eingöngu til meðaltala við mælingar á árangri sínum heldur nálgist innleiðingu markmiðanna á heildstæðan hátt. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs milli ólíkra hagsmunaaðila. Þá eru innri tengsl og samþætt eðli markmiðanna afar þýðingarmikil fyrir framkvæmd þeirra. Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heimsins tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030.

Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eru eftirfarandi:

1: Engin fátækt. Útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar.

2: Ekkert hungur. Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði.

3: Heilsa og vellíðan. Stuðla að heilbrigðu lífi og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.

4: Menntun fyrir alla. Tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi.

5: Jafnrétti kynjanna. Jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld.

6: Hreint vatn og hreinlætisaðstaða. Tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og sjálfbæra nýtingu þess svo og hreinlætisaðstöðu.

7: Sjálfbær orka. Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði.

8: Góð atvinna og hagvöxtur. Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.

9: Nýsköpun og uppbygging. Byggja upp trausta innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun.

10: Aukinn jöfnuður. Draga úr ójöfnuði í heiminum.

11: Sjálfbærar borgir og samfélög. Gera borgir og íbúðarsvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg.

12: Ábyrg neysla og framleiðsla. Sjálfbær neysla og framleiðsla.

13: Aðgerðir í loftslagsmálum. Bráðaaðgerðir gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra.

14: Líf í vatni. Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt.

15: Líf á landi. Vernda, endurheimta vistkerfi á landi og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra, vinna að sjálfbærri stjórnun skóga, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu, endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.

16: Friður og réttlæti. Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla jarðarbúa, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum.

17: Samvinna um markmiðin. Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða.

Ísland tók virkan þátt í samningaviðræðum um markmiðin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á árunum 2012-2015. Í viðræðunum lagði Ísland sérstaka áherslu á jafnréttismál, málefni hafsins, endurnýjanlega orku, landgræðslu og sjálfbæra landnýtingu auk rannsókna og lækningar á taugasjúkdómum. Innleiðing markmiðanna hefur farið vel af stað á alþjóðavísu og gegna Heimsmarkmiðin núorðið stóru hlutverki í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna, sem og öðru alþjóðlegu samstarfi Íslands.

Hinn eiginlegi vettvangur fyrir eftirfylgni markmiðanna er ráðherrafundur hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, „High Level Political Forum on Sustainable Development“ (HLPF), sem haldinn er í júlí ár hvert. Á fundinum gefst aðildarríkjunum tækifæri til þess að kynna innleiðingu sína á markmiðunum en mælst er til að ríkin efni til slíkrar kynningar a.m.k. þrisvar á gildistíma markmiðanna. Ísland mun efna til sinnar fyrstu kynningar um Heimsmarkmiðin árið 2019. Fyrstu markvissu skref stjórnvalda við innleiðingu Heimsmarkmiðanna á Íslandi voru að setja á laggirnar verkefnastjórn Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og ákvörðun um ritun stöðuskýrslu. Stöðuskýrslu þessari er ætlað að veita innsýn inn í stöðu Íslands gagnvart markmiðunum á innlendum og erlendum vettvangi. Það felur bæði í sér kortlagningu á helstu verkefnum, áætlunum og áskorunum stjórnvalda í tengslum við tiltekin markmið en jafnframt aðgengi að gögnum fyrir þá mælikvarða sem lagðir hafa verið markmiðunum til grundvallar. Á grunni þeirrar vinnu og ráðgjafar frá sérfræðingum innan Háskóla Íslands eru jafnframt lögð fram forgangsmarkmið sem vísa munu stjórnvöldum veginn við innleiðingu markmiðanna næstu árin. Nánari útlistun á forgangsmarkmiðunum og aðferðafræðinni sem notuð var við val á þeim má finna aftar í skýrslunni. Þá byggist skýrslan að verulegu leyti á gagnasöfnun sem Hagstofa Íslands hefur unnið í nánu samstarfi við verkefnastjórnina, en niðurstöður þeirrar úttektar má finna í fyrsta viðauka skýrslunnar.

Heimsmarkmiðin eru afar víðfeðm og ná yfir flest svið stjórnsýslunnar, bæði á lands- og sveitarstjórnarstigi. Hvert yfirmarkmið felur í sér ákveðið þema og undirmarkmiðin endurspegla það. Hins vegar er það ekki svo að hægt sé að einangra ákveðin undirmarkmið við eitt ákveðið yfirmarkmið. Ástæðan er sú að markmiðin tengjast innbyrðis, svo innleiðing á einu undirmarkmiði getur haft áhrif á framgang annars yfir- eða undirmarkmiðs. Áhrifin geta meðal annars falist í óvæntum áhrifum á aðra málaflokka, bæði jákvæð eða neikvæð, en slíkt fer að töluverðu leyti eftir aðstæðum. Farið er nánar yfir þessi samverkandi áhrif síðar í skýrslunni og áform verkefnastjórnarinnar um innleiðingu markmiðanna í gegnum fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Eins og áður hefur verið nefnt er innleiðing Heimsmarkmiðanna ekki einungis á hendi stjórnvalda, heldur mun þurfa samhent átak margra ólíkra hagsmunaaðila til þess að þau megi verða að veruleika. Í ljósi þess er mikilvægt fyrir stjórnvöld að hvetja til samráðs og samstarfs um innleiðingu markmiðanna. Í skýrslunni má finna umfjöllun um ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og fleiri samstarfsaðila verkefnastjórnarinnar auk þess sem gerðar eru tillögur að framtíðarskipulagi og verklagi í kringum innleiðingu Heimsmarkmiðanna hér á landi.

Stöðuskýrsla þessi er mikilvægt upphafsskref í átt að farsælli innleiðingu Íslands á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Skýrslunni er ætlað að varpa ljósi á núverandi stöðu Íslands, bæði á innlendum og erlendum vettvangi, til undirbúnings skipulagðri og samhæfðri vinnu í átt að markmiðunum á komandi árum. Heimsmarkmiðin eru stórt og viðamikið verkefni en ef ólíkir kraftar koma saman getur sameiginleg framtíðarsýn um þróun í átt að sjálfbæru samfélagi orðið að veruleika.

Verkefnastjórn Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Á fundi ríkisstjórnarinnar 24. mars 2017 var samþykkt að skipuð yrði verkefnastjórn forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Hagstofu Íslands, sem halda skyldi utan um greiningu, innleiðingu og kynningu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnastjórn Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (hér eftir „verkefnastjórnin“) skipa átta fulltrúar fyrrgreindra ráðuneyta ásamt fulltrúa frá Hagstofu Íslands. Forsætisráðuneytið gegnir formennsku í stjórninni og utanríkisráðuneytið varaformennsku. Til þess að tryggja aðkomu allra ráðuneyta að vinnunni var einnig myndaður tengiliðahópur með fulltrúum annarra ráðuneyta, auk áheyrnarfulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar er meginhlutverk verkefnastjórnarinnar að greina stöðu undirmarkmiða Heimsmarkmiðanna, rita stöðuskýrslu með tillögum um forgangsröðun markmiða til ríkisstjórnarinnar og leggja fram tillögur um framtíðarskipulag og verklag í tengslum við innleiðingu markmiðanna hér á landi. Þá skal verkefnastjórnin sérstaklega horfa til þess hvernig samhæfa megi innleiðingu Heimsmarkmiðanna við stefnu og áætlanagerð Stjórnarráðsins í gegnum málaflokkastefnur fjármálaáætlunar og hvernig vinna megi að innleiðingu markmiðanna í samstarfi við ólíka hagsmunaaðila innanlands, sem og sinna alþjóðlegu samstarfi um markmiðin.

Í þessari skýrslu leggur verkefnastjórnin fram yfirlit yfir stöðu Heimsmarkmiðanna 17 hér á landi og alþjóðastarf þeim tengt og gerir tillögur að forgangsmarkmiðum stjórnvalda til næstu ára og um framtíðarverklag við framkvæmd markmiðanna hér á landi.

Tölfræði Heimsmarkmiðanna

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru á margan hátt langhlaup í átt að mjög metnaðarfullum markmiðum. Yfirmarkmiðin 17 eru afar víðfeðm og því reyndist nauðsynlegt að semja undirmarkmið svo unnt væri að meta stöðu þjóða m.t.t. yfirmarkmiðanna í heild. Undirmarkmiðin (e. targets) eru 169 talsins og eru þau tengd 232 mælikvörðum (e. indicators). Út frá mælikvörðunum hafa Sameinuðu þjóðirnar leitast við að smíða ítarlegt mælaborð fyrir Heimsmarkmiðin svo að þjóðir heimsins hafi sem skýrasta mynd af stöðu sinni gagnvart markmiðunum hverju sinni. Með þessari stöðuskýrslu fylgir tölfræðiviðauki þar sem sjá má fyrstu útgáfu af þessu mælaborði.

Hagstofa Íslands hefur átt fulltrúa í verkefnastjórn Heimsmarkmiðanna til ráðgjafar og stuðnings, þá ekki síst í þeirri grunnvinnu sem nauðsynleg er til að leggja hornsteininn að tölfræði Heimsmarkmiðanna. Sama fyrirkomulag verður áfram og mun Hagstofan halda utan um uppbyggingu á tölfræði Heimsmarkmiðanna. Verkefnastjórnin hefur leitað til fjölda stofnana til að finna áreiðanlegar gagnalindir og einnig hefur verið grandskoðað hvar Ísland kunni að vanta gögn. Verkefnastjórnin gerði samning við Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands um gæðamat á þeim gögnum sem fyrir lágu en mjög mikilvægt er að þau gögn sem lögð eru til grundvallar séu alþjóðlega samanburðarhæf og að allir mælikvarðar séu skýrt skilgreindir. Greiningarvinnan var unnin af víðtæku neti íslenskra fræðimanna þar sem stuðst var við fremstu sérfræðinga á hverju fagsviði. Afurð vinnunnar var ítarleg skýrsla um mat á gögnum og gagnabönkum tengdum Heimsmarkmiðunum sem reyndist traustur grunnur fyrir frekari tölfræðivinnu.

Tölfræði Heimsmarkmiðanna á sér einnig alþjóðlega hlið sem er ekki síður áhugaverð til að setja Heimsmarkmiðin í samhengi. Skilgreiningarvinna á mælikvörðum er enn í fullum gangi og starfar sérfræðinefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna (IAEG-SDGs) við það umfangsmikla og flókna verkefni að þróa alþjóðlega tækar mælingar fyrir undirmarkmiðin. Þessa nýju mælikvarða þarf svo að setja í íslenskt samhengi, finna traustar gagnalindir og vinna tölfræði sem sýnir stöðu Íslands gagnvart markmiðunum og um leið öðrum þjóðum út frá sömu mælikvörðum.

Hinn alþjóðlegi vettvangur Heimsmarkmiðanna getur verið nokkuð flókinn og jafnvel villandi þar sem fleiri en ein útgáfa af mælikvörðum og markmiðum er til staðar. Því er mikilvægt að átta sig á að mælikvarðar Sameinuðu þjóðanna eiga við um heiminn allan en lönd eða svæði geta líka sett sér eigin mælikvarða til að styðja við sína eigin markmiðasetningu. Þannig verður Evrópusambandið með tölfræðimælikvarða sem snúa að þeirra málefnum og jafnvel gætu orðið til norrænir tölfræðimælikvarðar ef Norðurlöndin taka sig saman. Þótt oft séu notaðir mælikvarðar Sameinuðu þjóðanna til að gæta samræmis er það ekki alltaf svo og því mikilvægt fyrir notendur tölfræðigagna um Heimsmarkmiðin að huga að uppruna og samræmi ef nýta á tölfræðimælikvarða rétt. Hið jákvæða er að gróska er í vinnslu tölfræðilegra upplýsinga um Heimsmarkmiðin og mikil eftirspurn er eftir tölfræði til markmiðasetningar og hagnýtingar bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Þegar fram líða stundir mun tölfræðin mynda sögu utan um framvindu þjóða gagnvart Heimsmarkmiðunum og vonandi verður það vottur um metnað gagnvart Heimsmarkmiðunum í verki.“

1 utanríkisráðuneytið, 6. september 2017, þróunarsamvinna sem fjárfesting og framlag til framtíðar, stjornarradid.is.

Stöðuskýrslan í heild

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta