Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla starfshóps um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna

Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði þann 21. mars sl. starfshóp sem var annars vegar falið að kortleggja árlega fjárfestingargetu lífeyrissjóðanna og hins vegar að meta hvort æskilegt sé að breyta núverandi löggjöf um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna, einkum með tilliti til þess hvort rétt sé að áskilja lágmarksfjárfestingar erlendis (gólf) eða hámarksfjárfestingar erlendis (þak).

Verulegu máli skiptir fyrir lífeyrissjóði og lífeyrisþega að gengisstöðugleiki sé mikill svo ávöxtun sé örugg og réttindi trygg.

Í starfshópnum sátu Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, formaður, Hersir Sigurgeirsson, dósent við Háskóla Íslands, Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs og Fjóla Agnarsdóttir, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Starfshópurinn hefur lokið störfum og skilað skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra.

Helstu niðurstöður starfshópsins eru eftirfarandi:

  • Bent er á að lífeyrissjóðunum er í hag að gjaldeyrisviðskipti þeirra valdi sem minnstum sveiflum á gengi krónunnar. Því er æskilegt að þau verði tiltölulega jöfn og fyrirsjáanleg. Hópurinn bendir á að hugsanlegt er að ná þessu markmiði að einhverju leyti með því að byggja á fjárfestingaráætlunum sjóðanna og skýrslugjöf til opinberra aðila, sérstaklega Seðlabanka Íslands.
  • Ekki er talin bráð þörf á að breyta lögum nú, þar sem núverandi lög um skyldutryggingu lífeyrissjóða fela í sér verulegar heimildir til erlendrar fjárfestingar. Fyrirsjáanlegt er að flestir lífeyrissjóðir muni nýta sér þær á næstu árum og áratugum að verulegu marki.
  • Æskilegt er að skoðaðar verði leiðir til að koma í veg fyrir að gengisáhætta vegna erlendra eigna valdi umtalsverðum vandræðum fyrir lífeyrissjóðina og sjóðfélaga. Hugsanlegar leiðir eru reifaðar stuttlega í skýrslunni en starfshópurinn gerir þó enga þeirra að sinni tillögu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta