Hoppa yfir valmynd
18. september 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 356/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 356/2019

Miðvikudaginn 18. september 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 29. ágúst 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála þá afstöðu Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. október 2018 að ekki sé gerður greinarmunur á því við útreikning ellilífeyris hvort greiðsla úr lífeyrissjóði sé vegna áunninna lífeyrisréttinda fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi kæranda til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. september 2018, óskaði hann eftir upplýsingum um hvort áunnin lífeyrisréttindi hans fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða yrðu meðhöndluð sem greiðslur frá lífeyrissjóðum og myndu þar með skerða greiðslur á ellilífeyri til hans frá stofnuninni eða hvort stofnunin líti á þessi réttindi sem hans séreign sem ekki kæmi til skerðingar á ellilífeyri. Með bréfi, dags. 12. október 2018, upplýsti Tryggingastofnun kæranda um að hvorki í lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar né í lögum nr. 90/2002 um tekjuskatt væri gerður greinarmunur á því hvort greiðsla úr lífeyrissjóði væri vegna áunninna lífeyrisréttinda fyrir eða eftir gildistöku framangreindra laga. Í kjölfarið sendi kærandi bréf til umboðsmanns Alþingis, dags. 6. nóvember 2018, þar sem hann fór fram á að umboðsmaður myndi skoða og meta hvort lagabreytingar eða skerðingar á greiðslu ellilífeyris geti virkað afturvirkt á áunnin réttindi hjá lífeyrissjóði þegar viðeigandi lög eða reglur séu settar. Í svari umboðsmanns Alþingis, dags. 27. nóvember 2018, kemur fram að umboðsmaður geti ekki fjallað um kvörtun kæranda þar sem hvorki Tryggingastofnun né úrskurðarnefnd velferðarmála hafi tekið ákvörðun eða úrskurðað um greiðslur ellilífeyris. Umboðsmaður Alþingis hafi áður svarað sambærilegu erindi frá kæranda, dags. 20. ágúst 2018, með bréfi, dags. 29. ágúst 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. ágúst 2019.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að reglum verði breytt á þann hátt að lífeyrisgreiðslur, sem voru greiddar fyrir gildistöku laga nr. 129/1997, verði skráðar sem greiðslur í séreignasjóð og komi ekki til skerðingar á útreikningi á ellilífeyri við útborgun þeirra.

Kærandi greinir frá því að í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. september 2018, hafi hann verið upplýstur um að ekki sé heimilt að samþykkja að lífeyrir, sem sé áunninn fyrir 1. júlí 1998, sé skráður sem greiðsla úr séreignasjóði sem kæmi þá ekki til skerðingar við útreikning ellilífeyris. Kærandi hafi byrjað að greiða í lífeyrissjóð árið X í þeirri trú að greiðslur úr lífeyrissjóði myndu ekki skerða greiðslu ellilífeyris, enda hafi málið verið kynnt þannig fyrir honum á þeim tíma. Kærandi vísar til þess að hann hafi lesið dóma þar sem fram hafi komið að óheimilt sé að breyta vaxtakjörum lána eftir á og viðeigandi stofnanir hafi þurft að endurgreiða óheimilar innheimtur.

Kærandi hafi ekki hafið töku ellilífeyris eins og hann hafi ætlað sér vegna skerðingar. Tilgreinir kærandi í kæru dæmi um hvernig mismunandi meðhöndlun lífeyrissjóðsgreiðslna muni hafa áhrif á greiðslur ellilífeyris til hans.

III.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af kæru verði ráðið að hún lúti einungis að svari stofnunarinnar frá 12. október 2018 við erindi kæranda, dags. 6. september 2018. Þar er meðhöndlun Tryggingastofnunar á lífeyrissjóðstekjum útlistuð fyrir kæranda og vísar stofnunin þar til laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og laga nr. 90/2002 um tekjuskatt.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að í bréfi Tryggingastofnunar frá 12. október 2018 felist einungis svar við fyrirspurn kæranda frá 6. september 2018, en ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála. Afgreiðslan er því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Í þeim tilgangi að upplýsa málið nægilega óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um hvort stofnunin hefði tekið stjórnvaldsákvörðun varðandi umsókn kæranda um ellilífeyri. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hefur engin umsókn borist frá kæranda um ellilífeyri og því liggur ekki fyrir formleg ákvörðun í málinu.  

Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta