Samkomulag ríkisins við Garðabæ um kaup á Vífilsstöðum
Fjármála- og efnhagsráðuneytið f.h. ríkissjóðs hefur náð samkomulagi um að Garðabær kaupi jörðina Vífilsstaði. Um er að ræða alls 202,4 ha sem er svæðið í kringum Vífilsstaðaspítala, svæði austan Vífilsstaða (Skyggnir), núverandi golfvallarsvæði GKG, friðland í Vífilsstaðahrauni (Svínahrauni) og Rjúpnahæð á móts við Kjóavelli.
Kaupverðið nemur 558,6 m.kr og byggir það á mati á grunnverði landsins sem aðilar stóðu sameiginlega að.
Samningurinn gerir ráð fyrir að til viðbótar grunnverði eigi ríkið rétt á 60% hlutdeild í ábata af sölu byggingarréttar á svæðinu verði byggingarmagn aukið umfram það sem gert var ráð fyrir við verðmat landsins. Samningur um ábataskipti gildir til nokkurra áratuga. Undanskildar eru allar húseignir ríkisins á Vífilsstöðum en gerðir verða lóðarsamningar um eignirnar.
Gert er ráð fyrir að samkomulagið verði undirritað síðar í mánuðinum.